Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 15:04:42 (112)


     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 7. þm. Reykn. sagði að í EES-málunum hefðu öll mál verið í mótun. Það kann að vera að hægt sé að orða þetta svo. Engu að síður var það þannig í þessum samningaviðræðum að þegar búið var að stíga ákveðin skref þá var ekki hægt að stíga þau til baka. Það hefur komið mjög skýrt í ljós í sambandi við fyrirvarana að eftir að búið var að fallast á að sleppa ákveðnum fyrirvörum, t.d. í sambandi við landakaupamálin, þá var ekki hægt að taka þá upp aftur. Þannig gekk þetta í gegnum allt samningaferlið að þegar á þessum tíma var rætt um það eins og kemur fram í skýrslu utanrrh. að settur yrði upp EES-dómstóll sem hefði bindandi forúrskurði. Þetta atriði fór raunar ekki út úr samningamálunum fyrr en í maí 1991 ef ég man rétt. Og það verður einnig að taka það fram að í andsvari sínu, sem er að vísu mjög tímabundið, og ég geri ráð fyrir því að hv. 7. þm. Reykn. muni koma að því síðar hér í umræðunum því hann hefur tækifæri til þess, þá minntist hann ekki einu orði á það hvernig hefði staðið á því að þrátt fyrir ýmsar ábendingar hefði hann ekki sinnt á nokkurn hátt athugun í forsrn. á þessum þætti málsins sem veit að stjórnarskrármálinu.