Evrópskt efnahagssvæði

10. fundur
Mánudaginn 31. ágúst 1992, kl. 14:23:44 (147)

     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Mig langar til þess í upphafi máls míns að fjalla aðeins um hugtak sem ég kalla leikreglur í viðskiptum. Þessar leikreglur getum við nefnt að séu öll okkar viðskiptalöggjöf, reglugerðir, stjórnvaldsfyrirmæli og jafnvel stjórnarskráin sjálf sem ráða því við hvaða skilyrði atvinnulífið starfar af hálfu stjórnvalda, hvernig skyldum og réttindum er skipað. Þessar leikreglur í víðtækasta skilningi eru nefnilega mjög ráðandi um það hvernig atvinnulífi hverrar þjóðar vegnar, hvort það nýtur skilyrða til hagvaxtar, hvort réttindi og skyldur eru óljós, hvort fyrirtæki þurfa að þola geðþóttaákvarðanir eða hvort þau búa við tiltölulega stöðugt lagalegt umhverfi þar sem þeir sem standa í rekstri geta verið þokkalega vissir um hvað býr þeim, hvað kemur, hvað má, hvað má ekki og hvernig þeirra starf allt saman getur þróast.
    Það er grundvallaratriði í skilningi á sögu og því hvernig hagvöxtur óx á Vesturlöndum á sínum tíma að rekja það til þróunar þessara leikreglna, sérstaklega þróunar eignarréttarins og ýmissa framfara einmitt á sviði viðskiptalöggjafar. Um langan aldur hafði það verið eilíft viðfangsefni þeirra sem réðu ferð í stjórn lands að sjá til þess að það væri hægt að brauðfæða íbúana. Það var sífellt viðfangsefni hvernig ætti að auka framleiðslu jafnhratt og íbúafjöldi jókst og í rauninni var það um langan aldur að lífskjör stóðu nokkurn veginn í stað. Það er ekki fyrr en kannski fyrir svona 200 árum að viðskiptalöggjöf fer að taka þeim breytingum að skilyrði skapast fyrir framfarir. Þetta gildir enn þann dag í dag og það má segja að undirstaða framfara á Vesturlöndum hafi einmitt verið þessar breytingar sem hafa verið að gerast í löggjöfinni ekki síður heldur en þær tækniframfarir sem harfa orðið á þessum tíma. Lykilatriðið í viðskiptalöggjöf sem skilar árangri er einmitt að það sé skýrt kveðið á um réttindi og skyldur og kannski fyrst og fremst að í löggjöfinni ríki gagnkvæmni, að það sem veiti einum rétt skapi öðrum skyldur og að þetta standist nokkurn veginn á bæði milli einstaklinganna og fyrirtækjanna. Það er líka afar mikilvægt fyrir framþróun í atvinnulífi hvers lands að það sé einhver stöðugleiki í löggjöfinni þannig að fyrirtæki sem eru að starfa þurfi ekki að búast við því að löggjöfinni sé umturnað, það séu gerðar viðamiklar breytingar á einni viku sem breytir mjög starfsskilyrðum, heldur er nauðsynlegt að það sé sá stöðugleiki að menn geti svona nokkurn veginn verið vissir um hvað bíður þeirra eftir mánuð eða ár. Á þessu byggjast t.d. allar fjárfestingar og allar þær ákvarðanir sem teknar eru til lengri tíma.
    Það hefur líka sannast í uppbyggingu á þessum leikreglum í viðskiptum að markaðshagkerfi hefur í grundvallaratriðum yfirburði yfir það hagkerfi sem kennt er við sósíalisma, svo maður tali ekki um hvers kyns útgáfur af einræði og vanþróuðum hagkerfum þar sem menn hafa reynt alls kyns tilraunir á þessu sviði. Og það er líka athyglisvert að þetta markaðshagkerfi hefur líka reynst best til þess að fást við þau vandamál sem upp koma þegar við reynum að auka hagvöxt. Ég nefni t.d. sérstaklega í þessu sambandi umhverfismál. Ef við lítum til þess hvaða lönd hafa náð bestum árangri í umhverfismálum og hvar menn hafa mesta virðingu fyrir umhverfinu, hvar menn telja mest á ríða að viðhalda náttúrunni og níðast ekki svo á henni með framförum og fjárfestingum og umbreytingum að hún líði fyrir, þá er það einmitt í hinum vestræna heimi. Í kommúnistaríkjunum fyrrverandi horfa menn upp á hver náttúruspjöllin eftir önnur. Í þriðja heimnum er stórkostlegt virðingarleysi fyrir náttúrunni mjög víða og í rauninni er það einungis í þeim löndum sem kenna sig við markaðshagkerfi þar sem einhverjar umtalsverðar framfarir hafa orðið á þessu sviði. Það er líka í þessum löndum þar sem atvinnulíf og þeir sem eru að reka fyrirtækin eru hvað helst meðvitaðir um þessa þætti. Rauði þráðurinn í umfjöllun atvinnulífssamtaka um umhverfismál er einmitt að huga að því sem kallað er sjálfbær þróun, að atvinnulífið gangi ekki svo nærri umhverfinu að það komi í veg fyrir framþróun þess þegar fram líða stundir. Þetta er stefnumörkun sem hvarvetna á sér stað og þetta á sér einungis stað einmitt í okkar heimshluta þar sem við höfum valið okkur þær leikreglur að hafa markaðshagkerfi.
    Við í okkar vestræna heimi gerum líka þær kröfur á hendur atvinnulífinu að það haldi uppi lífskjörum sem eru sambærileg eða ekki síðri en þar sem annars staðar tíðkast í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við og það eru einmitt þau lönd í heiminum sem hafa náð hvað mestum árangri í efnahagsmálum. En til þess að geta uppfyllt slíkar kröfur þarf atvinnulífið líka að búa við leikreglur, starfsskilyrði sem gerir því kleift að ná slíkum árangri. Þetta er kannski grundvallartriði þegar við fjöllum um þennan samning um hið Evrópska efnahagssvæði sem hér liggur fyrir. Þetta er spurning um það hvaða leikreglur við viljum að íslenskt atvinnulíf búi við, spurning um það hvort þessar leikreglur eigi að vera áreiðanlegar og spurning um það hvort þessar leikreglur eigi að skapa mönnum réttindi og skyldur sem séu í senn sanngjarnar og hvetji til árangurs.
    Eitt megineinkenni hagvaxtar í heiminum á undanförnum árum hefur verið mikil aukning utanríkisviðskipta. Þetta er kannski eitt megineinkenni þeirrar uppsveiflu í efnahagslífi sem varð á síðasta áratug. Á áratugnum þar á undan, þ.e. á áttunda áratugnum, var almenn stöðnun í heimsviðskiptum og almenn stöðnun í efnahagslífi. Ástæðan fyrir því var fyrst og fremst sú að í kjölfar olíukreppu og hækkandi orkuverðs gripu mörg ríki til verndaraðgerða, aðgerða sem virkuðu hamlandi á milliríkjaviðskipti en þegar kom fram á níunda áratug breyttu mörg ríkin um stefnu og menn sneru við blaðinu og fóru að leggja mikið upp úr utanríkisviðskiptum. Þetta hefur verið algert lykilatriði í hagvexti á síðustu árum. Það hefur skipt sköpum í því hvort þjóðum hefur vegnað vel eða ekki, hvort þeim hefur tekist að byggja upp sterkar alþjóðlegar samkeppnishæfar útflutningsgreinar sem gætu markaðssett sínar vörur á hvaða markaði sem er í heiminum. Það hefur líka verið einkennandi í þessari þróun að ríkin hafa verið að opna sína markaði, menn hafa verið að taka upp sambærilegar leikreglur, menn hafa verið að hverfa frá ríkisstyrkjum og menn hafa verið að stuðla að því að samkeppni gæti aukist. Þetta þurfum við líka að hafa í huga þegar við ræðum samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði.
    Eitt í viðbót sem við skulum velta fyrir okkur er spurningin um það hvernig þessar leikreglur í viðskiptum, sem eru meira og minna að verða sambærileg milli þeirra þjóða sem eru að ná mestum árangri, koma við það sem við köllum fullveldi og það hugtak eða sjálfstæði, og hvernig þetta kemur líka heim og saman við okkar umfjöllun um þennan samning. Því er haldið fram að með því að skrifa undir samning sem þennan, þar sem við tökum upp hinar sameiginlegu reglur varðandi utanríkisviðskipti á stóru sviði, séum við að draga úr okkar fullveldi, skerða okkar sjálfstæði. ( ÓÞÞ: Samkvæmt því sem sérfræðingar utanrrn. segja, skjalfest plagg.) Það hefur stundum verið rætt að hagfræðingar hafi ýmsar skoðanir á hlutunum og það gildir ekki síður um lögfræðinga að þeir hafa mismunandi skoðanir á hlutunum, enda væru þeir líklega ekki sú stétt sem þeir eru í dag ef það ekki væri þannig. En það sem mig langar til að velta fyrir mér í þessu sambandi er hin viðskiptalaga hlið þessa máls.
    Ef við skrifum ekki undir samning sem þennan og erum í rauninni ekki aðilar að neinum milliríkjasamningi um viðskipti, hvernig skyldi það þá koma út fyrir eitthvert fyrirtæki, íslenskt fyrirtæki sem stundar milliríkjaviðskipti?
    Nú er það svo að íslensk fyrirtæki, hvort sem þau flytja inn vörur eða flytja út vörur, starfa á fjármagnsmarkaði, taka lán eða kaupa vörur til fjárfestinga frá útlöndum þurfa að skrifa undir samninga við erlenda aðila. Þetta eru yfirleitt samningar milli einkaaðila. Stundum eiga opinberir aðilar hlut að máli, en ég vil fullyrða að í öllum þessum samningum, kannski með örfáum undantekningum, er miðað við það að erlendir dómstólar skeri úr ef deilur verða. Eins og staðan er í dag eru íslenskir aðilar sjálfir að afsala til útlanda í sínum deilumálum dómsvaldi og úrskurðarvaldi á flestum þeim sviðum sem viðskiptin eru á. En með samningnum sem við höfum fá okkar fyrirtæki smárétt, ekki mikinn, en einhvern rétt og í þessu samhengi get ég ekki tekið undir það að með samningnum sem slíkum séum við að afsala okkur fullveldi eða afsala okkur réttindum. Við erum þvert á móti að fá meiri rétt en við mundum ella hafa.

    Við getum líka velt því fyrir okkur hvað gerist að óbreyttu ef íslenska ríkið lendir upp á kant við erlent ríki vegna ríkisstyrkja eða einhverra aðgerða í okkar atvinnulífi eða vegna einhverra annarra ástæðna. Nú er það svo í þeim fríverslunarsamningum sem við höfum í dag að ef eitthvað kemur upp þá eru heimildir til aðgerða og gagnaðgerða ef ekki næst saman og því fyrirkomulagi er að hluta til haldið í samningnum sem við höfum nú. Hvaða bolmagn halda menn að íslenska ríkið hafi til þess að beita viðskiptaþvingunum og hvaða bolmagn halda menn að önnur ríki hafi til þess að beita okkur viðskiptaþvingunum? Ég vil halda því fram að við höfum býsna lítið bolmagn, við höfum býsna litla möguleika til þess að ná fram okkar rétti ef eitthvað bjátar á. En með samningnum fáum við þó smámöguleika, ekki mikla.
    Ég vil t.d. nefna það í þessu sambandi að í þeim milliríkjadeilum sem hafa verið líklega mestar í sögu okkar lýðveldis, þ.e. í þorskastríðunum við Breta, þá datt okkur ekki í hug að við hefðum bolmagn til þess að beita Breta einhverjum viðskiptaþvingunum. Við nefndum það stundum að réttast væri að útiloka breskar vörur frá íslenska markaðnum. En við hættum við það samstundis og það var nefnt vegna þess að við vissum að það mundi skaða okkur en ekki Breta. Mín niðurstaða er sú að með því að skrifa undir þennan samning séum við í raun að fá meiri rétt en við höfum, að við séum að styrkja okkar fullveldi.
    Eitt einkenni á efnahagsþróun og þróun atvinnulífs nú á tímum er að rekstur er meira og meira að verða alþjóðlegur. Fyrirtæki eru með starfsemi í mörgum löndum, fyrirtæki selja á markaði í mörgum löndum, byggja upp alþjóðleg vörumerki og gera ýmsar slíkar ráðstafanir til þess að geta aukið starfsemi sína og bætt lífskjör. Þetta er líka grundvallaratriði fyrir okkur ef við viljum byggja upp okkar útflutning. Okkar sjávarútvegur mun í framtíðinni meira og minna þurfa að þróast einmitt í samstarfi við erlenda aðila. Við getum ekki selt okkar vörur á erlenda markaði nema með því að byggja upp öfluga starfsemi erlendis og tengja okkur við erlend fyrirtæki.
    Mikið hefur verið rætt í þessum umræðum um stjórnarskrármálið, hvort það væri nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni eða ekki. Ég verð að segja það að mér finnst það afar óheppilegt, svo ekki sé meira sagt, að síðasta ríkisstjórn sem hafði mikið vald á þessu máli skyldi ekki sjálf á þeim tíma gera þær ráðstafanir sem þeir sem í henni sátu telja nú nauðsynlegar. Ef allt hefði verið eðlilegt í þessu máli hefði síðasta ríkisstjórn að sjálfsögðu lagt fram tillögu og frv. til breytingar á stjórnarskránni fyrir síðustu kosningar og fengið það afgreitt þá í því skyni að það væri hægt að taka á málinu nú þegar samningurinn liggur fyrir.
    Ég ætla ekki að bæta við neinu um lögfræðileg efni þess sem menn ræða í sambandi við stjórnarskrána. Ég vil hins vegar benda á eitt sem mér finnst að menn taki ekki mikið á en það er að heimilt er að segja þessum samningi upp með 12 mánaða fyrirvara og á það benda fjórmenningarnir í sinni álitsgerð. En þá vaknar auðvitað sú spurning: Eru þeir sem mæla í mót samningnum nú tilbúnir til þess að lýsa því yfir að þeir ætli sér að segja þessum samningi upp þegar og ef þeir komast til valda? Megum við eiga von á því við næstu kosningar að núverandi stjórnarandstaða mæti með það baráttumál að segja samningnum upp? ( Gripið fram í: Hvaða samningi?) Um hið Evrópska efnahagssvæði. ( SJS: Það þarf ekki, hann verður aldrei samþykktur.) Það þarf ekki, segir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. En ég vil minna á í þessu sambandi að þegar EFTA-samningurinn var samþykktur þá gengu Alþb. og Framsfl. ekki til kosninga vorið 1971 með það að markmiði að segja þeim samningi upp þrátt fyrir að Alþb. væri á móti honum. Og meira en það, næsta ríkisstjórn þar á eftir gerði samning við Evrópubandalagið, fríverslunarsamning, mjög hliðstæðan EFTA-samningnum og þannig hygg ég að muni fara fyrir, ja, segjum Alþb. ef svo ólíklega skyldi nú vilja til að það kæmist aftur í ríkisstjórn, að það mun ekki segja þessum samningi upp.
    Annað sem kemur líka til er að það má búast við því, og ég er raunar viss um að Alþingi mun samþykkja þennan samning og að það verður ekki samþykkt frv. til breytinga á stjórnarskrá. En mun stjórnarandstaðan, ef hún kemst til valda eftir næstu kosningar, þá flytja frv. til laga um breytingar á stjórnarskránni til þess að bæta úr því sem er gert á hennar hlut að því sem þeir telja? Og eigum við von á því fyrir næstu kosningar, ef svona gengur eftir, að stjórnarandstaðan muni boða í raun tvennar kosningar ef þeir komast til valda? Ég hygg að nauðsynlegt sé að við fáum svör við þessu í umræðum um þetta mál á næstu vikum.
    Það mætti fjalla mikið um þennan samning, af hverju hann er til kominn, um innri markaðinn að Evrópubandalaginu, þýðingu hans, af hverju við þurfum að taka þátt í þessu og af hverju við munum gera það. Ég vil einungis segja það að ef við skoðum Íslandssöguna, þá er í rauninni alveg ótrúlegt hvað hlutir hér á Íslandi hafa þróast í samræmi við það sem er að gerast og hefur verið að gerast í Evrópu og hvernig atburðir í Evrópu hafa haft áhrif á það sem gerist hér. Við getum þess vegna sagt sem svo að landnám Íslands hafi orðið vegna atburða í Noregi. Við tókum kristni á svipuðum tíma og aðrir. Síðan misstum við sjálfstæði. Það má halda því fram að stór ástæða fyrir því að við misstum það á sínum tíma hafi einmitt verið klúður í viðskiptalöggjöf okkar. Það má halda því fram. Við skiptum um sið, aflögðum kaþólskan og tókum upp lúterskan í kjölfarið á breytingum í Evrópu. Við viðurkenndum danskt einveldi í kjölfar breytinga sem urðu í Evrópu. Uppgangur þjóðernishyggju á síðustu öld hafði víðtæk áhrif hér og var kannski ástæða þess að okkur tókst að ná sjálfstæði. Á þessari öld erum við ekki ósnortin af þeim breytingum sem verða í Evrópu. Á kreppuárunum tókum við upp stjórnarhætti sem voru við lýði í Evrópu og í helstu viðskiptalöndum okkar. Eftir stríð erum við að vísu tíu árum á eftir því sem gerist. Við viðhöldum innflutningshöftum tíu árum eftir að Evrópubúar og helstu viðskiptalönd okkar hafa aflagt þau. Við göngum í EFTA tíu árum eftir stofnun þess. Þetta er í rauninni í fyrsta sinn sem við ræðum samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði að við tölum um að fylgja þeirri þróun sem hefur verið í viðskiptum í Evrópu á þessari öld á sama tíma og hún gerist. Yfirleitt höfum við verið tíu árum á eftir tímanum. En ég held að það hljóti að vera lykilatriði í þessu öllu saman ef við Íslendingar ætlum okkur að ná sömu lífskjörum og sama hagvexti og gildir í kringum okkur að við verðum að fylgjast með þróuninni.
    Nokkuð hefur verið rætt um hvort Evrópska efnahagssvæðið sé varanlegt fyrirkomulag, hvort við munum á næstu árum þurfa að gjörbreyta samningnum og hvort atburðir í Evrópu og stækkun Evrópubandalagsins muni gera þetta allt saman að einhverri hringavitleysu. Að sjálfsögðu liggur það fyrir núna að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði verður ekki varanlegt fyrirkomulag fyrir flest EFTA-ríkin. Við munum innan eins árs, tveggja eða þriggja ára þurfa að gera upp hug okkar gagnvart Evrópubandalaginu. Margir geta gert upp hug sinn gagnvart Evrópubandalaginu með því að segja strax nei og afgreitt málið í einni slíkri stuttri setningu. Nei. En við erum ekki ein í heiminum. Við munum þurfa að svara þeirri spurningu hvort við viljum gerast aðilar, sækja um aðild að Evrópubandalaginu með almennilegri, alvarlegri úttekt á því hvað það þýðir fyrir okkur og hvað ekki. Síðan á grundvelli slíkrar úttektar þurfum við að ákveða hvort við viljum sækja um aðild eða ekki. Þetta er allt of stórt mál til þess að hafa svör eins og já eða nei á hraðbergi.
    Alveg er sama þótt menn afgreiði slík mál í einni hendingu núna með því að vera fullvissir um að þeir vilji ekki sækja um aðild. Á endanum hljóta það að verða hagsmunir okkar, hagsmunir atvinnulífsins, hagsmunir þjóðarinnar, markmið okkar hvað við viljum, hvort við viljum sambærileg lífskjör og eru í Evrópu sem ráða því hvort við sækjum um aðild eða ekki.