Staða Kópavogshælis

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 16:34:50 (175)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 11. þm. Reykv. er afskaplega ósýnt um að fara rétt með. Ég hafði það ekki eftir landlækni að það væru engin vandamál á Kópavogshælinu. Það eru vandamál á mörgum deildum Ríkisspítala, þar á meðal á Kópavogshælinu. Það sem ég hafði eftir landlækni var að hann teldi ekki ástæðu til að hafast frekar að en gert var í samkomulaginu milli stjórnenda Kópavogshælis og forstjóra Ríkisspítalanna þann 28. ágúst.
    Það var spurt hér: Hver ber ábyrgð á þessum niðurskurði? Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar gera það að sjálfsögðu. Stjórn Ríkisspítalanna var hins vegar falið að framkvæma þá niðurstöðu sem við, stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, samþykktum við fjárlagagerðina. Ég tel að sú afgreiðsla stjórnarnefndar Ríkisspítala hafi verið eins vel unnin og framast var kostur af þeirra hálfu. En ábyrgðin er að sjálfsögðu okkar allra.
    Ég vil taka undir það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan. Meginatriði málsins er auðvitað það sem hann lýsti: hver er framtíðin? Kópavogshæli starfar samkvæmt reglugerð sem tók gildi þann 1. júlí 1986. Með henni var ákveðið að hlutverk stofnunarinnar væri að taka til þjálfunar, uppeldis og vistunar vangefinna sem sakir fötlunar sinnar verða að dveljast á sjúkrahúsi. Stefnan hefur verið að útskrifa aðra sem geta dvalið á sambýlum. Það hefur verið gert vegna þess að fækkað hefur verið á Kópavogshæli um rúmlega 40 á þessum sex árum og það er áfram stefnan að reyna að útskrifa þá einstaklinga sem geta dvalið á sambýlum. Engu að síður er það mat stjórnenda stofnunarinnar að það sé líklegt að þörf sé á um 100 vistunarrýmum á Kópavogshæli til þess að vista þá þroskaheftu einstaklinga sem þurfa á læknishjálp að halda að staðaldri. Þeir eru ekki allir á Kópavogshælinu nú. Þeir eru dreifðir um ýmsar aðrar stofnanir sem hafa þurft að sinna þessu fólki.
    Ég vil aðeins taka það fram í lokin, sem ég bið þingmenn að hugleiða, að með breytingu á lögunum um málefni fatlaðra sem gengu í gildi í dag urðu miklu meiri breytingar en menn gera sér kannski ljóst vegna þess að á milli félmrn., menntmrn. og heilbrrn. voru mörg grá svæði þar sem þessar lagabreytingar taka af tvímæli. Heilbrrn. er nú að skoða tilflutning sem þarf að verða vegna þessara nýju laga sem ganga í gildi í dag. Það er ekki bara Kópavogshælið, sem kemur þar til skoðunar og hvaða breytingar þarf að gera þar, heldur eru það viðfangsefni eins og Heyrnar- og talmeinastöð, Sjónstöð, Sogn og þau erfiðu mál ýmissa geðfatlaðra einstaklinga sem heilbrrn. hefur verið að reyna að leysa að undanförnu án þess að njóta til þess sérstaks stuðnings geðlækna. Nú er hætt við því að þau mál falli undir lög um málefni fatlaðra og ég er ekki alveg viss um það, virðulegi forseti, að sú breyting sé, a.m.k. í þeim efnum, til heilla fyrir þá einstaklinga sem heilbrrn. hefur stundum með nokkrum vandkvæðum verið að reyna að verja án kannski allt of mikils stuðnings frá læknastéttinni. (Gripið fram í.) Ég var að skýra frá því, virðulegi forseti, að heilbrrn. er að undirbúa tillögur, ekki aðeins um Kópavogshæli heldur allar aðrar stofnanir sem þarf að flytja vegna þessara laga um málefni fatlaðra. Það er ekki bara Kópavogshæli sem þar kemur til sögunnar heldur allar aðrar stofnanir. Auðvitað tínum við þær ekki upp úr tíu pokum þó að kannski megi segja að það hafi verið aðferð fyrrv. heilbrrh. að tína þær upp úr tíu pokum eða kannski öllu heldur aðstoðarmanns hans.