Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 18:05:26 (186)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sá er munurinn á stjórnarandstöðunni og stjórnarliðinu að stjórnarliðar telja og hafa fyrir því rökstudd álit, sem eru vel og röklega upp byggð, að ekki sé verið að ganga á fullveldi landsins með þessum samningum. Stjórnarliðar telja að það eigi ekki að auðvelda það að þingmenn, jafnvel aukinn meiri hluti, geti afsalað sér hvers konar fullveldi landsins með einfaldri samþykkt á þinginu. Það undarlega hefur gerst og það er afskaplega undarlegt í þessu máli, ég tel það reyndar regin pólitísk mistök, að stjórnarandstaðan hefur í vandræðum sínum í málinu flutt frv. til stjórnlagabreytingar, að auðvelda þinginu án kosninga að afsala sér hvers konar fullveldi landsins. Ég hefði aldrei trúað því fyrir fram að stjórnarandstöðunni yrði svona hált á málinu og mundi lenda í þeim vandræðum að láta slíkt frv. frá sér fara.