Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 21:55:39 (213)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það má vera að hér sé um misskilning að ræða. Ég skildi þó svo ræðu hv. þm. svo að afstaða hennar og ég ætla Kvennalistans í þessu máli byggist á því sem Kvennalistinn hefur lesið í skoðanakönnunum, hvað fólk, sem þar svaraði spurningum, telur að sé efnisinnihald samningsins.
    Ég vil spyrja hv. þm.: Hefur hann lesið samninginn? Ef svo er, hvar í samningnum eru ákvæði sem kveða á um það eða benda til þess að við séum að gefa eftir fullveldisyfirráð okkar yfir fiskveiðilandhelginni? Hvergi. Það er eitt meginatriðið í þessum samningum að við undirgöngumst ekki á nokkurn hátt sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins. Það hefur frá öndverðu verið talinn meginstyrkurinn í því að leita samninga með þessum hætti að við þyrftum ekki á nokkurn hátt að undirgangast sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins. Ég spyr hv. þm.: Hvar í ósköpunum í þessum samningum, á hvaða blaðsíðu, eru ummerki um að við séum að undirgangast fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins? Ég hef hvergi séð það. Mér þætti gaman ef hv. þm. vitnaði í þá grein og tilgreindi á hvaða blaðsíðu sú grein er í samningnum sem vísar til þess að við séum að undirgangast sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins. Frá öndverðu hefur það nefnilega verið meginatriði þessara samninga að við erum ekki að gera þetta. Það eru ekki niðurstöður í skoðanakönnunum sem ráða því hvert er efnisinnihald þessara samninga heldur samningurinn sjálfur svo sem hann er undirritaður. Það er kjarni málsins og á þeim grundvelli eiga menn að taka afstöðu og út frá þeim efnisatriðum eiga menn að ræða í þessari umræðu. Hitt get ég svo tekið undir að það er full ástæða ef hv. þm. er reiðubúinn að taka þátt í því að koma því skilmerkilega út til fólksins í landinu að hér er um mikinn misskilning að ræða og ákvæði af þessu tagi er hvergi að finna í samningnum. Ef hv. þm. vill taka þátt í að koma þeim skilaboðum út til fólksins í landinu þá fagna ég þeirri góðu samvinnu.