Beiðni um utandagskrárumræðu

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 13:46:25 (233)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er eflaust þörf á að ræða störf forsætisnefndarinnar eftir að hún hefur nú verið kjörin á þann hátt að stjórn og stjórnarandstaða eiga þar sína fulltrúa því það sköpuðust nokkuð óvenjulegar aðstæður hér í fyrra. Í 10. gr. þingskapalaga stendur einmitt: ,,Forsætisnefnd skipuleggur þinghaldið.`` Ég veit ekki hvaða skilning hæstv. forseti leggur í þessa setningu. En svo mikið veit ég að þegar ég kom af fundi þingflokksformanna í gær með drög að þinghaldi þessarar viku þá hafði fulltrúi Kvennalistans í forsætisnefnd hvorki heyrt það plagg né séð. En það er kannski ekki meiningin að forsætisnefnd komi nálægt skipulagi hverrar viku. Það skýrist kannski hér í framhaldinu.
    En það er fyrst og fremst þessi utandagskrárumræða sem mig langar að gera að umræðuefni. Ég vil taka undir það að ég tel afar brýnt að við fáum umræðu um atvinnu- og efnahagsmál. Það hafa verið að koma fram upplýsingar um stöðu ríkissjóðs og það hvernig ríkisstjórninni hefur gjörsamlega mistekist í sinni efnahagsstefnu, fyrir utan það alvarlega ástand í efnahagsmálum sem við stöndum frammi fyrir. Ég tel þetta ástand fyllilega réttlæta það að umræða um EES-samninginn verði frestað í einn dag. Einn dagur til eða frá breytir litlu um afgreiðslu þess samnings, enda er unnið að honum og fylgimálum hans í nefndum þingsins. Ég veit ekki annað en að utanrmn. hafi haldið sínu starfi áfram þó að ekki sé búið að vísa samningnum til hennar. Þannig að ég skora á forseta að verða nú við þeirri beiðni og hleypa þessari utandagskrárumræðu að. Það skiptir ekki sköpum í afgreiðslu EES-samningsins þó að sú umræða verði leyfð.