Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 16:04:14 (257)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það með hæstv. fjmrh. að það væri ekkert óeðlilegt við það að menn settust niður við að ræða þennan afmarkaða þátt málsins. Vilja menn hafa sérstök ákvæði um það að þing geti komi saman með óvenjulegum hætti og starfað í skamman tíma og þá jafnvel giltu að einhverju leyti sérstakar reglur um málsmeðferðina? Þetta hefðu allt saman getað verið frambærileg rök hjá hæstv. ríkisstjórn að færa fyrir sig ef hún hefði kannað hvort það mundi stranda á andstöðu stjórnarandstöðunnar, ef þingið yrði kannað, að slík fyrirmæli eru ekki í þingsköpunum. Það var ekki gert, hæstv. fjmrh. Óráðið var slíkt á ríkisstjórninni á Þingvöllum að mér er ekki kunnugt um að það hafi verið með neinum hætti leitað eftir því við stjórnarandstöðuna, sem auðvitað var þó skylt að gera, hvort hægt væri að ná samkomulagi um það að þingið kæmi saman og lyki þessu máli í samkomulagi með einhverjum skjótum hætti. ( Gripið fram í: Alþb. var búið að lýsa því yfir að . . .  ) Alþb. var búið að gera þingflokkssamþykkt að það fyrir sitt leyti væri reiðubúið til þess að stuðla að slíku og ég held að aðrir forustumenn stjórnarandstöðunnar hafi í fjölmiðlaviðtölum gert slíkt hið sama. Ég heyrði það ótrúlega --- (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Ég vil nú fá lengri tíma, virðulegi forseti, því að hér eru verulegar frátafir vegna stráksskaps í þingflokksformanni Alþfl. En það ótrúlega skeði að hæstv. forsrh. bar fyrir sig blaðafregnir um að það virtist ekki vera fullkomin samstaða um það hvernig ætti að taka á málinu ef marka mætti einhverjar yfirlýsingar sem einhverjir og einhverjir þingmenn höfðu gefið við fjölmiðla eða í viðtölum og þess vegna hefði þetta ekki verið hægt. Auðvitað hefði ríkisstjórnin a.m.k. að lágmarki átt að óska eftir formlegum fundum með forustumönnum stjórnmálaflokkanna og stjórnarandstöðunnar og ganga þá frá því að ekki væri um það að ræða að samkomulag gæti orðið um afgreiðslu málsins á þingi og þess vegna væru ekki forsendur til annars en bráðabirgðalaga. Það hefði þá frekar verið einhver lágmarksmálsvörn til í þessu fyrir hæstv. ríkisstjórn ef hún hefði nennt að leggja þetta á sig. En eins og ég segi, hæstv. forseti, og lýk ég nú máli mínu, óráðið var þvílíkt hjá ríkisstjórninni á Þingvöllum að henni hugkvæmdist ekki einu sinni þetta. --- [Fundarhlé.]