Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 17:54:38 (292)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. utanrrh. ekki bæta málið með svona málflutningi. Með því orðavali sem hann viðhafði hér hefði verið hægt að segja að framsöguræða hans fyrir málinu hefði getað staðið eina mínútu og sagt: Ég hef hvað eftir annað lýst EES-samningnum, ég hef haldið um hann ráðstefnur, ég hef gefið út um hann kynningarrit og ráðuneytisstjórinn hjá mér og aðalsamningamaðurinn hafa fjallað um málið hvað eftir annað. Svo er hægt að skoða þetta í nefnd og setjast niður. Það er auðvitað á engan hátt boðlegt að koma hér upp og segja, varðandi það sem einstakir þingmenn hafa sagt um þetta efni, að vísa málinu með þessum hætti.
    Hæstv. ráðherra sagði það aftur að umræðan hefði staðið í hálfan mánuð. Það er rangt, hæstv. ráðherra. Hún hefur ekki gert það. Við samþykktum það í fyrsta lagi að ráðherra fengi að fara í burtu tveimur dögum eftir að fyrsta vikan hófst. ( Utanrrh.: Það var stjórnarskrármál, hv. þm.) Einmitt, það var nefnilega stjórnarskrármál, hæstv. utanrrh. Er þá ekki rétt að draga það frá og vera ekki með rangar fullyrðingar fyrst ráðherrann sjálfur grípur fram í að það hafi verið stjórnarskrármál? Síðan fór dagurinn í gær í bráðabirgðalögin sem ríkisstjórnin setti. Ég er ekki með það í kollinum hvað þessi umræða um EES-samninginn er búin að standa í marga daga en ég held þeir séu ekki nema fimm, hæstv. ráðherra. Fullyrðingar um að umræðan sé búin að standa hér í hálfan mánuð eru bara rugl, virðulegi ráðherra. Ég ætla að vona að staðreyndameðferðin um samninginn sjálfan sé vandaðri en svona fullyrðingar.
    Ég endurtek þess vegna ósk mína um að menn geti rætt hér utan við þingsalinn um framhaldið. Ég hef engan áhuga á því að sú umræða fari fram hér í gegnum ræðustólinn. (Gripið fram í.) Formenn þingflokka og forsætisnefnd hafa verið að ræða saman í dag. Mér skilst að það hafi ekkert komið út úr því. Ég spurði forseta þingsins að því fyrr í dag, fyrir um það bil tveimur klukkutímum, hvað fundur ætti að standa lengi vegna þess að ég var búinn að binda mig annars staðar í kvöld. Ég fékk ekkert svar við því. Ég hef ekki hugmynd um það núna kl. 6 hvort fundur á að standa hér í kvöld vegna þess að forseti þingsins gat ekki svarað mér því um fjögurleytið. Það er m.a. þess vegna, virðulegi þm., sem ég tel nauðsynlegt að menn ræði þetta sín á milli og það sé reynt að skýra það fyrir þingmönnum svo að við vitum öll hvert framhaldið verður en séum ekki í þeirri óvissu að þingmenn geti ekki einu sinni skipulagt tíma sinn frá einum klukkutíma til annars.