Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 18:46:52 (297)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur þegar staðið drjúgan tíma hér í þinginu og mun væntanlega eiga drjúgan tíma eftir því að hér er eingöngu verið að stefna að því, samkvæmt yfirlýsingu forseta, að ljúka senn 1. umr. um þetta mál. Við eigum samleið í þessu máli með mörgum öðrum þjóðum og því er fróðlegt að átta sig á því með hvaða hætti þær standa að málinu. Það er alveg ljóst að almennar umræður um þetta mál eru miklu tímafrekari og hugsanlega einnig ítarlegri en gerist í nokkrum þingum annars staðar. Eftir því sem ég best veit mun atkvæðagreiðsla eiga sér stað um málið í norska Stórþinginu í lok september og almennar umræður standa þar samtals í tvo daga. Atkvæðagreiðsla mun eiga sér stað á þinginu í Finnlandi 30. okt. og ekki er gert ráð fyrir mjög miklum umræðum. Atkvæðagreiðsla verður á þingi í Austurríki í lok september, í Svíþjóð verða umræður 18. og 19. nóv. og síðan atkvæðagreiðsla. Í Sviss hefur þegar átt sér stað umræða í þrjá daga og 126 ræður voru fluttar á þessum þremur dögum. Þar eru þingmenn 200 og það, að umræðan skyldi standa þrjá daga, varð til þess að umræðurnar hafa verið kallaðar umræður aldarinnar í Sviss. Ég veit ekki hvað þeir mundu kalla umræður, eins og við erum vön að hafa hér um mál af þessu tagi. Allt er þetta mjög fróðlegt, ekki síst fyrir þau okkar sem venjum okkur á að tala mjög lengi og ítarlega, sjálfsagt af því að sum okkar hafa meira til málanna að leggja en aðrir.
    Mér finnst nauðsynlegt að þetta komi fram hér svo menn átti sig á því hvernig aðrir fara að því áður hefur komið fram í umræðum, m.a. hjá hv. 4. þm. Austurl., samanburður á því með hvaða hætti aðrar þjóðir EFTA-ríkjanna hafa viljað standa að þessum málum hjá sér. Þess vegna finnst mér eðlilegt að við áttum okkur á því með hvaða hætti þær standa að þessum þáttum.
    Á þessum dögum hefur auðvitað margt komið fram. Því hefur verið haldið fram, bæði í þingskapaumræðum og við önnur tækifæri, að ótal spurningum sé ósvarað í málinu og sjálfsagt er það alveg rétt. Það vill þannig til að þeir sem kvarta mest yfir því að ótal spurningum sé ósvarað eru fulltrúar þeirra flokka sem þegar hafa gert upp við sig afstöðu til málsins, reyndar fyrir löngu, án þess að þeim spurningum hafi verið svarað, hvað þá fjölmörgum öðrum spurningum sem þegar hefur verið svarað í þessum umræðum. Er það ákaflega merkilegt að þessum ágætu flokkum skuli hafa tekist að gera upp við sig afstöðu til málsins svo löngu fyrr en svo miklum fjölda spurninga var svarað, eins og þegar hefur verið svarað, og ég tala nú ekki um ef svo mörgum spurningum er enn þá ósvarað í málinu.
    Þrátt fyrir þetta verð ég að segja eins og er eftir að hafa hlýtt á megnið af þessum umræðum að efniságreiningur í þessu máli er að mínu viti miklu minni en maður mundi ætla út frá þeim tíma sem í þessa umræðu hefur farið. Í raun þarf það ekki að koma á óvart því, eins og við höfum margoft rætt og tekið fram, höfðu fjórir flokkar af fimm annaðhvort með afstöðu sinni eða þátttöku unnið að málinu efnislega í tvö ár, fyrst tveir af núverandi stjórnarandstöðuflokkum og síðan, eftir að þessi stjórn var mynduð, hefur þriðji flokkurinn unnið að því í 16 mánuði og allan tímann Alþfl., fjórði flokkurinn. Því er ekki undarlegt þó að ekki sé mjög mikill efniságreiningur um málið sem svo margir flokkar hafa unnið jafnlengi að og ætluðu sér að klára og fæstir vissu annað en flokkarnir, a.m.k. þessir fjórir, hefðu hug á að ljúka þessu máli nema eitthvað sérstakt kæmi upp. Ég hygg að afskaplega erfitt verði fyrir þessa flokka að koma því inn hjá Íslendingum með sannfærandi hætti hvers vegna þeir hafa breytt um stefnu, þ.e. þessir tveir flokkar sem virðast hafa breytt um stefnu í málinu frá því sem var þegar þeir voru í ríkisstjórn. Ég hygg að þær skýringar sem hér hafa verið gefnar í þinginu muni virka afskaplega ósannfærandi á íbúa þjóðarinnar. Það verði ekki önnur skýring eftir þegar upp verður staðið en hrein tækifærismennska sem ekki hefur þótt fín í stjórnmálum þó að sjálfsagt hafi flestir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar einhvern tíma lent í því að falla fyrir slíku.
    Til að mynda hefur Alþb. tekið þá afstöðu að vera á móti málinu þó að það hafi áður unnið að því innan ríkisstjórnar og auðvitað samþykkt innan ríkisstjórnar að utanrrh. eyddi mestum starfstíma sínum á þeim rúmu tveimur árum sem þeir voru saman í stjórn í að fjalla um þetta mál og með ærnum kostnaði. En þeir hafa ekki einu sinni látið sér nægja að vera á móti málinu heldur hafa þeir tekið þá sérkennilegu afstöðu að breyta um tilhögun og vilja núna tvíhliða samning og þar vilja þeir ná fram öllu hinu sama og þeir eru á móti í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta er afskaplega sérkennileg staða enda er von að hv. 4. þm. Norðurl. e. bresti í hlátur þegar hann áttar sig á þessari stöðu og ef ég væri ekki í ræðustólnum, þá mundi ég hlæja með honum og ég er viss um að þjóðin öll hlær einmitt að þessu háttarlagi Alþb., að standa fyrst með málinu, síðan að vera á móti því og segjast gera það af efnislegum ástæðum, síðan gera kröfu um tvíhliða samninga þar sem einmitt náist fram það sem þeir eru á móti í samningum um hið Evrópska efnahagssvæði. Þetta er afskaplega sérkennileg staða svo að ekki sé meira sagt en við vitum af hverju hún er uppi með þessum hætti. Flokkurinn gat ekki komið sér niður á neina heillega stefnu í málinu eins og aðstoðarmaður hæstv. fyrrv. fjmrh. hefur lýst svo makalaust vel og ætti auðvitað að lesa oft upp í þinginu með hvaða hætti þessu máli lyktaði hjá húsbónda hans forðum í Alþb. Við höfum fulla samúð með þessum sjónarmiðum og þessari stöðu sem Alþb. er í, en hún er afskaplega sérkennileg.
    Varðandi Framsfl. þá hefur mér þótt sem sá flokkur væri mun meira sammála ríkisstjórninni, sem vonlegt var, enda forustuflokkur í síðustu ríkisstjórn sem vann að málinu. Hann hefur sýnt miklu meiri samstöðu í raun með ríkisstjórninni en stjórnarandstöðunni, a.m.k. efnislega í málinu. Mér varð það að vísu á eins og flestum öðrum, t.d. hygg ég einnig flestum fréttamönnum, að misskilja ræðu formanns flokksins, en formaður þingflokksins, hv. 1. þm. Norðurl. v., hefur nú leiðrétt það efni og tekið fram að sú mynd sem bæði ég og fjölmiðlarnir fengum af ræðu formanns Framsfl. var ekki rétt, formaðurinn og flokkur hans væru ekki efnislega sammála samningnum og það nægði ekki að til að mynda stjórnarskránni væri breytt til þess að efnisleg samstaða væri með málinu. Þannig skildum við málið sem hlýddum á ræðu formanns Framsfl. Ég hef reyndar lesið þá ræðu yfir og ég tel að við sem misskildum málið að mati hv. þm. Páls Péturssonar höfum haft ærna ástæðu til þess.
    Ég tel líka að það sé afskaplega erfiður róður og erfið staða fyrir formann Framsfl. og Framsfl. að taka upp þann hátt núna að í raun hafi þeir ekki áttað sig á því að stjórnarskrárbreyting þyrfti að koma til ef samningurinn ætti að verða að veruleika. Það er von að menn tali um það með þeim hætti að eitthvað nýtt hafi gerst til að útskýra þetta og rökstyðja þetta vegna þess að fyrir almenning í landinu blasir myndin þannig við að þessir menn hefðu auðvitað, þessir flokkar og Framsfl. alveg sérstaklega, beitt sér fyrir því fyrst slík velvild er víða í flokknum fyrir Evrópska efnahagssvæðið og var í ríkisstjórninni sem áður var að við síðustu þingkosningarnar yrði gerð nauðsynleg breyting á stjórnarskránni ef menn töldu það nauðsynlegt í raun. Ekki er frambærilegt að halda því fram að þetta hafi menn uppgötvað eftir kosningar. Formaður Framsfl. hefur sagt hér að hann mundi núna, væri hann forsrh., beita sér fyrir breytingu á stjórnarskránni. Um þetta þyrftu menn ekki að efast. En ekkert slíkt hefur gerst í millitíðinni sem hefði ekki átt að verða til þess að sami maður og sami flokkur hefðu beitt sér fyrir þeirri breytingu í tengslum við síðustu kosningar eins og jafnan er gert eða reynt að gera þegar menn ganga í stjórnarskrárbreytingar.
    Þegar hefur komið fram, til að mynda af hálfu hv. 4. þm. Austurl., að hann hafi vakið athygli á því, svo fljótt sem á miðju ári 1990, að stjórnarskrárbreyting væri algerlega nauðsynleg og formaður Framsfl., hv. 7. þm. Reykn., sagði sjálfur í þingræðu og var þá ekki bara að tala um sjálfan sig heldur líka félaga sína í ríkisstjórninni, þar með talið Alþb., með leyfi forseta:
    ,,Ég fyrir mitt leyti og við í síðustu ríkisstjórn féllumst á það að samþykkja EES-dómstól þótt sannanlega megi færa fyrir því rök að það sé yfirþjóðleg stofnun.``
    Sami maður telur að samþykki menn yfirþjóðlegar stofnanir verði menn að breyta stjórnarskránni. Hann hafði og flokkur hans og samstarfsflokkarnir, þar með talið Alþb., samþykkt EES-dómstól þótt sannanlega megi færa fyrir því rök að slíkur dómstóll sé ,,yfirþjóðleg stofnun``. Þessar setningar og aðrar slíkar hljóta að sannfæra menn um að það er tækifærismennskan, hrein tækifærismennska sem menn grípa til þegar þeir bera nú fyrir sig til þess að þurfa ekki að taka efnisafstöðu í málinu að breyta þurfi stjórnarskránni og þess vegna geti þeir ekki, ef það er ekki gert, stutt málið. Reyndar er það svo að í riti sem ráðherrarnir höfðu, sem varð til um mitt ár 1990, sem heitir Stutt yfirlit yfir stöðu mála við upphaf samninga EFTA-ríkjanna og EB, er sagt og skýrt svo frá eins og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,EB hefur jafnframt verið tjáð að viðkomandi ríki``, þ.e. EFTA-ríkin ,,ætli ekki að breyta stjórnarskrám sínum vegna þess``, þ.e. vegna EES-samningsins. Nýlegir dómar Hæstaréttar hafa undirstrikað að leitast skuli við að skýra lög í samræmi við þjóðaréttarsamninga sem Ísland er aðili að.`` Þannig er í gögnum sem ráðherrarir höfðu auðvitað allir og eru ekki neitt trúnaðarmál, frá því skýrt um mitt ár 1990 að EFTA-ríkin og þar á meðal Ísland hafi tilkynnt EB þá þegar að þeir ætluðu ekki að breyta íslensku stjórnarskránni. Þessar upplýsingar, sem eru sendar Evrópubandalaginu af hálfu EFTA-ríkjanna og þar með talið Íslands, segja auðvitað að menn höfðu athugað þennan þátt alveg sérstaklega og tekið efnislega afstöðu um það að ganga til EES-samninganna án þess að breyta stjórnarskránni. Þetta á bæði við um Alþb., Alþfl. og Framsfl. og fram hjá þessu geta menn ekkert horft frekar en ummælum hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifs Guttormssonar, sem kom því á framfæri við þingið og auðvitað við flokk sinn, ríkisstjórnarflokk, þegar á árinu 1990 að ekki væri hægt að gerast aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði nema breyta stjórnarskránni. Sú málsmeðferð og sá málatilbúningur að taka málið upp með þessum hætti núna er því í meira lagi ótrúverðugur svo ekki sé dýpra tekið í árinni. Ég býst við því að flestum sem setja sig inn í þetta mál verði ljóst að það er fyrirsláttur einn að taka málið nú upp á þessum vettvangi og gera það að aðalatriði málsins að breyta þurfi íslensku stjórnarskránni eigi menn að ganga til samninganna um hið Evrópska efnahagssvæði. Fortíðin í málinu, öll gögn, sýna að menn höfðu fjallað um það atriði og tekið afstöðu til þess, jafnvel menn sem segja í þessum ræðustól, eins og formaður Framsfl., að ,,við í ríkisstjórninni höfðum fyrir okkar leyti samþykkt EES-dómstól sem í fólst yfirþjóðlegt vald``. Þeir höfðu samt tekið þá afstöðu að ekki bæri að breyta hinni íslensku stjórnarskrá og þeir höfðu látið viðsemjandann í Evrópubandalaginu vita af því. Það er afskaplega athyglisvert.
    Hér hefur farið fram töluverð umræða um stjórnarskrárþátt málsins og þar liggja fyrir góð gögn í málinu. Ég hef fyrir mitt leyti sagt að ég hef ekki viljað fara í neitt manngreinarálit um hæfni þeirra aðila sem hlut hafa átt að slíku. Langbest væri að hver og einn læsi þau gögn ítarlega yfir, reyndi að vega og meta innihald þeirra, rök og mótrök, rök og gagnrök og fræðilegan bakgrunn og eftir slíkt komast að niðurstöðu. Því miður hafa ekki allir þingmenn kosið þennan kostinn og sumir þingmenn hafa reynt að gera ákveðin atriði í þeim efnum tortryggileg. Til að mynda gerði hv. 8. þm. Reykn. annars vegar a.m.k. hluta af sérfræðinganefnd, sem skilað hefur áliti í málinu, tortryggilega vegna fyrri afskipta þeirra af málinu en

hins vegar hóf mjög til skýjanna þá fræðimenn sem hann vildi frekar leggja trúnað á í löngu máli um ágæti þeirra aðila sem ég er út af fyrir sig ekkert að draga úr. Lofsöngurinn var gríðarlegur og meira að segja voru þeir sjálfir kallaðir til vitnis um eigið ágæti. Ekki nægði lofsöngur þingmannsins sjálfs heldur var vitnað til þeirra sjálfra um hvílíkt væri þeirra ágæti. Þingmaðurinn sem ég nefndi, hv. 8. þm. Reykn., þegar hann var að fjalla um sérfræðinganefndina sem hann ættfærði reyndar ætíð sem fjórmenninga utanrrh., sagði á þessa lund þegar hann hafði nafngreint þessa fjóra menn sem menn þekkja hér:
    ,,En það er auðvitað ekki traustvekjandi að tveir þessara manna hafa með margvíslegum hætti unnið að málinu fyrir ríkisstjórnina`` rétt eins og það í sjálfu sér ætti að gera það að verkum að dómar þeirra væru tortryggilegir. Það var dregið fram með þeim hætti. Hins vegar þegar hann vitnaði til ummæla í blaðaviðtali við Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmann fann hann auðvitað ekki neitt að því þó sá ágæti lögmaður hefði unnið gríðarlega mikið fyrir til að mynda hv. þm. Hjörleif Guttormsson sem iðnrh. á sínum tíma sem þingmaðurinn kallaði sjálfur ákafasta andstæðing EES-samningsins. Reyndar verð ég alveg að segja eins og er að í þeim þáttum sem þessi þingmaður, hv. 8. þm. Reykn., fjallaði um hinar fræðilegu ritgerðir, tók hann einu þættina úr þessum yfirlýsingum og ritgerðum sem voru ófræðilegir og kannski einu þættina sem voru virkilega til vansa og komu fræðimennsku ekkert við og köstuðu rýrð á annars að mörgu leyti fræðilega uppbyggingu þeirra fræðimanna sem hann var að vitna til.
    Í sjálfu sér geri ég ekkert með það þó að þingmaðurinn, þegar hann fjallaði til að mynda um Ragnar Aðalsteinsson, gerði mikið úr því að lögmaðurinn sjálfur lýsti aðferðum sínum sem mjög trúverðugum og sagði eins og þingmaðurinn sagði, með leyfi forseta:
    ,,Ég beiti meiri varkárni í mínum aðferðum sem lögmaður en ég hef ekki sama léttleika í þessu og þeir.`` Þetta fannst þingmanninum gríðarlegt innlegg í hina fræðilegu deilu í málinu. Þetta er engin fræðileg umsögn af hálfu þessa ágæta lögmanns og er ekki honum til fræðilegs styrkleika frekar en ummæli Guðmundar Alfreðssonar um ævintýramennsku í lögfræði. Slíkar yfirlýsingar eiga miklu frekar heima úr pólitískum munni, til að mynda beint úr munni þingmannsins sjálfs því að þær koma fræðimennsku ekkert við frekar en margt sem kemur auðvitað frá þingmanninum eins og öðrum þingmönnum.
    En þingmaðurinn lagði megináherslu á þetta og slík atriði þegar hann var að véla um þær greinargerðir sem liggja fyrir um það álitaefni hvort samningur um Evrópskt efnahagssvæði brjóti í bága við stjórnarskrána.
    Ég vek athygli á einu litlu dæmi í þessu sambandi því að hv. 8 þm. Reykn. gerði afskaplega mikið úr því. Hann sagði, með leyfi forseta:
    ,,Það liggur við að þessir menn séu komnir með hugann hálfan út í Brussel og komnir með vegabréfið blátt með gylltum stjörnum, fyrst þeir ekki einu sinni strika út úr sínum eigin texta og segja þá kannski bara stjórnvalda og Alþingis, fyrst þeir halda fram þeirri kenningu að Alþingi væri ekki hluti af stjórnvöldum.`` Ég minnist þess að þingmaðurinn hló við í ræðustólnum yfir þessum fáránleika öllum og sagði: Nei, takk. Þeir segja: Samstarfið milli íslenskra stjórnvalda og Alþingis, ,,makalaus setning`` sagði þingmaðurinn, með leyfi forseta og bætti við, með leyfi forseta: ,,Á örugglega eftir að lifa lengi í lögfræði og sögu þjóðarinnar.`` Hann gerði þetta að miklu efni til þess að sýna fram á að því er virtist á hvers konar plani þessir lögvísindamenn væru að detta í þennan pytt, ,,makalaus setning``. En hann hefði eins getað flett upp Lögbók fyrir byrjendur og almenning eftir Björn Þ. Guðmundsson sem telur rétt að taka sérstaklega fram og víkja sérstaklega að því að menn megi ekki blanda saman stjórnvöldum og Alþingi. Þar sé um tvo ólíka þætti að ræða. En hv. þingmaður gerði gríðarlega mikið úr þessu. Þetta átti nú að sýna hvers konar lögmenn væru hér á ferðinni. ,,Makalaus setning`` sagði þingmaðurinn og hló við í ræðustólnum. En maðurinn sem þingmaðurinn trúir mest á, prófessorinn sem réði því eins og þingmaðurinn sagði sjálfur hverjir væru lögfræðingar og hverjir væru dómarar í riti fyrir byrjendur og almenning tekur sérstaklega fram að menn megi ekki rugla þessu atriði saman, þ.e. að stjórnvöld og Alþingi séu eitt og hið sama. Þar verði að gera á grundvallarmun. Svona var þessi umfjöllun og svona fór þessi þingmaður flatt á því með þessum hætti að reyna að gera þessi nefndarálit tortryggileg.
    Ég lít þannig á og ég legg á það megináherslu að þegar menn skoða þennan þátt, sem ég hef sagt fyrir mitt leyti að menn eigi auðvitað að skoða af mikilli alvöru, álitaefnið um stjórnarskrána, og þingið mun auðvitað gera það og samkvæmt þingsköpum, mun gera það með mjög vönduðum hætti með sérstakri nefnd sem fjallar um það efni og ekki annað, nefnd sem sérstaklega er tengd slíku máli, þá eigi menn að reyna að gera þetta með fræðilegri hætti en ekki með svo billegum hætti, ég vil segja lágkúru, eins og þessi dæmi sem ég var að nefna eru talandi um og voru meginefnið og uppistaðan í rökstuðningi þingmannsins varðandi þetta mikla álitaefni sem hann vill gera mikið úr.
    Eins og ég hef áður sagt held ég að þeir þættir þessara álita sem eru virkilega fræðilegir, og það eru þeir sem betur fer og í flestum efnum, er tekið fræðilega á hlutum þarna, að vísu misþungt kannski, þá eigi það að vera góður grundvöllur til málefnalegrar umræðu um þessi efni í þinginu.
    Eins og ég sagði út af þessum löngu umræðum þá hefur a.m.k. ekki blasað við mér blasað jafnmikill efnislegur ágreiningur um þetta mikla mál eins og ég hefði haldið. Ég hef gefið þá skýringu á því að það sé vegna þess að menn höfðu unnið að þessu í samtals jafnvel á fjórða ár og þeir sjá það sjálfir að það væri fáránleg staða fyrir flokk eins og Alþb. og Framsfl. að finna þessum samningum flest til foráttu, samningnum sem sjálfur þáv. hæstv. forsrh. í febrúar 1991, skömmu fyrir kosningar í heilsíðuviðtali með flennifyrirsögn, fullvissaði íslenskan almenning um fyrir kosningar. EES, ekkert að óttast. Ef EES-samningarnir eru jafnhræðilegir eins og sumir vilja vera láta hér í salnum, þá hlýtur yfirlýsing með þessari fyrirsögn í flokksmálgagni af hálfu formanns Framsfl. að vera hræðileg blekking, vera hræðileg blekkingaraðgerð að segja tveimur og hálfum mánuði fyrir kosningar eða svo í flennifyrirsögn: ,,EES, ekkert að óttast.`` Þetta var sagt fyrir kosningar því fólki sem átti að kjósa til þingsins og a.m.k. það fólk, sem kaus Framsfl. undir forustu formanns flokksins, vissi að varðandi EES var allur málatilbúnaðurinn þannig að þar væri ekkert að óttast. Auðvitað var þetta rétt hjá hæstv. þáv. forsrh. Hræðsluáróðurinn sem þá var reynt að kynda undir af hálfu hv. 4. þm. Austurl. var þá rétt eins og nú einskis virði. Það var ekkert að óttast og það er ekkert að óttast. Verst er ef sá, sem sagði þjóðinni fyrir kosningar að það væri ekkert að óttast, er núna sjálfur farinn að óttast eitthvað af einhverjum ástæðum án þess að hægt sé að sýna fram á neinar meginbreytingar sem gerðar hafa verið síðan. Það er meginatriðið að stjórnarandstöðunni hefur ekki tekist, og þá einkum þessum tveimur flokkum sem bar skylda til þess, að sýna fram á neinar slíkar breytingar að réttlætt gætu slíka kúvendingu. Þá er tækifærismennskan ein eftir.
    Í mínum huga er enginn vafi á því að EES-samningurinn gefur þessari þjóð tækifæri sem við eigum að grípa og möguleika sem við verðum að virkja og nýta. Ég fyrir mitt leyti tel að það væri mikið glapræði ef menn misstu það tækifæri. Að því leyti til held ég að flokkarnir tveir sem nú eru í stjórnarandstöðu með Kvennalista, Alþb. og Framsfl., hafi verið að gera gott og rétt. Þeir unnu vel og lengi að þessu mikla máli og þeir töldu og lýstu því yfir slag í slag þegar stjórnarmyndunarviðræður stóðu fyrir dyrum að um þetta mál yrði ekki ágreiningur til að mynda við Alþfl. ,,Ég,`` sagði hv. 8. þm. Reykn., ,,mun sjá um Hjörleif varðandi EES.`` Það var eina vandamálið. Það var allt vandamálið þá og ég tel að þeir hafi verið að gera rétt og ég tel að hv. 8. þm. Reykn. hefði gert rétt í því að sjá um Hjörleif ef sú stjórn sem vann að EES-samningnum hefði verið áfram og haldið áfram að vinna að EES-samningnum. Ég held reyndar að hann hafi --- kannski óviljandi --- verið að segja satt. Hann hefði séð um Hjörleif og þeir hefðu allir dansað með, þeir sem dansa núna á móti EES-samningnum.
    Það er ekkert land eða a.m.k. fá lönd sem eru jafnháð utanríkisviðskiptum og okkar land. Við vitum líka að með þeim hætti sem við höfum nýtt kosti okkar í utanríkisviðskiptum höfum við leitt til þess að lífskjör í þessu landi hafa batnað mikið. Að mínu viti munu haftalaus milliríkjaviðskipti, aukin verkaskipting og hagkvæmni sem af þeim leiðir auka hagvöxtinn í landinu sem við virkilega þurfum á að halda. Við höfum búið við minnkandi hagvöxt um sex ára skeið og þess vegna væri það glapræði að missa af þessu tækifæri. Ég tel að fyrir ríki eins og Ísland þar sem saman fer að innanlandsmarkaður er afar lítill miðað við afköst útflutningsatvinnuveganna, þar sem útflutningur er jafnmikilvægur og hér er og þar sem við þurfum að flytja inn mikið af hráefnum og öðrum nauðsynjum, þá geti alþjóðleg efnahagsþróun og með hvaða hætti við fylgjumst með henni skipt sköpum fyrir okkur.
    Við tökum eftir því að ríki sem eru margfalt stærri og fjölmennari en við og ekki jafnháð utanríkisviðskiptum og við telja sig alls ekki mega fara á mis við að taka þátt í þeim samskiptum með þeim hætti sem þau ætla að gera og við höfum viljað gera, þ.e. þeir fjórir flokkar sem hafa unnið að málinu fram að þessu.
    Hér í umræðunum hafa menn óttast erlend áhrif. Það hefur komið fyrir áður í umræðum um mikilvæga samninga. Sá ótti hefur reynst ástæðulaus. Þeir flokkar sem þá ólu á slíkum ótta ættu nú að sjá að sá ótti reyndist ástæðulaus. Þeir hafa ekki, þrátt fyrir að þeir hafi haft mörg tækifæri til, reynt að snúa af þeirri braut sem þeir vöruðu við þá. Þeir ættu þess vegna að átta sig á því að það sama mun gerast nú og þeir eru rétt eins og þá á villigötum. Þeir voru það ekki í ríkisstjórnarsamstarfi með Alþfl. og þeir hefðu átt að halda sínu striki í þeim efnum.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. ræddi um það í sinni ræðu hér fyrr að við ættum að reyna að minnka hlutdeild í viðskiptum við Evrópu. Út af fyrir sig get ég verið honum sammála að við eigum að reyna að hafa efnahags- og viðskiptatengsl sem víðast. Ég held að viðskiptatengslin við Evrópu og viðskiptin við Evrópu hafi reynst okkur mjög traust og haldgóð þótt auðvitað sé skynsamlegt og eðlilegt að hafa tengsl víðar. Ef við skoðum Evrópska efnahagssvæðið þá er ljóst að nálægt 75% af okkar vöruútflutningi fara til þessa svæðis. Það er líka ljóst að mjög stór hluti af öðrum tekjum okkar, til að mynda tekjum af ferðamönnum, kemur frá þessu svæði.
    Ég tel að Evrópubandalagið muni auðvelda viðskiptaleikreglurnar fyrir ríki sem innan vébanda þess starfa eins og verið er að gera og hefur verið gert. Það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að tryggja okkur með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði vegna hinnar miklu hlutdeildar sem ég var að nefna, bæði í vöruútflutningi, ferðaþjónustu og fleiru. Þá eigum við þann aðgang sem evrópski efnahagssamningurinn tryggir okkur vegna þess að nálægari, auðveldari og hömlulausari viðskipti milli Evrópuríkjanna sjálfra, sem ekki standa öðrum til boða, munu eðlilega þrengja okkar kost. En við komumst hjá því ef við fylgjum eftir samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Ég tel líka að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði falli í mjög mörgum efnum að því gildismati sem er ofarlega í huga okkar Íslendinga og þá á ég ekki síst við þá áherslu sem er í samningnum á að gefa einstaklingum og fyrirtækjum aukinn rétt og aukna möguleika á kostnað þeirra möguleika sem stjórnvöldin hafa til að skerða rétt einstaklinga og fyrirtækja. Þegar það er gert, sem felst í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og þeirri þróun sem þar er að gerast, þá ýtir það undir meira frelsi í viðskiptum, meiri samkeppni, meiri hagkvæmni og betri lífskjör.

    Ég held að það hafi ekki verið hægt að sýna fram á það í umræðum hér að þessir þættir séu okkur ekki að öllu leyti til hagsbóta. Ég hygg að það hafi ekki verið hægt að sýna fram á það enda hefði það verið sérkennilegt ef það hefði verið hægt af hálfu flokka eins og Alþb. og Framsfl. sem unnu vel að undirbúningi þessa máls og eiga ríkar þakkir skildar fyrir þann undirbúning. Þeir ættu ekki að missa það tækifæri sem þeir höfðu til að taka nú í fyrsta skipti þátt í jákvæðum breytingum í samskiptum við erlend ríki. Áður hefur þeim mistekist að taka þátt í slíku. Þá héldu þeir sig við einangrun og hræðsluáróðurinn. Þeir höfðu tækifæri til að gera það ekki núna. Þeir höfðu undirbúið það tækifæri sjálfir mjög vel og það er harmsefni að þeir skuli falla í þá gildru sem þeir hafa sjálfir lagt, að missa af slíku tækifæri.