Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 16:21:46 (336)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram sem að mínu mati hefur umfram annað leitt eitt í ljós, og það kom svo berlega fram hjá hæstv. forsrh., að það er ætlun ríkisstjórnarinnar að viðhalda óbreyttri stefnu. Þetta eru að mínu mati mjög skýr skilaboð út í þjóðfélagið. Viðhalda stefnu sem eins og rækilega hefur verið undirstrikað í þessum umræðu byggir á löngu úreltri hugmyndafræði.
    Hæstv. forsrh. talaði þannig í sinni ræðu að ég átti lengi vel erfitt með að skilja hvað hann var að fara þangað til ég áttaði mig allt í einu á því að hann talaði úr einhverju allt öðru þjóðfélagi en ég í það minnsta þekki. Það þjóðfélag nær að mínu mati ekki nema um lendur einhvers hluta Seðlabankans og einhvers hóps af sérfræðingum sem standa að baki þeirri stefnu sem núv. hæstv. ríkisstjórn framfylgir. En þetta er allt annar raunveruleiki en sá sem blasir við fólkinu úti í þjóðfélaginu, ekki síst þeim þúsundum manna sem nú í örvæntingu horfast í augu við atvinnuleysi í fyrsta skipti. Ég mun rökstyðja þetta með örfáum orðum.
    Hæstv. forsrh. tók undir orð mín um gengisskráningu, að þar yrðu menn að fara varlega og reyna að ná lækkun gengisins með kostnaðarlækkunum og með því að flytja til kostnaðinn í þjóðfélaginu. En hann sagði aftur í annarri setningu að gengið væri rétt skráð í dag. Það get ég ekki tekið undir. Það vitna þeir um sem starfa í útflutningsatvinnuvegum, það vitna þeir um sem starfa í innlendum samkeppnisiðnaði og það vitna þeir ekki síst um sem starfa í ferðaþjónustu. Gengið verður að leiðrétta en það má ekki gerast í kollsteypum. Það verður að gerast innan þess ramma sem menn setja sér með frjálsum gjaldeyrismarkaði sem samkvæmt orðum hæstv. viðskrh. á síðasta vetri gæti hugsanlega verið 5 prósentustiga hlaup til og frá og með þeim 3--4 prósentustigum í lækkun raungengis sem má ná með því að færa til kostnað í þjóðfélaginu.
    Hæstv. forsrh. sagði líka, ef ég vitna nánast orðrétt það sem hann sagði: Útgreiðsla Verðjöfnunarsjóðs gerir það að verkum að afkoman, þ.e. í sjávarútveginum, er ekki slök á þessu ári. Þetta náði ég að skrifa orðrétt eftir honum. Og nú spyr ég: Í hvaða þjóðfélagi lifir sá maður sem svona segir? Samkvæmt tölum Þjóðhagsstofnunar er hallinn í ár 8% áður en kemur að Verðjöfnunarsjóði. Verðjöfnunarsjóður getur lagað um 3 prósentustig en verðþróun erlendis hefur tekið töluvert af því til baka þannig að eftir stendur að með inngreiðslum Verðjöfnunarsjóðs er hallinn í vinnslunni á sjávarútveginum um það bil 6 prósentustig. Þetta er hinn harði raunveruleiki sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir í dag og sem bitnar öðru fremur á þeim sem þar vinna.
    Nei, því miður þá kom ekkert þarna fram annað en það að viðhalda á óbreyttri stefnu. Það var að vísu aðeins svikk á hæstv. viðskrh. Hann talaði eilítið öðruvísi en hann hefur gert áður og er, held ég, eilítið að átta sig á því, og hefur væntanlega lært það í fráfarandi ríkisstjórn, að það þarf önnur vinnubrögð. Það þarf eins og ég sagði hér í minni framsögu vinnubrögð sem byggja á samráði ríkisvalds, aðila vinnumarkaðarins og fjármálastofnana. Ég get alveg tekið undir það sem hér hefur komið fram að eflaust þarf það samstarf að vera að einhverju leyti á öðrum nótum en verið hefur á undanförnum áratugum. Að sjálfsögðu læra menn af reynslunni. Að sjálfsögðu verða menn að haga því með hliðsjón af því að við lifum í allt öðru þjóðfélagi í dag. En öðruvísi vinnum við okkur ekki út úr þessum vanda.
    Virðulegi forseti. Sá tími sem ég hafði sparað mér í fyrri umræðu er nú liðinn en ég þakka aftur fyrir þessa umræðu þó að ég hljóti að harma það að út úr henni kemur ekkert annað en það að ríkisstjórnin ætlar að viðhalda óbreyttri stefnu.