Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 16:37:41 (397)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt. Lögin lágu fyrir og höfðu legið fyrir frá 1986 án þess að Kjaradómur hefði nokkurn tíma gripið til þess ráðs að færa upp laun með þeim hætti sem hann gerði loksins sumarið 1992. Ríkisstjórnin gat því auðvitað ekkert vitað um það fyrir hvort Kjaradómur mundi einmitt núna grípa til þessa ráðs og er ég þó ekki að deila á Kjaradóm fyrir það því að ég held að Kjaradómur hafi vel getað komist að hvorri niðurstöðunni sem var, að 1,7% eða gera þá bara þær breytingar sem hann raunverulega gerði á grundvelli sömu laganna.
    Ég minni á að ríkisstjórnin skrifaði Kjaradómi bréf og óskaði eftir því að Kjaradómur endurskoðaði afstöðu sína. Það gerði Kjaradómur ekki. Síðan voru sett bráðabirgðalög þar sem ný efnisatriði voru

sett inn í forsendur úrskurðanna en eftir sem áður stóð það opið að við sérstakar aðstæður væri hægt að hreyfa laun manna og það var ekkert launungarmál að þar var verið að hugsa um dómarana og prestana sérstaklega.
    En það sem ég var að reyna að koma hér til skila áðan var að þessu er ekki hægt að jafna saman við það tómlæti sem ríkisstjórnin sýndi 1990 eftir að henni var margbent á að frá 1. febr. 1990 lá ljóst fyrir að ekki gæti farið saman 1. gr. samningsins við BHMR og kjarasamningar sem ríkisstjórnin stóð að á almenna vinnumarkaðnum. Það var aðalröksemd okkar fyrir því að ríkisstjórnin hefði átt að setja lög á tímabilinu frá 1. febr. og a.m.k. í síðasta lagi áður en Félagsdómur kvað upp sinn dóm, sem reyndar var um sumarið, og þá hefðum við ekki heldur mótmælt því að bráðabirgðalög hefðu verið sett fyrr fyrst þingið var farið heim um vorið. Um það snerist það mál eins og ég veit að hv. þm. þekkir af því að ég veit að hann er sæmilega vel lesinn í þeim umræðum sem fóru fram um þau bráðabirgðalög.