Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 18:25:28 (426)


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Nú þegar dregur að lokum 1. umr. um samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði er ljóst að umræðan í þinginu hefur ekki sannfært hinn almenna mann um að samningurinn sé ekki valdaframsal á löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvaldi. Umræðan hefur ekki sannfært hinn almenna mann um að samningurinn feli í sér mjög mikinn efnahagslegan bata fyrir Íslendinga. Umræðan hefur ekki sannfært hinn almenna mann um að þær fórnir sem einnig eru í þessum samningi séu réttlætanlegar. Ég vil nefna hér nokkur dæmi:
    Erlendir togarar á ný inn í landhelgi. Hin íslenska þjóð, sem telur 260.000 manna, gefi 380 milljónum manna fullan rétt á við sig í þessu ónumda landi til atvinnustarfsemi, jafnan rétt á sem flestum sviðum.
    Ég er heldur ekki viss um að hin íslenska þjóð sé sammála því að sæta, eftir að samningurinn hefur verið gerður, viðskiptabanni á ýmsum vöruflokkum sem við sannarlega flytjum nú inn, t.d. frá Bandaríkjunum, sem liggur ljóst fyrir að reglugerðir Evrópubandalagsins munu banna að hingað verði fluttar.
    Sú sorglega staðreynd blasir við, þegar staðið er upp frá samningunum, að okkar aðalútflutningsatvinnuvegur, sjávarútvegurinn, er ekki með í viðskiptafrelsi EB. Frelsin fjögur gilda aftur á móti um aðalatvinnuvegi EB og hinna EFTA-ríkjanna.
    Hæstv. utanrrh. hefur margsagt að hagsmunir sjávarútvegsins og fiskvinnslunnar séu óskaplega stórir og skipti sköpum í þessu máli. Það er enginn vafi á því að Alþfl. hefur í rauninni komist upp með að reka þá blekkingarumræðu. Þeir sem ganga til viðræðna við ýmsa af forsvarsmönnum sjávarútvegsins komast að annarri niðurstöðu, þeir sjá ekki þann stórkostlega ávinning sem liggur í málinu. (Gripið fram í.) Niðurstaðan er sú að allt bendir til að sýnilegur hagnaður sjávarútvegs sé einn milljarður. Hv. frammíkallari, Össur Skarphéðinsson, hefur skrifað blekkingarleiðara í Alþýðublaðið um þetta mál. Síðast í Alþýðublaðinu í dag er blekkingarleiðari og málflutningur krataforingja á Suðurnesjum. Það er Þorleifur Már Friðjónsson sem skrifar þennan leiðara, með leyfi forseta:
    ,,Staðreyndin er sú að þær 1.900 millj. kr. sem sparast í greiðslum tolla á hverju ári eru atriði sem allir skilja og enginn veit betur en alþýða manna að hægt er að verja slíkum fjárupphæðum til ýmissa nytsamlegra hluta sem bæta lífskjör hér á landi.``
    Ég hygg að öllum Íslendingum sé að verða það ljóst eftir þessa umræðu að þeir tollar sem hafa verið felldir niður verða ekki 2 milljarðar eins og hæstv. utanrrh. hefur margsagt. ( Gripið fram í: 2,1 milljarður). Heldur verður niðurstaðan sú, alveg eins og þegar Íslendingar felldu niður tolla af bifreiðum sínum, að verksmiðjurnar úti í heimi græddu ekki á því heldur voru það neytendur á Íslandi sem græddu. Auðvitað hljóta neytendur í Evrópu að fá helminginn af þessari lækkun í sinn hlut. Niðurstaðan er sú að hér er um 1 milljarð að ræða en ekki 2 milljarða.
    Ég ætla að fullyrða að þessi eini milljarður sé í sjálfu sér ekki stórvægilegur, fullyrða jafnvel að þessi eini milljarður sé tittlingaskítur þegar það er skoðað að árlega eru fluttar út sjávarafurðir frá Íslandi fyrir 70--80 milljarða. Einn milljarður til eða frá í því dæmi skiptir ekki verulega miklu máli.
    Ávinningurinn er ekki meiri en það að ríkisstjórnin hefði getað með einföldum aðgerðum bætt stöðu fiskvinnslunnar miklu betur með öðrum hætti, gert hana hæfari til þeirrar samkeppni sem hún er heyja um íslenskar afurðir. Ég nefni t.d. lækkun á raforkuverði. Ég nefni niðurfellingu aðstöðugjalds. Ég nefni lækkun vaxta og fleiri og fleiri atriði mætti nefna til þessarar umræðu sem hefðu skilað íslenskum sjávarútvegi miklu meiri ávinningi. Fyrir utan það að mönnum er það ljóst að fyrirtækin fara á mörgum sviðum tollfrjálst út með saltfiskinn og fersku flökin. Menn hafa verið að mæta þessu.
    Nú blasir það hins vegar við að EB-reglugerðir setja þá kröfu á skuldsetta íslenska fiskvinnslu að ráðast í milljarða fjárfestingu. Hin skuldsetta íslenska fiskvinnsla, sem spurning er um hvort að reki sig frá degi til dags, stendur frammi fyrir því nú að þegar við erum komnir með EES-samninginn í hendurnar verður hún að leggja í milljarða fjárfestingar. Ég hef hitt marga menn sem leiða og stýra fiskvinnslufyrirtækjum og þeir segja að þær breytingar muni jafnvel skipta hundruðum milljóna á einstök fyrirtæki sem gerðar verða kröfur um að eigi sér stað.
    Undir þessu verður íslensk fiskvinnsla að standa til að mæta smásmugulegum reglugerðum EB um hollustuhætti og heilbrigði. Hins vegar verðum við að búa við það að EB róti gjafafé og styrkjum til sinna fiskvinnslufyrirtækja. Það er ljóst að menn hafa ekki náð þeim árangri í þessum samningum að stöðva styrkveitingar EB og einstakra ríkja inn í atvinnugreinarnar. Við komum ekki til með að standa á jafnréttisgrundvelli. Hér verða fyrirtækin okkar að leggja þennan kostnað á sig. Þar munu þeir hljóta helming upphæðarinnar, trúlega í styrkjum.
    Fyrir liggur frv. um að útlendingum verði heimilt að gerast eigendur fiskmarkaðanna í landinu og það er ljóst líka að þeir munu geta notað styrkveitingarnar til þess að ná fiskinum óunnum til sín þannig að það eru margar hliðar á þessu stóra máli sem eðlilegt er.
    Þegar ákveðið var að vera í samfloti EFTA-ríkja og láta reyna á hvort tækist að mynda hið Evrópska efnahagssvæði var okkar markmið raunar aðeins eitt. Hvert var það markmið? Hafa menn gleymt

hvert var í rauninni okkar eina markmið? Það var fríverslun með fisk. Evrópubandalagið hafði fyrir fullan aðgang að markaði okkar en við ekki að þeirra. Þeir hafa á eftir fullan aðgang að okkar markaði en við höfum ekki náð þeim árangri sem við ætluðum okkur þegar við lögðum af stað í þessa ferð.
    Það er eðlilegt þegar samningurinn liggur fyrir að spurt sé: Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg? Hafa krókar og keldur á langri samningaleið hrakið mörg markmið okkar út í veður og vind eða vakir annað og meira fyrir ríkisstjórninni en komið hefur upp á borðið? Er ríkisstjórnin á annarri leið en þjóðin gerir sér grein fyrir í þessu máli? Mér finnst að fastar sé knúið á af Evrópubandalaginu sjálfu. Ég mun víkja að því síðar í mínu máli.
    En hvernig standa þeir meginfyrirvarar sem settir voru? Hvernig sem á því stendur virðist sem fyrirvörunum hafi ekki verið haldið til haga í samningunum. Full yfirráð Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar til lands og sjávar, full yfirráð yfir fiskimiðunum liggur fyrir en sá böggull fylgir skammrifi að EB-ríkjunum er réttur lykillinn að landhelginni og sagt að þau megi fara inn og veiða 3 þús. tonn af karfa. Ef ég rétti hæstv. utanrrh. lykil að húsi mínu og segði: Þú mátt fara inn þegar þú vilt og snæða kvöldverð, --- hvað þýddi slík setning ef ég segði hana við hæstv. utanrrh.? ( ÓÞÞ: Þetta er mjög hæpið tiltæki.) ( StG: Tæki morgunverðinn líka.) Ég hygg að hann mundi fljótlega fara fram á morgunverðinn. Ég væri þar með að gefa óviðkomandi manni hlutdeild í heimili mínu þannig að menn verða að átta sig á því að þetta tiltæki að rétta lykilinn að landhelginni gerir það að verkum að menn láta ekki þar við sitja. Í fyrsta lagi er ekki ljóst hverjir verða þar á ferð. Það er ekki ljóst hvort það verða Portúgalir og Spánverjar eða einhverjir aðrir þannig að þetta tiltæki eitt þýðir að við munum standa í eilífum samningaviðræðum við erlend ríki um að þau fái að auka rétt sinn til veiðinnar í landhelgi Íslendinga.
    Ég segi að sú niðurstaða ein að opna landhelgina á ný er nægt tilefni til að þessi samningur verður að fara fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Útfærsla landhelginnar var algert einingarmál. Um það ríkti alger samstaða milli stjórnmálaflokka og meðal fólksins í landinu. Ég álít að slík ákvörðun kalli á að ríkisstjórnin verði að spyrja þjóðina álits. Margir, sem segja að ýmis atriði samningsins séu þess virði að skoða þau og þegar þeir horfi þröngt geti þau hentað fyrirtækinu sem þeir reka, segja aftur á móti: Þessi eina ástæða er næg til þess að hafna samningnum.
    Það liggur ekkert fyrir um auðlindirnar á landi eða að hægt verði að takmarka fjárfestingu erlendra aðila í landi. Ég hygg að evrópskir auðmenn og fjármagn horfi á Ísland sem ónumda paradís. Þegar viðreisnarstjórnin ætlaði fyrir 30 árum í EB vöruðu margir alþingismenn við gróðaþyrstu fjármagni stórveldanna í Evrópu. Nú 30 árum síðar hafa samgöngur breyst með þeim hætti að Ísland er ekki lengur afskekkt og fjarlægt land eins og það var á þessum tíma. Heimurinn hefur líka breyst að því leyti að orkan er á þrotum, olíu þrýtur innan áratuga og kol innan árhundraða.
    Ísland er auðugt land. Á mörgum sviðum er það ónumið land. Við eigum auðlindir sem hver og ein kann innan áratuga að gefa af sér ekki minni gjaldeyri en sjávarútvegurinn einn gefur í dag. Hér er aðeins búið að virkja brot af því sem fyrir hendi er til raforkuframleiðslu. Jarðhitinn og gufuorkan verður útflutningsvara og við höfum heyrt fréttir af þeim málum nú á síðustu dögum. En stærsta auðlind fyrir utan landið sjálft er svo kannski kalda vatnið sem ómælt magn er af.
    Við Íslendingar erum smátt og smátt að átta okkur á því að kalda vatnið er söluvara um allan heim. Hafa t.d. hv. alþm. áttað sig á því á hvaða verði kalt vatn er selt á Íslandi, þar á ég við á hótelum? Hvort það er selt dýrara en mjólkin eða ekki? Ég vil vekja athygli á þessari mikilvægu auðlind sem mun gefa okkur ómældan gjaldeyri í framtíðinni. Staðan er sú að mjólkurlítrinn í dag kostar 68 kr. en lítrinn af köldu vatni er seldur á hótelum í Reykjavík á 640 kr. Í landi þar sem þarf ekki annað en opna kranann og drekka vatnið ferskt og gott er verið að selja lítrann á 640 kr. Þetta segir okkur auðvitað það sem við vitum að víða um heim verður fólkið að kaupa vatnið. Þarna er mikil auðlind sem við Íslendingar eigum þannig að við seljum það á tíföldu verði mjólkurinnar í dag. Ég segi því: Ísland á ærinn auð sem við í skammsýnni samningagerð megum ekki glata.
    Hæstv. utanrrh. sagði sjálfur á lokastund við undirskrift EES-samningana, þegar Evrópubandalagið og EFTA-ríkin komu saman, að Evrópubandalagið væri tímaskekkja og mundi liðast í sundur á næstu öld. Hvers vegna féllu þessi ummæli? ( ÓÞÞ: Af framsýni.) Þau féllu af framsýni og kannski líka af því að innst inni hefur hæstv. utanrrh. áttað sig á því að við höfum farið dálítið aðra leið en við ætluðum okkur í upphafi.
    Andstæðingum efnahagslegrar og pólitískrar sameiningar Evrópu fjölgar stöðugt. Stjórnmálaforingjar sem fyrir málinu hafa talað eru að einangrast í mörgum löndum, fólkið sjálft rís upp. Íslendingar vilja ekki vera hjáríki í Evrópubandalaginu. Hér spyrja menn: Hvers vegna fara allar hinar þjóðirnar úr EFTA inn í EB? Hafði það engin áhrif í samningagerðinni að hinar þjóðirnar fóru aðrar leiðir en þær hétu okkur í upphafi? Var ekki slegið af vegna þess að pólitískir foringjar þessara þjóða komust að þeirri niðurstöðu að þær ættu samleið með Evrópubandalaginu?
    Ég sagði áðan að mér sýndist að allmargir af ráðamönnum á ríkisstjórnarheimilinu seildust til lokunnar að Evrópubandalaginu. Ég spyr: Hvernig ber að túlka ummæli hæstv. utanrrh. sem féllu á mikilvægum fundi í Viðey? Með leyfi forseta ætla ég að vitna til þessara ummæla sem fóru fram í sjónvarpi í viðtali Sigrúnar Markúsdóttur þar sem hún ræðir við Thorvald Stoltenberg og hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson:

    ,,Utanríkisráðherrar Íslands og Noregs eru sammála um að það yrði mun auðveldara að semja um kröfur þjóðanna við Evrópubandalagið í sameiningu en sitt í hvoru lagi, æski ríkin aðildar.``
    Þessi ummæli féllu: ,,æski ríkin aðildar.`` Og hæstv. utanrrh. tekur undir þessi ummæli í sjónvarpinu. Þetta skýtur þeirri hugsun að að ýmis þau öfl, sem telja að við verðum að fylgja hinum þjóðunum, þrýsti nú fast á. Við sjáum að það er engin tilviljun að þegar sjálfstæðismenn komu saman á Vestfjörðum nú fyrir nokkrum dögum þá þykir þeim mikilvægt að álykta um það að aðild að Evrópubandalaginu komi ekki til greina. Er það af því að eitthvað er að gerast í Sjálfstfl. í þessum efnum? Með leyfi forseta segir í ályktun sjálfstæðismanna á Vestfjörðum:
    ,,Þá höfnum við öllum hugmyndum um hugsanlega um aðild Íslands að Evrópubandalaginu`` segir í þeirri ályktun. Ég spyr því hæstv. forsrh. sem stýrir Sjálfstfl. hvort umræður séu nú að aukast innan Sjálfstfl. um að okkur beri að fara þá leið að sækja um aðild að Evrópubandalaginu eins og utanrrh. vissulega gefur til kynna í þessu viðtali á fjölmiðlavaktinni.
    Ég ætla ekki að þreyta menn með því að ræða um þær skiptu skoðanir sem vissulega eru innan þessara flokka hvað þetta varðar. En okkur er það ljóst að ýmsir þeir menn sem mest hafa varað við þessum skoðunum hefur bæði hratt og hægt verið vikið til hliðar í sínum flokkum. Ég tel því að Sjálfstfl. verði að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ég skal viðurkenna að hæstv. forsrh. hefur hafnað þeirri hugmynd að innganga sé á dagskrá en við þekkjum hans nánustu samstarfsmenn, svo sem nýjan formann utanrmn., hv. þm. Björn Bjarnason, sem kom inn í þessa pólitík eins og síamstvíburi hæstv. forsrh. og hefur jafnan hér í þinginu túlkað þau sjónarmið sem bærast í brjósti forsrh. Hann hefur þar haldið ræður sem forsrh. hefur tekið undir.
    Ég ætla aðeins að minnast á landbúnaðarmálin. Við höfum verið að fara yfir þau í landbn. og þar kemur glöggt fram að íslenskir samningamenn hafa lent í alvarlegri keldu eftir að núv. ríkisstjórn tók við völdum þar sem opnað er á innflutning á jógúrt og feiti eða smjörtegundum frá 5--15%. Þetta hefur verið rætt og skipst hefur verið á skoðunum um hvort hægt sé að leggja á jöfnunargjöld eða ekki. Utanrrn. mun hafa sent þessa viðaukatillögu til umsagnar í landbrn. og líklega til aðila í mjólkuriðnaði en fær engin andsvör eða athugasemdir þannig að þarna er inni mjög alvarleg setning sem menn hafa deilt um og skal ég ekki frekar fara út í það. En hvað þessar afurðir varðar stöndum við frammi fyrir því sama og í sjávarútveginum að ótakmarkað magn t.d. af jógúrt og þessum smjörtegundum má flytja inn. Við skulum vona að það sé rétt sem landbrh. og ríkisstjórnin segja að við megum beita jöfnunargjöldum. En þó liggur fyrir að við megum bara beita þeim á hráefnið, við megum ekki beita þeim á vinnslukostnað vörunnar. Á þann þátt megum ekki beita þeim. Við stöndum óvarðir frammi fyrir því að EB og þessi ríki mega greiða framleiðslustyrki eða hagræðingarstyrki inn í mjólkurbúin hjá sér. Þarna er því heilmikil alvara á ferðum sem hefur verið rædd á fundum landbn. og þar hefur það komið fram að embættismenn landbrn. hafa mjög miklar áhyggjur af þessu máli og telja mjög erfitt að verjast þeirri yfirlýsingu sem hnýtt var aftan í þennan viðaukasamning.
    Ég ætla ekki að eyða of löngum tíma en auðvitað held ég að það hafi aldrei verið meiningin að okkur væri fjórfrelsið svo mikilvægt eins og nú er lögð áhersla á. Það eru mörg atriði sem væri hægt að fara inn á og ræða. Það er t.d. enginn vafi að íslensk tryggingafélög verða í mjög mikilli hættu. Menn hafa ekki gert sér grein fyrir því hvernig fer þegar frelsi fjármagnsins verður leyft þó ákvæði séu um að heimilt sé að grípa í taumana við einhverjar mjög óljósar aðstæður. En hér getur það gerst að verði um mjög mikið útstreymi á fjármagni að ræða og kannski fólksflutningar úr landi miðað við það efnahagsástand sem þessi ríkisstjórn hefur skapað.
    Forsvarsmenn iðnaðarins hafa blessað þetta samkomulag. Ég tek ekki fullt mark á þeim aðilum því að á seinni árum hafa þeir verið miklu meiri heildsalar og innflytjendur en varðmenn íslensks iðnaðar. Það er auðvitað ljóst að 600--700 störf hafa tapast í iðnaði á Íslandi á síðustu fimm árum undir stjórn Alþfl. Ekki sjáum við það í gegnum þennan samning að íslenskum skipasmíðaiðnaði verði bjargað, þvert á móti lítur út fyrir að hann muni líða undir lok.
    Menn hafa rætt um mikilvægi þessa samnings vegna unga fólksins og framtíðarmöguleika í menntun. Ég ætla að vitna hér í ekki ómerkari mann en fyrrv. háskólarektor, Sigmund Guðbjarnarson. Ég hef heyrt hann flytja erindi og lesið eftir hann greinar þar sem hann hefur fullyrt að íslenskir menntamenn og vísindamenn hefðu um alla framtíð fullan aðgang að háskólum og vísindanámi um Evrópu burt séð frá þessum samningi.
    Ég hef ekkert rætt hér stjórnarskrárþátt málsins. Í mínum huga er enginn vafi á því að EES-samningurinn samræmist ekki íslensku stjórnarskránni. Framkoma ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi í þessu máli er auðvitað hneyksli. Íslenska ríkið getur enga áhættu tekið með svona samning gagnvart stjórnarskránni. Álit fjórmenninganna sem hæstv. utanrrh. skipaði er slíkur hænsnamatur í lögfræði að furðu gegnir. Sá sem les álit fjórmenninganna sér fljótt að stór orð jafnlærðra manna, orð eins og ævintýramennska í lögfræði, eru látin falla vegna þess að það er eins og fjórmenningunum hafi verið uppálagt hver niðurstaðan ætti að vera að lokum. Ég hygg að flest þjóðþing mundu setja í gang rannsóknarnefnd sem færi ofan í vinnubrögð fjórmenninganna. Ekkert þjóðþing hefði heldur sætt því að utanrrh., maður sem er hluti af framkvæmdarvaldinu, skipaði sjálfur eftir sínu höfði þá menn sem færu yfir stjórnarskrárþátt málsins. Það er ekkert þjóðþing í víðri veröld, nema kannski Sovétríkin meðan þau voru og hétu, sem hefði sætt sig við það

að hæstv. utanrrh. skipaði eftir eigin höfði og geðþótta þá menn sem í þessari úttekt voru. Ég segi: Lítil eru geð guma í Sjálfstfl. að sæta því að utanrrh. vanvirði með þessum hætti þingið. Auðvitað bar þinginu sjálfu að skipa færa og óháða menn í slíka úttekt. Hæstv. utanrrh. misnotaði vald sitt með skipuninni og skipaði menn sem unnu í samningsgerðinni og situr nú uppi með álit sem í hugum flestra Íslendinga er pólitískt og pantað. Það er kannski alvarlegur hlutur fyrir leiðtoga ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh., að sitja undir því að íslenska þjóðin telji að þetta álit sé sem niðurstaða bæði pólitískt og pantað. Ég tel því að Alþingi eigi mikið verk fyrir höndum að fara yfir stjórnarskrárþátt málsins og ekki síður yfir öll þau vafasömu efnisatriði sem í samningunum eru.
    Það voru alvarleg mistök stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar að leyfa það að utanrrh. undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd, að alþingismenn Sjálfstfl. og Alþfl. skyldu samþykkja það að hann undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd án þess að vita hvað í samningunum var, hvað hefði breyst á langri vegferð samningsgerðarinnar. Ég er undrandi á því að þingmenn Sjálfstfl. skyldu allir samþykkja svo afdrifarík mistök. ( Gripið fram í: Þeir gerðu það ekki.) Hér er það upplýst að þeir hafi ekki gert það. Ég hygg að leitað hafi verið eftir því í þingflokkum ríkisstjórnarinnar að utanrrh. mætti undirrita samninginn. ( Gripið fram í: Það hefur ekki verið gert.) Nú er það upplýst að svo hefur ekki verið og veikir það nú enn þann grunn sem svo vafasamur samningur stendur nú á.
    Það er enginn vafi á því að Sjálfstfl. var nokkrum mánuðum fyrr sannfærður um að það væri mikilvægt fyrir Íslendinga að hefja tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið. Sú rödd hefur þagnað. ( Forseti: Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann eigi langt mál eftir þar sem ákveðið hafði verið að gera hlé á fundinum kl. 7. Ef hann gæti lokið ræðu sinni á 5--10 mínútum mundi forseti taka þann kost en ef svo er ekki vill forseti biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni.) Hæstv. forseti. Ég hygg að ég muni ljúka ræðu minni á þessum tíma. Ég á örfáar mínútur eftir.
    Það hefur komið fram við þessa umræðu að þegar hæstv. utanrrh. skrifaði undir hafði hann ekki á bak við sig þingstyrk stjórnarflokkanna. Það hefur líka komið hér fram í 1. umr. að þær hafa hvergi heyrst hinar eldríku ræður forsrh. í málinu, að vísu hef ég hlustað á hv. þm. Björn Bjarnason en skoðanir forsrh. eru á mörgu sviðum mjög óljósar. Mín niðurstaða er sú að það kann að vera og er auðvitað mikilvægt að Alþingi Íslendinga setjist yfir stjórnarskrárþáttinn og ekki síður efnisatriði samningsins, ræði hvernig hægt er með þennan samning að fara og hvað hægt er að gera úr honum. Ég vil segja um stjórnarskrárþáttinn: Það kann að vera að forseti lýðveldisins hugsi sig um áður en hann skrifar undir þessi lög, ef af verður. Þess vegna er það náttúrlega mikilvægt að Alþingi nái því að komast að niðurstöðu. Stangast samningurinn á við stjórnarskrá lýðveldisins? Forseti lýðveldisins kann að efast um málið þegar þar að kemur.
    Mín lokaniðurstaða er auðvitað sú að forsendurnar hafa á langri eða stuttri leið, þessum þremur árum, töluvert breyst. EFTA-ríkin hafa öll sagst mundu ganga í eða sækja um aðild að Evrópubandalaginu og upp úr áramótum hefjast samningaviðræður um það atriði við þau. Þess vegna tel ég að sú niðurstaða sem framsóknarmenn bentu á á miðstjórnarfundi sínum í vor, að það verði gengið úr skugga um að samningi um Evrópskt efnahagssvæði megi breyta í tvíhliða samning Íslendinga og Evrópubandalagsins ef og þegar önnur EFTA-ríki hafa gerst aðilar að EB, skynsamleg. Ég vil því spyrja hæstv forsrh.: Hefur ekki verið rætt í ríkisstjórninni og í þingflokkum stjórnarinnar við þessar breyttu aðstæður hvort tvíhliða viðræður henti okkur Íslendingum ekki betur við þær aðstæður sem nú hafa skapast úti í Evrópu? Mér vænt um ef hæstv. forsrh. vildi svara mér til um sínar skoðanir og hvort hann hafi kannað það. Það er enginn vafi á því að við höfum fengið svör frá mörgum embættis- og stjórnmálamönnum EB um að þeir sæju því ekkert til fyrirstöðu og þess vegna þykir mér það eðlilegt, um leið og EFTA-ríkin eru að hefja sínar samningaviðræður um fulla aðild að Evrópubandalaginu, að við hefjum tvíhliða viðræður um mörg þau atriði sem okkur eru mikilvæg.