Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 20:58:18 (430)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég hverf að því ráði að kveðja mér aftur hljóðs í þessari umræðu vegna þess að ég tel óhjákvæmilegt að fylgja betur eftir atriðum sem ég hreyfði fyrr í umræðunni og á þar sérstaklega við það sem lýtur að kaupum útlendinga á landi eða jarðnæði og orðið hefur nokkurt umtalsefni í þessu sambandi af skiljanlegum ástæðum. Ég vil byrja á því að óska eftir því að hæstv. forseti kanni hvort hæstv. landbrh. er á svæðinu og getur verið viðstaddur þessa umræðu fyrr en síðar, auk þess sem ég auðvitað vænti þess og geri ráð fyrir að hæstv. utanrrh. sé til staðar. ( Forseti: Hæstv. utanrrh. er hér til staðar og heyrir væntanlega ræðu hv. þm. því að hann var fyrir örstuttu síðan í salnum og forseti hefur ekki ástæðu til annars en ætla að hann fylgist með ræðu hv. þm. Hins vegar mun hæstv. landbrh. vera úti á landi og því ekki auðvelt fyrir forseta að ná sambandi við hann. En forseti hefur gert ráðstafanir til að koma skilaboðum til þeirra hæstv. ráðherra sem ekki eru hér í húsinu samkvæmt töflunni og vænti þess að úr því rætist innan tíðar.) Já, hæstv. forseti, ég meðtek þessar upplýsingar en ég verð að segja eins og er að það veldur mér miklum vonbrigðum ef hæstv. landbrh. er fjarstaddur við lok þessarar umræðu. Mér er ekki kunnugt um að hann hafi tekið til máls í umræðunni. Spurningum hefur þegar verið beint til hans og reyndar óskaði ég sérstaklega eftir því í fyrri ræðu minni að landbrh. og sjútvrh. yrðu nærstaddir eða kæmu inn í umræðuna á síðari stigum til að svara ýmsum spurningum. Í öllu falli treysti ég því að áður en umræðunni ljúki muni hæstv. sjútvrh. koma og ræða þau fjölmörgu álitamál sem snúa að málefnum sjávarútvegsins og margir ræðumenn hafa spurt um.
    Ég ætla engu að síður, hæstv. forseti, að fara yfir þau álitamál varðandi kaup á landi sem mér eru efst í huga þó svo hæstv. landbrh. sé ekki viðstaddur. Ég vona þó að einhverjir af hæstv. ráðherrum, sem hér eru á staðnum til svara fyrir hæstv. ríkisstjórn, treysti sér þá til þess að svara fyrir hæstv. landbrh. Ég spyr um hæstv. forsrh. Er hann viðstaddur? Ég tel eðlilegt að beina máli mínu til hans bæði sem forsrh. ríkisstjórnarinnar og formanns þess stjórnarflokks sem landbrh. tilheyrir eða tilheyrði síðast þegar ég vissi.
    Ég hef, hæstv. forseti, verið að afla mér viðbótarupplýsinga um þessi mál síðan ég hélt ræðu mína fyrir nokkrum dögum og eftir þá skoðun hef ég ákveðið að senda frá mér greinargerð um þetta mál, þ.e. það sem lýtur að áhrifum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði á rétti útlendinga til fasteignakaupa, þar með talið jarðnæði hér á landi. Ég mun dreifa þeirri greinargerð væntanlega fyrri partinn á morgun til allra hv. alþm. og einnig til fjölmiðla og vona að litið verði á það og er hugsað sem tilraun af minni hálfu til að varpa ljósi á þetta mál og auðvelda mönnum umfjöllun um það. Ég mun jafnframt láta fylgja með þau atriði úr greinargerð samningsins, viðaukum og tilheyrandi gerðum Evrópubandalagsins sem mestu máli skipta í þessu efni mönnum til glöggvunar. Sömuleiðis vissar upplýsingar úr danskri löggjöf eða dönskum reglugerðum og úr írskum landalögum sem þessu máli tengjast. Vissulega mætti bæta þar ýmsu við hvað upplýsingar snertir en þetta er það sem ég tel hvað mikilvægast til þess að menn glöggvi sig á stöðu málsins fyrir svo utan þessa ágætu greinargerð sem áður hefur verið nefnd hér og á að vera alþm. aðgengileg því að hún kom út í sumar og var ef ég man rétt send öllum hv. alþm.
    Í fyrsta lagi vil ég aðeins nefna, eins og ég geri í þessari greinargerð, aðdragandann að þessu máli eins og hann kom mér fyrir sjónir eða ég þekki hann réttastan úr tíð fyrrv. ríkisstjórnar og fram að þessum degi. Ég endurtek það sem ég sagði reyndar fyrr í umræðunum að mín skoðun, sem þáv. landbrh. og hún kom oft fram bæði innan ríkisstjórnar og utan, að eini umbúnaðurinn hvað jarðakaup og fasteignakaup snertir sem dygði okkur væri varanleg undanþága eða fyrirvari, ótímasettur fyrirvari sem í samningnum sjálfum væri og kvæði á um rétt okkar Íslendinga til þess að takmarka eða með sérstökum hætti skilyrða möguleika útlendinga til landakaupa hér. Ég féllst aldrei á það í tíð fyrri ríkisstjórnar að frá þessu yrði horfið og ég held að það sé óhjákvæmilegt að fara yfir þau atriði, ekki síst tímann frá og með mánaðamótunum nóvember/desember 1990 og til og með 30. apríl 1991 þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, þ.e. þriðja ráðuneyti hans, fór frá.
    Til þess að öllu sé nú til haga haldið og allri sanngirni fram haldið þá mun það vera svo að nokkru fyrir þennan tíma, mánaðamótin nóvember/desember, hafði hæstv. utanrrh. reifað það í almennri umfjöllun hvort ekki væri unnt að falla frá kröfum um varanlega fyrirvara á ýmsum sviðum á grundvelli þess að inn í samninginn kæmi í staðinn almennt öryggisákvæði og/eða að menn gætu búið þannig um hlutina í séríslenskri löggjöf að það þætti fullnægjandi. En það er þá fyrst á fundum ríkisstjórnar sem sérstaklega voru haldnir um þessi mál í lok nóvember eða byrjun desember 1990 sem segja má að hæstv. utanrrh. hafi beinlínis komið með það sem tillögu að þetta yrði gert, að Ísland hefði samflot með hinum EFTA-ríkjunum hvað það snertir að falla frá kröfum um alla varanlega fyrirvara til að greiða fyrir framhaldi samningsviðræðnanna en gangast þess í stað inn á að almennt öryggisákvæði kæmi í samninginn og/eða þetta yrði leyst með þröskuldum eða girðingum í innlendri löggjöf. Það var afstaða samninganefndarmanns Íslands að það væri nauðsynlegt að EFTA-ríkin gerðu þessa tilslökun vegna harðrar andstöðu Evrópubandalagsríkjanna við að varanlegir fyrirvarar væru yfirleitt inni í samningnum nema þá sem algerar undantekningar.
    Um þetta urðu skörp skoðanaskipti í þáv. ríkisstjórn sem ég ætla ekki að rekja hér, enda ekki eðlilegt að mínu mati. Ég vil þó segja það til þess að reyna að sýna ýtrustu sanngirni í þessum efnum vegna fréttaflutnings Ríkissjónvarpsins í kvöld að þar var ekki nákvæmlega með hlutina farið og að hluta til má kannski kenna um ónákvæmnu orðalagi sem ég viðhafði í ræðustólnum fyrr í dag. Það er best að leiðrétta það strax og ég vil ekki síst vanda mig í þessum efnum vegna þess að í hlut á fyrrv. hæstv. forsrh. sem ég met mikils og átti mjög gott samstarf við í þáv. ríkisstjórn og ég er enn þakklátur fyrir góðan stuðning við þá málaflokka sem ég gegndi í hans ráðuneyti. ( Gripið fram í: Þarf ekki að sækja hann?) Hæstv. fyrrv. forsrh. fór fram á það við mig og tók þar undir óskir hæstv. utanrrh. þáv. og núv. að það yrði kannað í landbrn. hvort ekki mætti með lagasetningu, breytingu á jarðalögum eða ábúðarlögum, ganga þannig frá málum að ekki þyrfti að vera uppi krafa Íslands um varanlegan fyrirvara. Þessa beiðni færði hæstv. forsrh. fram í framhaldi af reifun hæstv. utanrrh. á því að nú væri nauðsynlegt til að greiða fyrir gangi samningaviðræðnanna að Íslendingar ásamt með öðrum EFTA-ríkjum féllu frá öllum kröfum um varanlega fyrirvara. Svona kann ég nákvæmlegast að segja frá þessu og ég vona að þá eyðist allur misskilningur í þessu efni.
    Ég lýsti því strax að ég væri á móti því að Ísland léti af kröfunni um varanlegan fyrirvara. Ég sæi þess vegna ekki tilganginn í því af minni hálfu sem var andvígur þeirri leið og fyrir fram sannfærður um að hún dygði okkur ekki að fara að leggja í vinnu af þessu tagi og ég hélt fram þeirri skoðun minni að við Íslendingar ættum að krefjast þarna varanlegs fyrirvara eða undanþágu og ekkert annað dygði okkur. Og ég vona að menn skilji aðstöðu mína í þessum efnum. Hún var þessi og hún var ekki grundvölluð á einhverjum pólitískum áhrifum eins og mér fannst liggja í orðum hv. 6. þm. Norðurl. e. Hún var efnisleg að því leyti til að ég sem landbrh. þekkti þá mjög vel til framkvæmdar bæði jarðalaga og ábúðarlaga. Ég vissi það manna best að þau mál höfðu verið þannig framkvæmd af okkar Íslendinga hálfu um langt, langt árabil að hvorki ákvæði jarðalaga og þaðan af síður ákvæði ábúðarlaga um ábúð eða byggingu jarða höfðu í reynd verið virk. Það sést best á þeim hundruðum þéttbýlisbúa sem eiga jarðir án þess að þær séu byggðar og hafa nýtt þær um árabil til allt annarra hluta en hefðbundins búskapar. (Gripið fram í.) Ef menn lesa ábúðarlögin, hv. 3. þm. Austurl., og ef menn taka þann lagabókstaf bókstaflega þá held ég að allir hljóti að viðurkenna að menn hafa verið mjög frjálslyndir í framkvæmd þeirra ákvæða. Þeir hafa ekki í hverju einasta tilviki látið á það reyna hvort einhver maður fyndist sem byggja vildi viðkomandi jörð og skikka þá jarðareigandann, sem ekki sat jörðina, til þess að leigja hana slíkum væntanlegum ábúanda. Þannig eru ákvæði ábúðalaganna enn í dag. Þau gera í raun og veru ráð fyrir því að allt sé gert sem hægt er til að koma hverri einustu jörð í ábúð nema hún sé eyðijörð eða svo kostarýr að það sé ekki raunhæft að á henni geti þrifist mannskapur. Við hv. alþm., sem hér skiptumst á skoðunum, vitum það vel að fjöldinn allur af ágætis bújörðum, sem ekki eru kostarýrar, hafa horfið úr ábúð á undanförnum árum. Menn hafa sett kíkinn upp að blinda auganu og látið viðgangast að þær hyrfu úr ábúð og þéttbýlisbúar tækju þær til einkanota til sumardvalar, hrossahalds eða annarra hluta. Menn hafa sem sagt verið mjög umburðarlyndir og frjálslyndir hvað framkvæmd þessara ákvæða jarðalaganna og ábúðalaganna snertir. Þetta er staðreynd málsins og hana verðum við að horfast í augu við. Það er m.a. þessi staða sem við stöndum frammi fyrir núna þegar við veltum því fyrir okkur hvort við getum sett inn í þessa löggjöf ákvæði, þröskulda, sem ekki stórlega mismuna þeim tugum og hundruðum landeigenda eða jarðeigenda í dag sem ekki sitja sínar jarðir, sem ekki reka þar hefðbundinn búskap og svo aftur hinum sem vildu reyna að eignast jarðir eftir að slík lagabreyting ætti sér stað.
    Ef þess er óskað eða tilefni gefast er ég tilbúinn að rekja nákvæmlegar það sem fór fram í ríkisstjórninni þessa ágætu vetrardaga í desember, janúar, febrúar og mars 1991. Ég vona að með þeim orðum sem ég hef hér viðhaft, sem hv. 7. þm. Reykn. náði kannski því miður ekki að nema, þá hafi ég eytt misskilningi eða skýrt betur hvernig þetta bar að eins og ég þekki það best. (Gripið fram í.) Ég vísa bara í þessi ágætu orð mín sem ég hef viðhaft og hv. 7. þm. Reykn. getur lesið í þingtíðindunum rétt eins og ég get lesið ræðu hans um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sem hann mun hafa flutt fyrir nokkru úr þessum ræðustóli þar sem lítillega var vikið að undirrituðum.
    Hinu verða menn auðvitað að kyngja að ég sit ekki undir því, a.m.k. ekki margendurtekið, að ég hafi gerst sekur um meiri háttar vanrækslu eða leti sem landbrh. þennan vetur, 1990--1991. Ég hefði þá haft til þess um þrjá mánuði eða tvo og hálfan mánuð, af virkum starfstíma Alþingis, eftir að hæstv. utanrrh.

kom með sínar hugmyndir um að fallið yrði frá öllum fyrirvörum í desemberbyrjun 1990 og fram til þess að þing lauk störfum. Eins og ég vænti að hv. alþm. muni var gengið til alþingiskosninga á næsta vori á eftir og þingið lauk þess vegna störfum óvenju snemma, það mun hafa verið í lok marsmánaðar ef ég man rétt.
    Varðandi það, sem er óhjákvæmilegt að fara aðeins yfir, hvort við Íslendingar höfum á einhvern hátt misst af tækifæri með því að setja ekki lög eða breyta þeim veturinn 1990--1991 og því sé einhver skaði skeður, þá liggur málið ekki þannig. Staðreyndin er sú að það skiptir engu hvort við hefðum breytt lögum og hvernig vegna þess að það eru ákvæði samningsins sem gilda ef menn á annað borð gera hann. Þá er ekki spurt að því þegar endurskoða þarf íslenska lagasafnið í framhaldi af samþykkt EES-samnings hvort þau lög eru frá 1991, 1960 eða 1930. ( Gripið fram í: Eða sautjánhundruð og súrkál.) Eða sautjánhundruð og súrkál og hv. 6. þm. Norðurl. e. þótti mjög merkilegt því hann mundi ekki eftir neinum lögum sem höfðu verið sett það ár.
    Staðreyndin er auðvitað sú að það er eingöngu spurt: Standast ákvæði viðkomandi laga hinn nýja rétt, hina nýju lögbók? Ef ekki þá þarf að breyta þeim. Um það vitna yfir 100 frumvörp sem hér eru að koma inn á borð okkar alþingismanna. Þau ákvæði hins vegar sem á annað borð standast samninginn geta jafnvel verið í lögum frá 1920 eins og í lögum sem við setjum á næsta ári eða þar næsta. Það skiptir engu. Átta menn sig ekki á þessu? Þetta liggur auðvitað svona. Við misstum þar með ekki af neinu tækifæri, hvorki árið 1990, 1991 eða 1992. Frá og með gildistíma þessa samnings eða gildistöku setjum við ekki lög, ef við ætlum að virða samninginn og starfa samkvæmt honum, sem brjóta í bága við hann. Eldri lögum höfum við skuldbundið okkur til að breyta í samræmi við ákvæði samningsins samkvæmt því samningsuppkasti sem hæstv. utanrrh. hefur undirritað. Svo einfalt er það.
    Þau ákvæði sem standast samninginn á annað borð getum við sett í lög nú eða á næstu mánuðum, önnur ekki. Eldri lög sem ekki samrýmast samningnum verður að fella úr gildi.
    Írar neyddust til þess fyrir nokkru síðan að veita með reglugerð undanþágu frá ákvæðum laga frá 1965 sem kváðu á um sjö ára búsetu í Írlandi sem skilyrði fyrir jarðakaupum. Þetta gerðist eftir að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hafði hótað þeim og undirbúið málsókn gegn þeim fyrir Evrópudómstólnum á þeim grundvelli að lögin frá 1965 fælu í sér mismunun og brytu í bága við 52. gr. Rómarsáttmálans. Írar létu undan þessum þrýstingi eftir áralangt skak og breyttu sinni reglugerð. Þetta er í 45. gr. í írsku landalögunum, sem ég kýs að kalla svo, Land Act, og inn í þá reglugerð sem þeim lögum fylgdi var bætt því ákvæði að þetta skyldi þó ekki taka til þeirra íbúa Evrópusamfélagsins sem hefðu staðfesturétt samkvæmt viðeigandi greinum Rómarsáttmálans. Þá ætti kvöðin um sjö ára búsetu á Írlandi, sem skilyrði fyrir því að geta keypt land án skriflegs samþykkis jarðadeildar írska landbúnaðarráðuneytisins, sem ég kýs að kalla svo, Land Comission, ekki við.
    Nú gilda þau ákvæði að íbúar í Evrópusamfélaginu þurfa ekki að uppfylla þetta skilyrði. Þeir geta á grundvelli staðfesturéttarins bankað upp á á Írlandi og keypt þar jarðir en íbúar utan svæðisins þurfa eftir sem áður að uppfylla þetta skilyrði.
    Ekki dugði það Írum að þessi löggjöf var frá 1965. Það breytti auðvitað engu hvort hún var frá því ári eða einhverju öðru ári og eins yrði það með okkur Íslandsmenn, að sjálfsögðu.
    Ég hlýt að leyfa mér að segja einu sinni enn í fullri vinsemd að þeir menn sem halda því fram að við höfum misst af einhverju tækifæri þennan sérstaka vetur, þessa útvöldu mánuði, desember, janúar, febrúar, 1990--1991, hafa ekki alveg áttað sig á eðli málsins. Það var ekki þannig. Eingöngu ef við hefðum sett lög og fengið undanþágu fyrir þeim í samningnum hefði það þjónað einhverjum tilgangi. Það var að sjálfsögðu ekki á dagskrá þar sem í ljós kemur að hæstv. utanrrh. og/eða samningamenn hans hófu að ræða málin á þeim grundvelli, að því er best verður séð og síðar hefur komið á daginn, að fallið yrði frá þessum fyrirvörum. Spurningin er sem sagt einfaldlega þessi: Getum við sett einhver takmarkandi ákvæði sem gera það að verkum að við þurfum ekki að óttast það sem e.t.v. er að óttast í þessum efnum, ásókn útlendinga hér í land eða jarðir, ákvæði sem ekki mismuna mönnum á grundvelli þjóðernis og brjóta þar af leiðandi ekki grundvallarreglur samninga? Það er vissulega ýmislegt hugsanlegt í þeim efnum en það er miklum vandkvæðum bundið að setja slík ákvæði eins og ég tel mig geta sýnt nokkuð rækilega fram á.
    Ég hlýt auðvitað að leyfa mér að halda því til haga vegna þessarar sérkennilegu umræðu, sem bryddað hefur verið á, að það flokkist undir vanrækslu af minni hálfu að hafa ekki unnið þessi verk á þessum tíma, veturinn 1990--1991, að sama hljóti þá að eiga við um alla aðra ráðherra og öll önnur samningssvið sem menn kunna að hafa einhverjar áhyggjur af. Enn er verið að kvarta yfir því að hæstv. iðnrh. hafi ekki komið með lög um orkulindirnar. Hann var í ríkisstjórninni 1990--1991. Hann hefur þá væntanlega, eins og ég, getað átt að vinna þessa vinnu og það sama má segja um öll önnur samningssvið, öll önnur vafaatriði sem þarna var ástæða til að hafa áhyggjur af.
    En hvernig voru aðstæðurnar um áramótin 1990--1991 hvað þetta samningaferli snertir? Þær voru þannig að það rak hver hremmingin aðra sem stofnaði öllu málinu í stórfellda óvissu. Menn voru meira og minna efins um að það yrði af nokkrum samningum og auðvitað var óvissa líka um það hver samningsniðurstaðn gæti orðið. Lái mönnum hver sem vill þó það væri í fljótu bragði séð margt annað þarfara að gera en að fara fyrir fram og nánast út í loftið að endurskoða íslenska lagasafnið til þess að setja þar inn þröskulda eða girðingar til þess að verja sig fyrir hugsanlegri samningsniðurstöðu sem gæti e.t.v. orðið, einhvern tímann og einhvern tímann. Þannig var staðan. Um það er verið að ræða hér. Það var vissulega ekki gert í þessu tilviki frekar en öðrum og mér er ómögulegt, með vísan til þeirra raka sem ég hef hér flutt, að kyngja því í ljósi þessara aðstæðna og með hliðsjón af afstöðu minni að það hafi verið vanræksla. Margt hef ég verið sakaður um og sumt örugglega réttilega í þessum störfum á þeirri tíð en ég minnist þess ekki að mér hafi verið brugðið um leti. Þetta væri þá í fyrsta sinn sem sá löstur hefði orðið mér að fótakefli hvað þetta snertir.
    Veltum aðeins fyrir okkur þeim úrræðum sem helst hafa verið rædd í þessu sambandi, svo við snúum okkur, hæstv. forseti, að málinu efnislega. Nefndur hefur verið möguleiki á forkaupsrétti, að bæta e.t.v. við forkaupsrétt sveitarfélaganna að jörðum forkaupsrétti ríkisins sem kæmi þá þar á eftir. Menn geta vissulega spurt sig: Er þetta haldreipið? Þá er að tvennu að hyggja a.m.k. Í fyrsta lagi: Eru menn tilbúnir til að beita þeim forkaupsrétti? Hafa menn trú á að sveitarfélögin hafi peninga til þess að keppa við auðmenn, ef því væri að skipta, um laxveiðiár eða önnur slík hlunnindi sem væntanlega væru eftirsóknarverðust í þessu sambandi? Reynslan hefur ekki sýnt það á undanförnum árum og áratugum að fámenn og vanmegnug sveitarfélög gætu keppt við svo mikið sem íslenska smákónga og yrði þá væntanlega þröngt fyrir dyrum þegar meiri bógar klyfjaðir mörkum eða pundum frá Evrópu kæmu á sviðið. Varðandi forkaupsrétt ríkisins getum við spurt: Ríkið hefur sjálfsagt bolmagn til þess, ef því er að skipta, að setja í það nokkur hundruð milljónir á ári að kaupa allar jarðir sem losna. Keppa um þær við hverja þá sem í þær bjóða, jafnvel þótt það væru vænir hlutar úr Reykjahlíð við Mývatn sem einu sinni var sagt að ætti tíunda part af Íslandi, drjúga sneið af Vatnajökli eða einhverjar aðrar stórjarðir sem kynnu að vera eftirsóknarverðar. En spurningin er: Er vilji til þess og er það sú aðferð sem menn telja rétta í þessu sambandi, jafnvel þó að menn vilji reyna hana, að ríkið gangi inn í alla kaupsamninga og kaupi allar jarðir sem losna á Íslandi vegna þess að það er eina leiðin? Þess misskilnings hefur gætt að ríkið geti komið og keypt jarðir þegar útlendingar bjóða í þær en lokað svo bara augunum þegar Íslendingar kaupa. En þetta er misskilningur. Þetta er ekki hægt. Það væri mismunun, það væri brot á 4. gr. samningsins. Ríkið yrði annaðhvort að kaupa allar jarðir eða engar jarðir. Um leið og ríki eða sveitarfélög yrðu ber að því að mismuna væntanlegum kaupendum á grundvelli þjóðernis er það augljóslega brot á samningnum. Valið stendur þess vegna um að ríkið og/eða sveitarfélögin kaupi annaðhvort allar jarðir, jafnt af Íslendingum sem útlendingum, eða engar. Þess vegna held ég að þessi leið sé ekki vænleg, auk þess sem ég hef miklar efasemdir um að hún sé pólitískt skynsamleg eða fyrir henni sé pólitískur vilji. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. forsrh.: Er ríkisstjórn hæstv. forsrh. tilbúin til þess að auka þannig ríkisumsvifin að stefna eftir atvikum á það á næstu árum að kaupa allt laust land sem losnar?
    Í öðru lagi skiptir miklu máli að skoða áhrif þess sem ég kalla jafnræðisreglu í samningnum, þ.e. 4. gr. samningsins og annarra skyldra ákvæða, sem banna alla mismunun borgara hins Evrópska efnahagssvæðis á grundvelli þjóðernis. Ef við skoðum það hvernig er hægt að breyta jarðalögum eða ábúðalögum án þess að brjóta þessa jafnræðisreglu rekum við okkur fljótt á það, því miður, að það er hægara sagt en gert. Ég vísa í ágæta greinargerð aftur um þetta efni frá nefnd sem dómsmrh. og landbrh. létu starfa í sumar en þar er einmitt minnt á það að menn lenda þarna umsvifalaust í þeirri hættu að mismuna mönnum á grundvelli þjóðernis. Ég vísa í bls. 72 í því áliti.
    Málið er auðvitað ekki svona einfalt. Það er ekki hægt að segja bara að allir þeir sem eiga jarðir á Íslandi verði að búa á þeim allt árið. Það gengur ekki gagnvart framkvæmd þessara mála í dag. Það er ekki hægt að segja að allir sem eiga jarðnæði verði að vera bændur með bændaskólapróf. Það gengur heldur ekki gagnvart framkvæmdinni í dag. Það er ekki hægt nema með því að raska stórlega högum þeirra hundraða bænda eða jarðeigenda sem búa við aðrar aðstæður í dag og hafa í fullum rétti, samkvæmt gildandi lögum, eignast sitt jarðnæði. Þó að menn kynnu að telja að unnt væri að slá striki yfir hið liðna --- sem er lögfræðilegt álitamál og ég skal fúslega játa að ég treysti mér ekki til að fara djúpt ofan í það --- og segja sem svo: Hin breytta skipan gildir eingöngu frá og með gildistíma samningsins eða tilheyrandi lagabreytingar. Það er í lagi þótt bændur hafi ekki próf ef þeir hafa eignast jörðina fyrir 1. jan. 1993. Það er í lagi að þéttbýlisbúar eigi jörðina ef þeir hafa keypt hana fyrir 1. jan. 1993. Eftir standa samt margvísleg vandamál sem tengjast jafnræðisreglunni. Þá kemur upp gríðarleg mismunun innbyrðis milli þeirra sem höfðu náð jarðnæði eða hafið búskap fyrir gildistöku breytinganna og hinna sem vildu leita slíks réttar eftir hana. Þeir sem ætluðu að sækja rétt sinn á grundvelli staðfestuákvæða EES-samningsins munu segja: En það er þarna fullt af mönnum sem ekki hafa próf. Það er þarna fullt af mönnum sem eiga jarðir sem ekki búa á þeim. Það er mismunun. Ætli Íslendingum gengi ekki erfiðlega að skilja þann aðstöðumun sem við þetta mundi myndast milli þeirra sem keypt hefðu land fyrir gildistöku breytinganna og hinna sem vildu reyna hið sama eftir þær?
    Það er fróðlegt að athuga til dæmis hvernig Danir bregðast við í þessu efni. Þeir setja bæði menntunarkröfur og búsetuskilyrði, en skýrsluhöfundar hæstv. ríkisstjórnar viðurkenna að aðstæðurnar í Danmörku séu allt aðrar og í raun og veru ekki sambærilegar og það hef ég þegar farið yfir hér. Ég held að menn verði að svara þessu betur efnislega og fara ofan í það hvernig menn ætla þá að búa þarna um hnútana.
    Þriðja atriðið sem mikið hefur verið rætt í þessu efni er svonefnt búsetuákvæði og menntunarskilyrði. Reynsla Íra, eins og ég hef þegar rakið, bendir ekki til þess að það sé mikil vörn í því að ætla sér

að setja kröfur um svo og svo langa búsetu í landinu áður en menn geti keypt hér jarðnæði, land eða fasteignir. Staðreyndin er sú að það dugar ekki. Það dugði ekki Írum og það mun ekki duga Íslendingum af þeirri einföldu ástæðu að ákvæði staðfesturéttarins samkvæmt samningnum, viðaukum og tilheyrandi tilskipunum Evrópubandalagsins eru svo sterk. Það er beinlínis óheimilt að hindra það að menn geti nýtt sér staðfesturétt sinn með óeðlilegum hömlum af því tagi og ég verð að segja alveg eins og er að ég átta mig ekki á því hvernig stendur á því að menn skuli enn vera að tala um það sem raunhæfan möguleika hafandi þó lesið á prenti og í íslenskri þýðingu tilskipun Evrópubandalagsins frá 15. jan. 1962 sem fylgir viðauka VIII um staðfesturétt en þar er fjallað um afnám þeirra hindrana sem kunna að vera í gildandi lögum Evrópubandalagsríkjanna og standa í veginum fyrir því að menn geti nýtt sér staðfesturétt sinn. Og hvaða hindranir voru það sem menn voru strax árið 1962 að ræða um að afnema og stæðu í vegi fyrir staðfesturéttinum? Jú, þær gefur að líta í þessari tilskipun, sem er með hryllilega langt númer sem ég nenni ekki að lesa, en hana er að finna í tilskipunum í framhaldi af viðauka VIII. Þar segir undir staflið a, undirlið d. Og þar er verið að fjalla um heftandi ákvæði, hindranir sem eigi ryðja úr vegi, að falla úr gildi og mundu takmarka möguleika erlendra borgara til að nýta sér staðfesturétt í öðrum löndum. Og hvernig er stafliður d? Hann er svona:
    ,,Til heftandi ákvæða og venja teljast einkum þau sem að því er varðar erlenda ríkisborgara eingöngu:
    d. setja skilyrði um tiltekinn búsetu- eða þjálfunartímabil í gistilandinu fyrir því að einstaklingur hefji eða stundi sjálfstæða starfsemi.``
    Það er beinlínis tekið fram í tilskipun Evrópubandalagsins um afnám hindrana gagnvart staðfesturétti að búsetuskilyrði séu slíkar hindranir sem beri að fella úr gildi og það var á þessu sem Írar féllu. Þeir urðu að bíta í gras vegna þess að þegar Evrópubandalagið beitti þá þrýstingi og hótaði þeim málshöfðun, þá var það á grundvelli 52. gr. Rómarsáttmálans um staðfesturétt og ,,direktíva`` Evrópubandalagsins sem honum tengjast sem það lá ljóst fyrir að landalagaákvæðið írska stóðst ekki Evrópuréttinn. Þess vegna urðu Írar að bíta í gras. Og í undirlið d, um hindranir sem útiloki möguleika ríkisborgara til þess að nýta sér þjónustustarfsemi og önnur réttindi, er jafnframt tekið fram að til slíkra hindrana teljist: að eignast eða nota eða ráðstafa fasteignum eða lausfjármunum eða rétti þeim tengdum. Það er beinlínis tekið fram að það sé óheimilt að hindra aðgang borgara Evrópusvæðisins að fasteignum þannig að þeir geti ekki nýtt sér staðfesturétt sinn. Og undir fasteignir falla að sjálfsögðu jarðir. Þannig er það nú. Þannig er búseturéttarákvæðið því miður í raun og veru úr sögunni. Það heldur ekki gagnvart því að íbúar Evrópska efnahagssvæðisins geti, ef af samningnum verður, bankað hér upp á, veifað seðlunum og sagt: Góðan daginn. Hér er ég mættur með mín þýsku mörk og ég ætla að nýta mér staðfesturétt minn og kaupa þessa jörð til þess að stunda hér hrossarækt eða einhvern annan slíkan tilgang sem auðvelt er fyrir menn að gefa upp.
    Varðandi menntunarskilyrðin tel ég út af fyrir sig að það sé á margan hátt raunhæfari lausn og það sé frekar reynandi að setja inn í íslenska löggjöf kröfur um hæfni manna, menntun, starfsreynslu eða því um líkt til þess að þeir geti keypt sér jarðnæði til búskaparnota. ( Gripið fram í: Og hrossaræktar.) Og hrossaræktar, sem er líka búskapur, hv. þm., vegna þess að fyrir því eru fordæmi og í dönskum lögum og reglugerðum eru slík ákvæði og þau eru viðurkennd af Evrópubandalaginu. Reyndar segir að það verði að vera raunhæfar kröfur og sanngjarnar kröfur og rökstuddar með vísan til þess að það sé einhver skynsemi í því út frá sjónarhóli viðkomandi atvinnugreinar að setja þær. Við mundum með öðrum orðum tæplega geta gert kröfur um doktorspróf í dýralækningum eða annað slíkt. Það væri of fjarlægt því að stunda hefðbundinn búskap. En bændaskólapróf? Já. Starfsþjálfun? Já. Námskeið í tiltekinn tíma? Já. Þetta gætum við gert. Að sjálfsögðu er óþarfi að taka fram að þetta yrði að gilda jafnt um Íslendinga sem útlendinga, (Gripið fram í.) að sjálfsögðu og allt í lagi með það. Það er einnig óþarfi að taka fram að sérstakur aðlögunartími fyrir Íslendinga umfram útlendinga væri óheimill. Þetta yrði að ganga í gildi á einu bretti fyrir alla jafnt. En eitt verða menn að athuga í þessu sambandi og það er að um leið og við setjum þessar kröfur, verðum við jafnframt að samþykkja að viðurkenna sambærilega menntun, starfsþjálfun eða reynslu erlendis frá. Það fylgir með í kaupunum. Danir urðu að bæta inn í sínar reglugerðir ákvæðum um það, reglugerðir sem tengjast þeirra landbúnaðarlöggjöf, sérstök lög sem danskurinn hefur um kröfur til þeirra sem keypt geti eða eignast eða haldið land til landbúnaðarnota. Þeir settu inn í sína reglugerð, og hafa síðan endurútgefið hana nokkrum sinnum, ákvæði um það að allir borgarar Evrópusamfélagsins geti nýtt sinn staðfesturétt í Danmörku ef þeir hafa samsvarandi menntun, sambærileg námskeið að baki eða aðra slíka þjálfun og gerð er krafa um til danskra aðila. Þannig liggur það alveg í hlutarins eðli að ef við t.d. settum ákvæði um það að menn hefðu starfað að lágmarki tvö ár við landbúnað, hefðu slíka starfsreynslu, menn hefðu lokið eins árs almennu bændaskólanámi eða menn hefðu að baki einhver tiltekin námskeið, þá mundi það að sjálfsögðu verða að ganga yfir alla jafnt. Þetta geta menn séð. Ég hef undir höndum reglugerð frá danska landbúnaðarráðuneytinu frá 1989 sem heitir á þeirri tungu, með leyfi forseta: ,,Bekendgørelse om uddannelseskrav og bopælskrav i henhold til landbrugsloven`` og það var enginn annar en þáverandi starfsbróðir minn, Lauritz Thorne, sem undirritaði hana 15. ágúst 1989. Og þar segir, ef menn vilja nú heyra mig æfa mína skóladönsku um þetta atriði sem hér er verið að fjalla um, réttindi manna til þess að nýta sér staðfesturéttinn ef þeir hafa sambærilega menntun eða þjálfun:
    ,,Statsborgere i et land, hvis borgere medført af det europæiske fælleskabs regler eller ifølge traktat

har adgang til at erhverve landbrugsjord i Danmark, skal enten have gennemgået jordbrugsuddannelse der kan sidestilles med én af de i stykke ét nr. 1 til 3 nævnte uddannelser eller opfylde ét af de krav om jordbrugsuddannelse, som er anført i stykke ét nr. 4 og 5. De under stykke ét nr. 5 nævnte kurser kan erstattes af tilsvarende udenlandske kurser.`` --- ( GHelg: 5,4.) Nú, jæja. Ég skal játa að það fer betur á því að lesa ekki nema svona eina setningu í einu og ná svo andanum. Það er vont að lesa upp svona langan texta í einu á þessu fallega máli sem danskan er. En þetta má nú auðvitað þýða og væri ástæða til að gera en væntanlega skilja menn hvað hér er á ferðinni. Það er alveg ljóst að Danir sem hafa þessar reglur, þessar kröfur, urðu að sjálfsögðu að fallast á að allir með sambærilega menntun, sömu námskeið eða sambærileg, ,,sidestillede``, skyldu þá hafa sama rétt.
    Við getum að sjálfsögðu velt því fyrir okkur hversu mikil vörn yrði í þessu í sjálfu sér ef út í það væri farið. Við yrðum að horfast í augu við að það kæmi upp mikið misræmi milli ríkjandi ástands fyrir gildistíma breytinganna og aðstæðnanna eftir að þær gengju í garð. Og í þessu sambandi sem fleirum megum við ekki gleyma því að sá möguleiki er auðvitað fyrir hendi hér eins og annars staðar að erlent fjármagn gæti átt þá auðveldu leið í gegnum þessa síu eða þetta net eða hvað við köllum það að notast einfaldlega við lepp. Væntanlega yrði það ekki þannig að þýskir grósserar sem hefðu gaman af hestum og ættu kannski 1--2 stykki búgarða í Þýskalandi sér til yndisauka um helgar en væru að öðru leyti stórforstjórar í borgum kæmu hér upp á Ísland og settust að á þeim jörðum sem þeir hefðu áhuga á að kaupa. En þeir mundu kannski ráða sér ráðsmann, e.t.v. ungt þýskt par sem væri með bændaskólapróf, kæmi hérna einn góðan veðurdag, bankaði á dyrnar og segði: Hér erum við, guten Tag, og við ætlum að kaupa þessa jörð. Hér er seðlabúntið. Og það væru ómerktir seðlar og það gæti enginn maður sannað það að þetta unga par ætti þá ekki sjálft þó að það væri svo í einhverjum tengslum við einhvern þýskan auðmann sem ætti að vísu tvo hrossabúgarða í Þýskalandi og fyrir tilviljun keypti af þeim alla hestana eða tæki þá til sín, ja, þá yrði erfitt að sjá í gegnum það allt. Og auðvitað mundi þetta frekar gerast þannig hvort sem er, það vitum við. ( Gripið fram í: Það er hægt í dag.) Jú, jú. Það er alveg rétt. Ýmislegt af þessu er hægt í dag og getur gerst. En væntanlega vitið þið, hv. frammíkallendur, að sá er grundvallarmunurinn á því ástandi sem ríkir í dag og hinu að við getum hvenær sem er tekið í taumana ef við teljum ástæðu til að hafa af þessu áhyggjur. Við getum á hverju stigi stöðvað þetta af, jarðanefndir, sveitarfélög, ríki og fjölmargir aðrir aðilar og við hv. alþm. getum með einfaldri lagabreytingu ef okkur sýnist svo vegna þess að enn erum við fullvalda ríki, enn höfum við óskert lagasetningarvald hér á Alþingi, enn getum breytt þessu eins og okkur sýnist. En það er það sem stendur til að breyta. Þess vegna er ég þakklátur þessu frammíkalli því að það dregur út af fyrir sig athyglina að kjarna málsins sem er þessi: Við erum að taka þá örlagaríku ákvörðun: Ætlum við að selja okkkur undir þessi lög og afsala okkur þar með möguleikunum á því að breyta þeim nema þá að kasta bara öllu saman eða viljum við búa einhvern veginn öðruvísi um hnútana?
    Hæstv. forseti. Ég tel líka ástæðu til að nefna það í þessu sambandi, sem ætti þó að vera óþarfi vegna þess að um það hefur verið rækilega fjallað í þessu samhengi og fleirum, hvað það er sem ræður og hvað verður að víkja. Hér er það Evrópurétturinn sem ræður. Á samningssviðinu öllu ætlum við að undirgangast hann ef við gerum þennan samning og þá ræður hann einfaldlega. Þetta verða menn að hafa í huga við allan lestur málsins. Grundvallarreglur samningsins sem hér eiga við, þ.e. 1. gr., 3. gr., 4. gr., 31. gr. og 40. gr. hans, ganga í gegnum allt, þykkt og þunnt, og þær ráða og það er paragraf í þessum doðröntum sem segir að samningsaðilar skuldbindi sig til að breyta þannig lögum sínum að þau samræmist þessum gjörningi. Menn skyldu muna það. Þess vegna verðum við að spyrja okkur þeirrar spurningar þó að við í góðri trú og með miklum vilja séum að reyna að finna leið til þess að setja í okkar löggjöf ákvæði sem sé okkur einhver vernd í svona tilvikum: Standast þau? Ekki bara lagalega séð heldur líka í reynd, í framkvæmd, er þá hægt að framkvæma þau þannig að þau standist líka?
    Forkaupsrétturinn er ágætt dæmi um þetta. Það er augljóst mál að forkaupsréttur ríkisins stenst samninginn lagalega. En stenst þá framkvæmd hans sem ætti að vera okkur einhver vörn í þessum efni? Sú framkvæmd að ganga bara inn í kauptilboð útlendinga stenst ekki þó að forkaupsréttarákvæðið sjálft sem slíkt standist lagalega. Þar er dæmi um að við getum út af fyrir sig sett einhver paragröf inn í lög en það er ekki víst að í reynd, í framkvæmdinni yrðu þau okkur nokkur vörn. Og ef hingað kemur þýskt par með seðla og það ósköp einfaldlega segir hvað sem þeim lagabreytingum líður sem við kynnum að reyna að gera: Hér erum við mætt og samkvæmt þeim leikreglum sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði, 1. gr., 3. gr., 4. gr., 31. gr. og 40. gr., þá ætlum við að staðfestast hér. Ég uni því ekki, segir þessi þýski ráðsmaður, að hafa ekki rétt til þess að fjárfesta hér og hefja sjálfstæðan atvinnurekstur eins og ég á að hafa rétt til alls staðar á samningssvæðinu. Og ef hann rekst hér á einhverjar lagalegar hindranir sem hann telur augljóslega settar í þeim tilgangi að takmarka eða torvelda staðfesturétt hans, þá kærir hann, eða lögmaður fyrir hans hönd, og lætur reyna á það hvort þessi girðing standist samninginn. Og þar er ég, held ég, kominn að þeim kjarna málsins að það er ekki nóg að velta því fyrir sér hvort út af fyrir sig tæknilega standist það að setja einhver slík ákvæði. Við verðum líka að vera með það alveg á hreinu hvort við getum varið þau og það er það sem Írar fengu að reyna að þau ákvæði sem þeir höfðu haft í sínum lögum urðu undan að láta.
    Í fyrri ræðu minni um þetta mál nefndi ég þá þanka samninganefndarmanna eða höfunda með greinargerð frv. sem gefur að líta á bls. 96 að svo kunni að fara að á það fyrirkomulag á ríkiseinkasölu

með áfengi, sem hér og á hinum Norðurlöndunum er við lýði, kunni að verða látið reyna fyrir dómstólum. Það hefur greinilega verið í röðum samningsmanna ótti um að svo kynni að fara að reynt yrði að hnekkja þessu ákvæði því að á bls. 96 í greinargerðinni með EES-frv. segir að til þess að tryggja stöðu sína enn frekar ef til þess kæmi að þetta atriði kæmi fyrir dómstóla, hafi Norðurlöndin fjögur, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð gefið yfirlýsingu um samninginn þar sem áréttað er að áfengiseinkasala sé mikilvægur þáttur í stefnu þessara ríkja í heilbrigðis- og félagsmálum. Hvað voru menn þarna að gera? Þeir voru að reyna að undirbúa fyrir fram málflutningsaðstæður sínar ef málið kæmi til kasta dómstóla? Spurning mín um forganginn hér, hvað ræður, er auðvitað náskyld þessu.
    Ég óttast því mjög, hafandi farið yfir málið með þessum hætti, að í besta falli, í allra besta falli yrði mikil óvissa uppi varðandi hvers konar girðingar af þessu tagi eða þröskulda sem við kynnum að reyna að leiða í lög. Það yrði óvissa gagnvart því hvort þeir héldu, þegar menn á grundvelli staðfesturéttarins færu að láta á það reyna hvort þarna væri ekki um óeðlilegar takmarkanir að ræða. Ég hvet menn til þess að lesa tilskipanir Evrópubandalagsins um afnám hafta gagnvart staðfesturétti og fjármagnsflutningum í þessum efnum og auðvitað þurfa menn líka að kynna sér þá dóma sem fallið hafa af hálfu Evrópubandalagsins og þessu tengjast og gilda sem túlkanir á réttinum þegar svo ber undir eins og við vitum.
    Ég ætla að hlífa mönnum við því, hæstv. forseti, að draga þetta mál mitt eitthvað saman því að það tæki bara tíma. Ég vona að ég hafi talað það skýrt hér að þess þurfi ekki að heldur. Mín niðurstaða er sem sagt mjög einföld og hún er mjög skýr: Það er verið að afnema hvers kyns forgang, forréttindi eða sérstöðu Íslendinga á grundvelli þjóðernis þeirra í eigin landi hvað þetta snertir. Það er verið að afnema hann. Menn verða að átta sig á því. Það er verið að búa til eitt ríki með jöfnum rétti allra borgaranna, 360 milljóna eða hvað margir þeir verða. Það er svo óskaplega einfalt sem það er. Ég held að hvers kyns takmarkanir yrðu mjög erfiðar, bæði lagalega sem í reynd, hvað framkvæmdina snertir. Því miður. Eini trausti umbúnaðurinn í þessu efni hefði verið varanlegur fyrirvari, varanleg undanþága frá þessu ákvæði.
    Nú er það ljóst að ég hef hér fyrst og fremst gert að umtalsefni þann þátt málsins sem snýr að staðfesturétti manna, þ.e. rétti þeirra til að koma hingað og hefja sjálfstæðan atvinnurekstur og fjárfesta í landinu. Til þess að forðast allan misskilning vil ég taka fram að ég er þeirrar skoðunar að öðru máli gegni um tvennt í þessu sambandi, þ.e. annars vegar um kaup á landi til einkanota sem ekki er í atvinnuskyni, t.d. land undir sumarhús. Möguleikar okkar til að takmarka það eru allt aðrir og miklu meiri vegna þess að þá er það eingöngu spurningin um fjárfestingarfrelsið sem við erum að glíma við en ekki staðfesturétturinn. Nokkuð öðru máli kann að gegna um kaup manna á landi í hreinu fjárfestingarskyni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé líklegt að við gætum hindrað, án þess að lenda í þessum vandræðum sem ég hef hér rakið, kaup erlendra verðbréfasjóða á landi á Íslandi í fjárfestingarskyni. Við skulum segja að þýskir lífeyrissjóðir reiknuðu með því að land á Íslandi mundi verða svo verðmætt á næstu öld vegna þess að það er ómengað eða hér væri hreint og tært loft og fögur fjallasýn og allt það. Þess vegna mundu þeir einfaldlega taka þá fjárfestingarákvörðun, veðja á það, eins og sagt er, að kaupa hér land núna og það yrði orðið fljúgandi verðmætt um miðja næstu öld. Þetta eru gaurar með mikla peninga og langtímafjárfestingarmarkmið í huga og þeir ákveða að skella sér inn og kaupa mikið land á Íslandi og um miðja næstu öld verður það orðinn geysilegur fjársjóður þegar Evrópa verður um það bil að drukkna í eigin skít. ( Gripið fram í: Þú hefur oftrú á framsýni kapítalismans.) Þetta held ég að við gætum stöðvað vegna þess að við mundum segja: Þetta eru kaup í hreinu fjárfestingarskyni, þau eiga ekkert skylt við atvinnustarfsemi og við viljum ekki hafa þetta. Ég held það væri a.m.k. miklu meiri líkur á því að við gætum varið okkur fyrir slíku. Hvað sumarbústaðaákvæðin snertir höfum við auðvitað líka þá staðreynd að Danir hafa þrátt fyrir allt getað varið sín undanþáguákvæði hvað snertir rétt útlendinga til að kaupa þar sumarbústaðalönd. En vel að merkja, þeir sömdu um það þegar þeir gengu í Evrópubandalagið og þeir hafa haldið því til haga síðan. Líka í gegnum Maastricht sem þeir svo að vísu felldu og er önnur saga. Þeir pössuðu því upp á hlutina. En það má finna ýmis fleiri dæmi. Það er vitnað til Grikklands þar sem menn hafa haft inni ákvæði sem snerta ákveðin svæði í Grikklandi, reyndar verulegan hluta landsins og líka eyjarnar. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að hvað möguleika okkar í þessum greinum varðar séu þeir miklu meiri. Ég hef ekki lagt í það vinnu að fara ofan í það hvernig það gæti orðið en ég vil að þessi skoðun mín komi hér fram til þess að menn, í öllum bænum, taki það ekki svo að ég sé að mála skrattann á vegginn. Þarna hef ég í sjálfu sér ekki stórfelldar áhyggjur. Ég er bjartsýnn á að við getum varið okkur hvað þetta snertir.
    Hitt er svo augljóst mál að það er svo auðvelt fyrir þá sem vilja ná hér í land að skrá tilgang sem tryggir þeim réttinn á grundvelli staðfesturéttarákvæðanna. Þeir þurfa í raun og veru ekki annað en að segja: Hér er ég mættur og ég ætla að kaupa þessa jörð, eða þennan dal, þennan árbakka eða þetta skógarkjarr af því að ég ætla að rækta fisk í þessum tjörnum --- mér dettur það í hug hér þegar ég horfi framan í ónefndan mann --- eða þá að ég ætla að rækta hross, stunda ferðaþjónustu, rækta lífrænt grænmeti eða guð má vita hvað. (Gripið fram í.) Við yrðum auðvitað að fallast á það að hver sá tilgangur, sem skráður væri sem slíkur og flokkaðist undir einhver afnot af landinu, gildir. Það væri ekki hægt og ekki heimilt að meina mönnum kaupin vegna þess réttar sem þeir hafa til að flytjast hingað búferlum, kaupa sér tilskilda aðstöðu og hefja starfsemi.
    Við getum svo að allra síðustu velt því fyrir okkur --- ég skal nú fara senn að ljúka þessari messu, hæstv. forseti, ég veit að það gleður ýmsa --- hvort það er líklegt að umtalsverð ásókn útlendinga verði hér

í land. Sumir ganga jafnvel lengra og spyrja: Er það ekki allt í lagi, gerir það bara nokkuð til þó útlendingar eignist hér einn og einn dal?
    Út af fyrir sig skiptir það engu máli þegar við ræðum grundvallaratriði hvort líkurnar eru meiri eða minni. Ef við erum að kryfja stöðu okkar lagalega og tæknilega séð í þessu sambandi, þá varðar okkur út af fyrir sig ekki um það hvort líkurnar eru meiri eða minni. Þegar menn hins vegar gera það upp við sig og sína samvisku og spyrja: Vil ég taka þessa áhættu? er eðlilegt að menn spyrji þessarar spurningar. Hér kunna að vera margir sem segja: Ég er sannfærður um það að menn hafa engan áhuga á þessum útnára sem Ísland heitir, langt norður í höfum. Það er engin áhætta tekin með því að afgreiða allt sullið, staðfesturéttinn og allt saman. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel umtalsverðar líkur á því að í vissum afmörkuðum tilvikum geti reynst verulegur áhugi á að ná hér í land, jarðnæði eða aðstöðu. Þar má nefna ýmislegt. t.d. veiði og veiðiréttindi af ýmsum toga. Það er ekki svo víða á byggðu bóli sem slík gæði ganga kaupum og sölum. Það má nefna hér þá miklu möguleika sem liggja í ferðaþjónustu á Íslandi og erlendum mönnum er vel kunnugt um. Þýskir og svissneskir ferðaþjónustuaðilar vita vel um þá peninga sem hægt er að hafa upp úr Íslandi yfir sumartímann meðan nóttin er björt. Það þekkjum við.
    Það má nefna hér auðvitað ýmsa aðra aðstöðu sem gæti reynst verðmæt, vatnstökuréttindin, námaréttindi, vikur eða hvað það nú er. Síðast en ekki síst má nefna það að stórar spildur af óbrotnu landi, ósnortnu landi og sæmilega hreinu og ómenguðu lofti og vatni, eru gæði sem eru ekki föl hvar sem er og allra síst í hinni sótugu Evrópu. Fyrir þá sem þar búa kunna það að vera heilmikil verðmæti ein og sér. Svissneskur auðkýfingur hefur á leigu laxveiðiá þá sem ég ólst upp við og hefur líklega um tíu ára skeið borgað fyrir það nokkrar milljónir að hafa hana fyrir sig og sína fjölskyldu og renna í hana einu sinni til tvisvar á ári viku í senn. Sjö stanga laxveiðiá er frátekin fyrir margar milljónir á ári fyrir eina svissneska fjölskyldu til að veiða í henni sjö til tíu daga á ári.
    Halda menn að þeir sem geta leyft sér svona munað geti ekki líka keypt sér jarðir og laxveiðiár? Jú, auðvitað. ( ÖS: Við komumst hvort eð er ekki í þær.) Það er nóg fyrir ýmsa að bleyta í sprænu við Hrútafjörð.
    Hæstv. forseti. Ég held að menn verði að horfast í augu við það í fúlustu alvöru að þessir möguleikar eru fyrir hendi. Menn geta haft ótal sjónarmið varðandi það hvort þeir séu meiri eða minni, líklegri eða ekki líklegri, hvernig þeir þróast á komandi árum, hvort það sé líklegt að ásóknin vaxi eða jafnvel að við gleymumst og einangrumst norður í höfum. Manni finnst stundum þegar verið er að fjalla um þetta að það sé þanning að allir þeir sem ekki ganga í Evrópubandalagið verði bara orðnir að einhverri Albaníu og nánast hverfi út af landakortinu á næstu árum, það verði væntanlega hætt að fljúga hingað eða halda uppi samgöngum hingað. Svo er nú auðvitað ekki. Ef við lítum raunsætt á málin í heimi vaxandi fólksfjölgunar, mengunar og umhverfisspjalla er það því miður þannig, eða sem betur fer fyrir okkar hönd skulum við vona, að það er margt sem bendir til þess að ásóknin muni fremur aukast en minnka í aðstæður eins og þær sem við höfum upp á að bjóða.
    Ég hvet þess vegna alla þá sem vilja hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum og vilja ekki taka áhættu, til þess að kynna sér vel þessi ákvæði EES-samningsins áður en þeir greiða honum atkvæði sitt. Ég vil leggja mitt af mörkum, hæstv. forseti, með því að fjalla um þessi mál og reyna að kynna mér þau og veita jafnvel öðrum aðgang að því sem ég hef verið að skoða í þeim efnum á undanförnum dögum. Það ætla ég mér að gera, eins og ég sagði í upphafi, því ég hef tekið þessar hugleiðingar mínar saman og ætla að dreifa þeim til hv. alþm. á morgun ef guð lofar.
    Ég ætla þá ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég sakna þess því miður að hæstv. landbrh. skuli ekki vera hér en forsrh. er hér. Ég hlýt í ljósi alls þess sem ég hef sagt að spyrja: Hvað líður þeirri vinnu á vegum ríkisstjórnarinnar eða landbrn. sem oftlega hefur verið vitnað til að standi yfir í þessu sambandi? Það er að mínu mati bagalegt að 1. umr. um þetta örlagaríka mál ljúki án þess að sjái haus né sporð á því og leyfi ég mér að minna á að hæstv. núv. ríkisstjórn er að verða búin að sitja í eitt og hálft ár. Hvað sem segja má um mína frammistöðu á þeirri sælutíð, þá hefur þó a.m.k. núv. hæstv. landbrh. haft allnokkurn tíma til þess að láta vinna þessi verk ef þau eru jafneinföld og menn láta stundum í veðri vaka. Ef þau eru jafnsáranauðaeinföld og hæstv. utanrrh. leyfir sér stundum að segja, að það sé ekki nema nokkurra klukkutíma vinna að ganga frá þessu og binda þannig um þessa hnúta að þeir rakni aldrei framar.
    Að lokum, hæstv. forseti, ítreka ég óskir mínar um það að hæstv. sjútvrh. komi hér til umræðunnar áður en henni lýkur og svari þeim spurningum sem til hans hefur verið beint um hans málaflokk. ( Forseti: Hæstv. sjútvrh. er í húsinu og fylgist með umræðunni en hæstv. landbrh. hefur fjarvistarleyfi í dag svo forseti upplýsi það sem hér hefur verið spurt um.)