Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 00:01:00 (456)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Mig langar fyrst að gera að umtalsefni það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni. Í fyrsta lagi talaði hann um það sem mikið lán fyrir íslenska atvinnuvegi að fá jöfn samkeppnisskilyrði. Út af fyrir sig geta menn samkvæmt orðanna hljóðan talið að það sé góður hlutur. Hins vegar held ég að menn megi ekki ofmeta þá hluti. Við höfum reynsluna af EFTA-svæðinu sem við höfum nú tekið þátt í í 20 ár. Íslenskur iðnaður hefur ekki sótt gull í greipar þess samkomulags. Hann hefur þó haft þar jöfn samkeppnisskilyrði. Það hefur ekki dugað til. Ég veit ekki hvort það breytir mjög miklu hvort við höfum aðgang að 80 milljóna markaði eða 380 milljón manna markaði. Ég veit ekki hvort íslenskur iðnaður verður sterkari fyrir bragðið.
    Sannleikurinn er sá að þessi markaður er markaður risanna, hann er leikvangur risafyrirtækjanna og ég hefði gjarnan viljað fá að heyra það hjá þeim sem horfa svona mikið á þessa framtíð hvað það er í raun og veru sem þeir trúa á. Hvaða fyrirtæki eru það, hvaða iðnaður er það, hvaða atvinnutækifæri eru það sem við eigum að fá í okkar hlut á næstunni á þessum stóra og mikla markaði fyrir iðnaðinn okkar? Ég sé miklu frekar hætturnar. Þær eru a.m.k. nær okkur. Það er alla vega víst að sumt af því sem við höfum haft hér í þjónustu innan lands og iðnaður sem hefur verið á innanlandsmarkaði er í verulegri hættu vegna samningsins. Ég sé ekki fyrir mér þessa stórkostlegu aukningu á iðnaðarframleiðslu í landinu inn á þennan markað. Menn hafa ekki komið upp í ræðustólinn til þess að segja okkur hvaða tækifæri þetta eru, því miður. Það vantar ekki sannfæringarkraftinn í ræðurnar, að þetta muni verða okkur til góðs. En dæmin fyrirfinnast ekki.
    Langmest hefur þó verið talað um sóknarfæri sjávarútvegsins og það er eitthvað áþreifanlegt. Við höfum fjallað um það fyrr og ég ætla ekki að fara nákvæmlega ofan í þá hluti aftur en ég ætla bara að segja að mér finnst menn gera of mikið úr þeim hlutum. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvað það verður sem við fáum í okkar hlut þegar upp verður staðið því að á móti töpum við ákveðnum hlutum. Við töpum þeim möguleika að stjórna útflutningnum. Hvernig ætla menn að meta það? Eini aðilinn sem hefur reynt að meta það og færa fram tölur er Þjóðhagsstofnun og samkvæmt þeirri skýrslu sem hún gaf út í fyrra mat hún það þannig að með hámarksstjórnun á útflutningi á okkar sjávarafurðum gætum við haft 1.400 millj. á ári í hærra verði en ef við stjórnuðum því ekki. Hún mat það þannig að ferskfiskútflutningurinn, þ.e. fersku flökin og tollaverndin á þeim, þýddi yfirverð á ísuðum fiski upp á 650 millj. Þetta var niðurstaða Þjóðhagsstofnunar. Þetta er það eina sem við höfum í höndunum þar sem menn hafa reynt að meta hver áhrifin gætu orðið af því að hætta að stjórna útflutningi á fiski. Ég er alveg sannfærður um að eftir að við erum komnir í samfélag þjóðanna sem við erum að tala hér um verðum við að láta af því að stjórna útflutningi á fiski frá landinu.
    Svo er það saltfiskurinn. Það er alveg rétt að á honum eru mjög háir tollar og það hefði þurft að fá breytingar fram á þeim. Mér finnst nú samt eins og menn geri of mikið úr hlutunum. Það liggur við að maður gæti haldið að ýmsir hv. þm. viti ekki hver raunverulegur tollur á saltfiski er. Hann er 13% af flöttum fiski. En hver er hinn raunverulegi tollur sem menn borga? Hvað er t.d. að gerast á þessu ári? Það er kannski rétt að fara yfir það til þess að rifja það upp fyrir mönnum. Árið byrjaði með 25 þús. tonna tollfrjálsum kvóta inn á þennan markað. Inn á þann markað fluttum við sem sagt tollfrjálsan fisk í janúar og fram í febrúar. Líklega hefur það verið í apríl að kvóti upp á 60 þús. tonn sem borgaður er af 6% tollur tók svo við og við erum enn þá að flytja saltfisk á þeim tolli til þessara landa. Síðast fyrir líklega viku síðan voru eftir 25 þús. tonn af þeim tolli og við erum enn að flytja á þessum 6% inn á þennan markað. Þannig er nú þetta. Þegar því er lokið lendum við í 13% tollinum aftur.
    Ég held að menn verði að hafa það sem satt er í þessum hlutum til að átta sig á þeim vegna þess að ég hef tekið eftir því að menn hampa mikið tölum um það hvað okkur hafi tekist að lækka þessa tolla mikið og tala um það í stórum prósentum en láta það jafnan gleymast hvernig þessum tolli hefur verið beitt af þessum þjóðum. Svo er kannski líka spurningin: Hvað gerist þegar samningurinn tekur gildi? Þá breytast allir tollar. Hvernig verður það næstu árin? Ef farið verður eftir samningnum, eins og hann liggur fyrir, gætum við látið okkur detta í hug að það yrði enginn tollfrjáls kvóti á saltfiski. Mig langar til að heyra hvað hæstv. utanrrh. segir um það. Verður einhver tollfrjáls kvóti? Ef það verður ekki komum við til með að borga a.m.k. eins mikið, jafnvel meira en við höfum verið að borga þetta árið fyrir innflutningstolla á ýmsum vörum. Það er nefnilega gert ráð fyrir því að tollarnir lækki í áföngum og að við fáum þetta ekki allt í hendi strax. Það er gert ráð fyrir því í samningnum.

    Hv. síðasti ræðumaður spurði hvaða lífskjör alþýðubandalagsmenn ætla að bjóða þjóðinni upp á í framtíðinni. Við höfum lýst hvaða kostum við höfum mælt með í sambandi við þetta mál, að það yrði stefnt að því að ná samningum við Evrópubandalagið, þ.e. tvíhliða samningum til þess að lagfæra þessa hluti. Ég trúi því að það sé hægt og tel að það eigi að láta reyna á það. Við erum ekki á neinu flæðiskeri. Við höfum lifað bærilegu lífi fram að þessu og ég sé ekki að við þurfum að kvarta neitt. Ég held að það hljóti að vera möguleiki á því að semja um hluti í sambandi við okkar framtíð þó svo við skrifum ekki upp á þennan samning.
    Ástæðan fyrir því að ég bað um orðið var ekki sú að ég ætlaði að lengja hér umræður verulega. Ég kom upp vegna þess að mér finnst að það hafi ekki verið rætt um grundvallarspurningu sem ég gerði að umtalsefni í minni fyrri ræðu. Það er hvort menn séu að stefna með þessum samningum og fylgifrumvörpum, sem liggja hér frammi, að aðild að Evrópubandalaginu og aðlögun að ytri tollum Evrópubandalagsins. Mér finnst að frv. sem liggur hér og ég gerði að umtalsefni í fyrri ræðu minni, um breytingu á tollalögum og lögum um vörugjald á þskj. 27 segi söguna alveg nákvæmlega. Það er verið að aðlaga okkur að ytri tollum Efnahagsbandalagsins. Ég óska eindregið eftir því að fá umfjöllun um það hér hver meiningin er með þessu ef hún er ekki sú að aðlaga okkur að Evrópubandalagstollunum eða ytri tollum Evrópubandalagsins. Hvers vegna í ósköpunum kemur fram frv. sem gerir verulegan mun á vöruinnflutningi frá EES-löndunum og öðrum löndum? Það eru ekki á ferðinni neinir smávægilegir hlutir. Það hlýtur að vera á ferðinni stefnumarkandi ákvörðun stjórnvalda um að við ætlum að beina okkar viðskiptum inn á þetta svæði. Við erum að segja við þá sem eru að flytja inn vörur að við séum tilbúnir til þess að girða okkur af ásamt Efnahagsbandalaginu. Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir því að iðnvarningur, sem fluttur er inn frá löndum utan EES-svæðisins, sé með tollum eða gjöldum upp á 32,6% en að varningur sem kemur frá EES-svæðinu sé með gjöldum upp á 22,8%. Mér finnst varla hægt að bjóða upp á það að ljúka þessari umræðu öðruvísi en það verði útskýrt af þeim sem bera ábyrgð á því, sem hér á að fara í gegnum þingið, að þetta sé ekki stefnumörkun í þessu efni. Það vil ég fá að heyra. Ég óska eindregið eftir því að hæstv. utanrrh. segi okkur það hér hvers vegna ekki er gert ráð fyrir jöfnum aðgangi af vörum frá öðrum löndum sem eru utan þessa svæðis. Ef skýringin er einhver önnur en mér finnst liggja beint við, þ.e. aðlögun að ytri tollum EB, vil ég gjarnan fá að heyra hana.
    Ég ætla svo ekki að hafa þetta lengra en ég trúi því ekki að við fáum ekki að heyra hvað það er sem fær stjórnarflokkana til að leggja þetta mál fyrir eins og það liggur fyrir núna.