Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 01:52:08 (480)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér hafa gerst fáheyrðir hlutir. Þetta minnir mest á það þegar kennari tekur sig til og hefur reiðilestur yfir öllum bekknum sem óhæfum til allra hluta. Hæstv. utanrrh. flytur hér ræðu þar sem hann kvartar yfir því að þingmenn efist um það hvort þessi samningur standist stjórnarskrána. Hæstv. utanrrh. skipaði nefnd til að rannsaka þetta mál. Hvers vegna skipaði hann nefndina ef hann efaðist ekki sjálfur? Hvers vegna var hann að eyða ríkisins fé til að borga mönnum laun ef enginn efi var í hans huga? Hvers lags sóun var þetta á peningum ríkisins?
    Hæstv. ráðherra kvartar yfir því þekkingarleysi að það þurfi að svara spurningum kl. 2 að nóttu sem hafi verið upplýstar í síldarútvegsnefnd um miðjan dag og utanríkismálanefnd þar sem allt er leyndarmál sem þar er skrifað, menn búnir að vinna eið að því að þegja yfir því sem er sagt þar, og hann þarf að svara þessu hér kl. 2 að nóttu. Og hvernig standa svo málin? Jú, Alþingi Íslendinga hefur lagt fram fé til að fræða þingmenn og þjóðina um þetta mál og hver fékk peningana til ráðstöfunar? Hæstv. utanrrh. fékk peningana til ráðstöfunar. ( Gripið fram í: Hver vann fyrir þeim?) Hann tók að sér í ákvæðisvinnu fyrir ákveðna upphæð að fræða þjóðina um þessi mál. Hann hefur sjálfur gert úttekt á því hvernig kennslan tókst. Niðurstaðan er hreinasta hörmung, fall hjá kennaranum í stöðunni. ( Gripið fram í: 1,3.) 1,3. --- ( Forseti: Forseti er að reyna að hafa skikk á frammíköllum og hringdi þess vegna bjöllu. Þessar hringingar áttu ekki við hv. ræðumann.). Þetta minnti orðið á sleðaferð við bjölluhljóm og satt best að segja var þetta farið að fipa ræðumann en ég þakka að hæstv. forseti hefur upplýst ástæðuna.
    En ofan á allt þetta þegar búið er að taka þingheim svona á beinið og hella sér yfir hann fyrir þessa hluti, þá kemur það alsérstæðasta af öllu. Hæstv. utanrrh. veifar blaði með öllum sannleikanum í, það eru 3 eða 4 blöð eða kannski 10. Hann var með þau hérna í hendinni. Hann sagði: Þetta verður birt seinna. Hann var með sannleikann um allt málið í hendinni og kvartar yfir því að við vissum hann ekki. Hann var eini maðurinn sem átti þessar upplýsingar, eini maðurinn. Hann hafði ekki sýnt fréttamönnum þetta einu sinni. Samt átti maður að vita hvað hann var með í hendinni og hafa vitað það allan tímann. ( Gripið fram í: Af því að klukkan var orðin svo margt.) M.a. vegna þess. Þetta er alveg forkastanlegur vopnaburður. Ég verð nú að segja eins og er, af hverju afhenti utanrrh. ekki þetta merka plagg fyrir löngu til að draga hér úr umræðu? ( Utanrrh.: Það barst . . .   ( Gripið fram í: Hann fór með það til síldarútvegsnefndar.) Það er náttúrlega hámark ósvífninnar að kvarta yfir því að við skyldum ekki vita þetta þegar það kemur í ljós, að það er loksins fyrir örfáum mínútum, sem hæstv. utanrrh. vissi að þetta var ekkert vafaatriði lengur. Ja, mér finnst nú vopnaburðurinn vera orðinn ansi harður, ég segi það alveg eins og það er.
    Allt um það. Hér höfum við stuðst við það plagg alllengi að fjórmenningar lýstu því yfir að þrátt fyrir að um valdaafsal væri að ræða þá væri það svo óverulegt að ekki þyrfti að breyta stjórnarskránni. Nú er það aftur á móti upplýst af hæstv. utanrrh. milli kl. 1 og 2 að nóttu, að þetta sé á misskilningi byggt hjá þessum fjórum, að það sé ekkert valdaafsal á ferðinni. Það kemur fram í greinargerð lögfræðingsins, sem hann var að sjá fyrir örstuttu síðan. Leiðréttingin kemur þess vegna ekki fyrr fram. Þetta bendir til þess

að ef niðurstaðan er nú misskilningur hjá þessum fjórum, þeir hafa ekki kynnt sér málin nógu vel frekar en við hin, er þá öruggt að fyrri hluti greinargerðarinnar sé byggður á meiri þekkingu?
    Hæstv. utanrrh. er búinn að setja þetta mál í stórkostlegan vanda með nýjustu upplýsingum og ég verð að segja eins og er með fullri virðingu fyrir norska þinginu að ég held að það mundi ekki þola svona reykbombur. Ég held bara að þeir mundu ekki þola það miðað við að þeir mega ekki ræða málin nema í tíu tíma. En Norðmenn hafa nú aldrei verið neinir sérstakir bókmenntamenn. Það verður líka að segjast eins og er. Við skráðum nú þeirra sögu og fleira og höfum löngum verið betri í því að halda staðreyndum til haga. ( Gripið fram í: Það var nú skárra í Reykholti.
    En að lokum þetta, herra forseti. Ég ætla ekki að fara að rjúfa þann frið sem hefur orðið um að ljúka þessari umræðu, en ég vona að utanrrh. láti það ekki dragast úr því sem komið er að allar staðreyndir um þetta mál eru á um tíu örkum að þær verði sem allra fyrst færðar á borð þingmanna því við höfum ekki átt aðgang í svo stuttu máli að svo mikilsverðum upplýsingum um þetta efni.