Stjórnarskipunarlög

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 03:01:54 (497)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég skal leitast við að lengja ekki umræðuna og koma með eins stuttar athugasemdir og ég get. Þó held ég að nauðsynlegt sé að koma fram með þessar athugasemdir nú við 1. umr. vegna þess að þær snerta undirstöðuatriði málsins að mínu mati.
    Í því frv. til breytinga á stjórnskipunarlögum sem hér er til umræðu er gengið út frá því að í stjórnarskrá lýðveldisins sé nú ekki heimild til að framselja vald til erlendra stofnana. Þessari skoðun er ég sammála. Í frv. er einnig gengið út frá því að í EES-samningnum felist framsal á valdi og er það meinta framsal ásamt ýmsum alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga talin vera næg ástæða til þess að gera breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins. Sú breyting er til þess ætluð að búa til leið að því er virðist sem er auðveldari eða fyrirhafnarminni en ákvæði 79. gr. stjórnarskrárinnar gerir ráð fyrir til að framselja einhvern hluta ríkisvaldsins til fjölþjóðlegra samtaka ellegar afsala hvers konar fullveldisrétti í íslenskri lögsögu. Ég tek strax skýrt fram að ég tel ekki að EES-samningurinn gefi tilefni til þeirra breytinga sem hér er verið að gera tillögu um, en að því mun ég víkja síðar í umræðunni um samninginn sjálfan.
    Breyting sú sem gerð er tillaga um á þskj. 30 er gerð á 21. gr. stjórnarskrárinnar þannig eins og segir orðrétt í grg. með frv., með leyfi forseta:

    ,,Að heimilt verði að lögfesta alþjóðlega samninga þótt þeir feli í sér framsal einhvers hluta ríkisvalds til fjölþjóðlegrar stofnunar eða samtaka.``
    Ekki verður frv. skilið á annan hátt en einnig sé heimilað að lögfesta alþjóðlega samninga þótt þeir hafi í för með sér afsal á fullveldisrétti í íslenskri lögsögu svo fremi sem það sé gert með auknum meiri hluta. Heimild af þessu tagi er eftir orðanna hljóðan mjög víðtæk. Afar erfitt er að átta sig á því að hve miklu leyti þessi heimild gæti verið notuð til að takmarka merkingu 2. gr. stjórnarskrárinnar og jafnvel einnig þeirrar fyrstu þar sem stjórnarfar er skilgreint annars vegar en á hinn bóginn skilgreint hverjir fari með löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Með þeirri breytingu sem hér er gerð tillaga um er verið að koma inn í stjórnarskrána opinni heimild svo ekki sé fastar að orði kveðið sem gæti hugsanlega rýrt svo mjög gildi 1. og 2. gr. stjórnarskrárinnar að raska mætti verulega þeirri stjórnskipan sem þar er gert ráð fyrir án þess að beitt yrði ákvæði 79. gr. stjórnarskrárinnar.
    Með öðrum orðum, sú spurning vaknar, og það er kannski það sem er erindi mitt hingað að varpa henni fram, hvort það vaki fyrir flm. að búa til sjálfstæða heimild í 21. gr. stjórnarskrárinnar til að breyta stjórnskipan lýðveldisins án þess að til komi stjórnlagabreyting samkvæmt ákvæðum 79. gr. stjórnarskrárinnar. Ég geri að sjálfsögðu enga kröfu til að þessu verði svarað hér, heldur ætlast ég til þess að þetta verði skoðað þegar þetta mál verður athugað í nefnd.
    Ég ætla að bæta annarri spurningu við þetta. Þessi fyrsta spurning mín lýtur að því hve hættulega opin slík heimild sem í frv. er fólgin er að því er varðar hin meiri mál þjóðarinnar. En einnig má fullyrða að frv. veki upp spurningar um það hvort það sé ætlunin að stefna í afgreiðslu með auknum meiri hluta Alþingis ýmsum minni háttar alþjóðlegum samningum sem hugsanlega krefjast lagabreytingar. Það hefur verið skilningur fræðimanna að hugtakið breytingar á stjórnarhögum, sem er að finna í 21. gr., merki í raun lagabreytingar, þó ekki breytingar á stjórnskipunarlögum. Á þessu stigi málsins er rétt að spyrja hvort það sé ætlun flm. að um hinar minni háttar skuldbindingar, sem felast í milliríkjasamningum, verði farið eftir 21. gr. ef frv. fæst samþykkt á Alþingi.
    Þetta eru tvær tiltölulega einfaldar spurningar og ég tel að ég lengi umræðuna ekki mikið með þeim. Ég er ekki að fara fram á að þeim verði svarað nú, en ég held að það sé rétt að taka þær til athugunar því að þær snerta grundvallaratriði.