Áhrif EES-samnings á sveitarfélögin

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:17:22 (545)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Engin formleg úttekt hefur farið fram á vegum félmrn. varðandi áhrif EES-samningsins á málefni sveitarfélaga í landinu eins og um er spurt. Hins vegar fer slík athugun nú fram á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga eins og reyndar kom fram í máli hæstv. utanrrh. hér áðan. Félmrn. hefur þó leitast við að kynna áhrif EES-samningsins fyrir hinum ýmsu hagsmunasamtökum og jafnan reynt að verða við beiðnum þar að lútandi. M.a. hefur ráðuneytið einnig látið gera ítarlega athugun á áhrifum samningsins á vinnumarkaðinn sem snertir einnig sveitarfélögin. Ráðuneytið hefur víða kynnt samninginn meðal félagasamtaka og stéttarfélaga en lítið hefur verið óskað eftir því af sveitarfélagsins hálfu eða að þau hafi haft frumkvæði að því að óska eftir því að ráðuneytið kynnti samninginn á þeirra vettvangi. Ráðuneytið gerði þó grein fyrir áhrifum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði á fjármálaráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga haustið 1991 sem síðan birtist í heild í Sveitarstjórnarmálum.
    Þau svið sem EES-samningurinn nær til varða sveitarfélögin meira óbeint en að þau setji þeim einhverjar nýjar reglur. Aðeins hefur tekist að finna eina tilskipun þar sem vikið er að sveitarfélögunum sérstaklega. Sú fjallar um skýrar og greinargóðar upplýsingar um fjármálatengsl milli aðildarríkja og opinberra fyrirtækja. Samkvæmt tilskipuninni skulu aðildarríki tryggja að fjármálaleg tengsl milli stjórnvalda, hvort heldur ríkis eða sveitarfélaga, og opinberra fyrirtækja séu greinileg þannig að skýrt komi fram framlög sem stjórnvöld veita hlutaðeigandi opinberum fyrirtækjum beint til ráðstöfunar, framlög sem stjórnvöld veita fyrir milligöngu opinberra fyrirtækja eða fjármálastofnana, hvernig þessi opinberu framlög eru raunverulega nýtt. Markmið tilskipunarinnar er að unnt sé að sjá opinberan stuðning við fyrirtæki þar sem það getur haft áhrif á samkeppnisstöðu þeirra. Líklega mun lítið reyna á þetta hérlendis að því er sveitarfélögin varðar þar sem ársvelta fyrir skattlagningu þarf að nema 40 milljónum evrópsku gjaldmiðilseiningarinnar ECU, eða um 3 milljarða ísl. króna hjá viðkomandi fyrirtæki ef það á að falla undir tilskipunina.
    Samkvæmt samningsdrögunum er aðstoð í hvaða formi sem er, sem aðildarríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum, ósamrýmanleg framkvæmd samnings nema annað sé tekið fram í samningnum. Undantekningar eru reyndar býsna viðamiklar. Þannig er það talið samrýmast samningnum að veita aðstoð af félagslegum toga til einstakra neytenda og aðstoð sem veitt er til þess að bæta tjón af náttúruhamförum. Þá er einnig talið geta samrýmst samningnum aðstoð sem veitt er til þess að efla atvinnuþróun á svæðum þar sem ástandið er bágborið, aðstoð sem veitt er til þess að bæta alvarlega röskun í efnahagslífi, aðstoð til þess að þróa ákveðnar greinar efnahagslífsins og önnur aðstoð sem EES-nefndin kann að ákveða. Því er ljóst að bannið við ríkisstyrkjum hefur mjög víðtækar undanþágur. Enda þótt Evrópskt efnahagssvæði hefði ekki í för með sér nema sáralitlar breytingar á lögum og reglum er varða sveitarfélögin ber að hafa í huga að koma skal á sambærilegum ytri
skilyrðum atvinnufyrirtækja.
    Reglur EB um opinber útboð kunna að hafa áhrif á sveitarfélögin. Samkomulag um opinber útboð innan Evrópubandalagsins miðar að því að tryggja aukna alþjóðlega samkeppni á opinberum innkaupamarkaði. Samkomulagið felur í sér ítarlegar reglur um það hvernig þeir aðilar sem tilgreindir eru í einum af viðaukum samningsins eiga að haga útboðum vegna opinberra innkaupa og samþykkja tilboð. Honum er ætlað að gera lög, reglugerðir, framkvæmdareglur og venjur varðandi opinber innkaup skýrari og tryggja að þær verndi ekki innlenda framleiðslu eða seljendur né geri upp á milli erlendrar framleiðslu eða seljenda. Þetta eru þær reglur sem mundu gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Hér á landi gilda lög um opinberar framkvæmdir og lög um opinber innkaup. Hvorug þessara laga ná sérstaklega til sveitarfélaga. Lögin um opinberar framkvæmdir ná þó til sameiginlegra framkvæmda ríkis og sveitarfélaga. Í meginatriðum eru útboðsaðferðir, meðferð tilboða og val tilboða hér í landi svipað og í GATT-reglunum sem gilda hjá Evrópubandalaginu. Innkaupastofnun ríkisins er falið að annast útboð, vörukaup og verksamninga við ríkisstofnanir nema ráðherra feli eða heimili öðrum ríkisstofnunum að annast sín eigin viðskipti. Reykjavíkurborg rekur eigin innkaupastofnun sem annast innkaup og verkútboð fyrir borgina og er eina sveitarfélagið sem rekur sérstaka innkaupastofnun. Önnur sveitarfélög hafa í mörgum tilfellum falið Innkaupastofnun ríkisins að annast meiri háttar innkaup fyrir sig.
    Evrópubandalagið skiptir opinberum innkaupum í fyrsta lagi í opinber vörukaup. Þar verður að bjóða út vörukaup fyrir ríkisstofnanir og sveitarfélög sem nema 130 þúsund ECU eða um 10 milljónum eða meira í íslenskum krónum (Forseti hringir.) Ég er alveg að ljúka máli mínu, virðulegi forseti.
    Í öðru lagi opinbera verksamninga. Í meginatriðum er gert ráð fyrir sams konar útboðsaðferðum og við opinber vörukaup en þar eru lágmarksútboðsverðmæti 5 millj. ECU eða 370 millj. ísl. kr. Ísland þarf að aðlaga sig að þessum reglum, m.a. með eftirfarandi hætti: Skylda þarf sveitarfélögin til að efna til opinberra útboða samkvæmt reglum EB og fela þarf einni opinberri stofnun að annast öll opinber samskipti hvað varðar upplýsingar og framkvæmd opinberra útboða á Evrópumarkaði.
    Atriði eins og frjáls fjármagnsflutningur og frjáls för einstaklinga í atvinnuskyni hafa líka eðlilega áhrif út í sveitarfélögin og ég nefndi hér áðan að félmrn. hefur beitt sér fyrir ítarlegri könnun á áhrifum EES-samningsins á vinnumarkaðinn. Þá munu þau áhrif sem EES hefur á atvinnulíf í sveitarfélögunum að sjálfsögðu skipta hér miklu máli.