Áhrif EES-samnings á sveitarfélögin

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:23:38 (546)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta og þingheims á því hvað er að gerast þegar hæstv. félmrh. kemur til að svara fsp. þingmanna. Ráðherrann kemur og les orðrétt upp ræðu sem ráðuneytisstjóri félmrn. flutti á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í fyrra og ekki er bætt við nokkrum sköpuðum hlut, og komst reyndar ekki fram úr því, ekki til enda. Það er ekki mikið verið að gera úr áhrifum þessa máls á sveitarfélögin í ræðunni því að niðurstaðan sem ráðherrann komst ekki yfir að lesa hjá ráðuneytisstjóranum var þessi:
    ,,Af framansögðu er ljóst að bein áhrif af Evrópska efnahagssvæðinu á sveitarfélögin sem slík eru fremur lítil.`` Og í lokin: ,,Evrópskt efnahagssvæði hefur því ekki miklar breytingar í för með sér beint fyrir sveitarfélögin.``
    Þetta eru vinnubrögðin hjá fagráðuneyti sveitarstjórnarmála. Ég átel þessi vinnubrögð. Ég tel þetta með miklum fádæmum hvernig hér er að málum staðið af því ráðuneyti se/m er ábyrgt fyrir sveitarstjórnarmálum og hvernig hér er komið fram gagnvart Alþingi Íslendinga þegar bornar eru fram fyrirspurnir eftir að samningur hefur verið gerður sem lá ekki fyrir 1991 þegar þessi ræða er flutt.