Velferð barna og unglinga

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 12:07:38 (564)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Þál. sú sem hér um ræðir var samþykkt á Alþingi í lok síðasta þings, nánar tiltekið hinn 9. maí sl. Nefndin hefur enn ekki verið skipuð. Skýring þess er eftirfarandi:
    Á vegum félmrn. eru nú að störfum tvær nefndir sem fjalla um viðfangsefni skyld því sem efni þál. lýtur að. Annars vegar er um að ræða landsnefnd um alþjóðaár fjölskyldunnar sem Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að verði 1994 og skipuð var í október 1991. Hins vegar er um að ræða samstarfsnefnd um málefni barna og unglinga sem skipuð var í apríl 1991. Samstarfsnefnd um málefni barna og unglinga áætlaði að ljúka störfum sínum í sumar og leggja fram skýrslu um störf sín. Dregist hefur að ganga frá skýrslunni en hennar mun verða að vænta síðar í þessum mánuði. Í skýrslu þessari mun verða beinlínis fjallað um þau atriði sem umrædd þál. felur í sér að gerð sé úttekt á, en skýrsla þessi er mjög ítarleg og vil ég leyfa mér að vitna beint í efnisyfirlit skýrslunnar sem nú er í drögum. Þar er fjallað ítarlega um vandamál barna og ungmenna og þar eru undirkaflar um erfiðar heimilisaðstæður, ofbeldi, kynferðislega misnotkun, einelti, hegðunarvandkvæði, vímuefnaneyslu og sjálfsvíg. Sérstakur kafli er í skýrslunni um tillögur til úrbóta. Því verður að álíta að nefnd þessi, sem er í þann mund að skila skýrslu varðandi flest þau atriði sem þál. kveður á um að úttekt skuli gerð á, að skýrslan muni gagnast þeirri nefnd sem skipuð verður samkvæmt þál.
    Ég taldi ekki rétt, til þess að forðast tvíverknað, að skipa þá nefnd sem þál. mælir fyrir um fyrr en skýrsla samstarfsnefndar um málefni barna og unglinga lægi fyrir sem felur í sér mikla gagna- og upplýsingaöflun sem lúta að sömu efnisatriðum og þál. kveður á um og mun því gagnast vel í störfum nefndarinnar sem skipa á samkvæmt tillögunni.
    Landsnefnd til undirbúnings alþjóðaári fjölskyldunnar er eins og fyrr greinir jafnframt að fjalla um skyld viðfangsefni og eru þar ítarlegar rannsóknir og kannanir í gangi varðandi málefni barna og fjölskyldna. Í því skyni einnig til að forðast tvíverknað vísaði ég umræddri þál. til umfjöllunar þeirrar nefndar með beiðni um að hún skilaði áliti um hvernig æskilegast væri að afmarka viðfangsefnið og haga starfi þeirrar nefndar sem skipuð yrði samkvæmt þál. þannig að ekki yrði um skörun á verkefnum að ræða.
    Á vegum landsnefndarinnar hefur einmitt átt sér stað umfangsmikil gagnaöflun um velferðarmál fjölskyldna og barna og ungmenna en í greinargerð með þáltill. er lagt til að fyrirhuguð nefnd vinni úr fyrirliggjandi gögnum. Ég vil ítreka það, vinni úr fyrirliggjandi gögnum, og ekki er ætlast til að efnt sé til tímafrekra rannsókna sem einmitt hefur verið í gangi bæði í þeirri fjölskyldunefnd, sem ég nefndi, og þeirri samstarfsnefnd sem ég nefndi

um málefni barna og unglinga.
    Landsnefndin, sem í eiga sæti um 30 fulltrúar ýmissa stofnana, félagasamtaka og ráðuneyta, hefur kosið sérstaka framkvæmdanefnd. Erindi mitt vegna þál. var lagt fram á fundi framkvæmdanefndarinnar hinn 10. júlí sl. og er óafgreitt þar sem hún hefur ekki komið saman síðar vegna sumarleyfa. Væntanlega afgreiðir nefndin málið síðar í þessum mánuði.
    Þá vil ég nefna eitt atriði enn sem varðar umrædda þál. Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála vinnur nú að ítarlegri rannsókn á sjálfsvígum unglinga með styrk frá félmrn. og mörgum öðrum aðilum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er að vænta upplýsinga úr þeirri rannsókn í síðari hluta októbermánaðar. Þær niðurstöður munu jafnframt hafa þýðingu fyrir starf þeirrar nefndar sem í þál. er gert ráð fyrir að fjalli um orsakir vaxandi erfiðleika og hættur fyrir börn og ungmenni. Af framansögðu má vera ljóst hvers vegna ég hef ekki talið tímabært að skipa umrædda nefnd. Í þál. er gert ráð fyrir að nefndin skili skýrslu sinni á yfirstandandi þingi. Ég tel enga hættu á að það gangi ekki eftir. Nefndin verður skipuð á næstunni og má segja að hún fái þá strax í hendurnar upplýsingar sem geri henni kleift að ljúka starfi sínu á tilsettum tíma.