Húsgöngu- og fjarsala

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 15:02:23 (603)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umfjöllunar var til umfjöllunar í efh.- og viðskn. í sumar og hét þá Frumvarp til laga um húsgöngusölu o.fl. en heitir nú Frumvarp til laga um húsgöngu- og fjarsölu. Við yfirferð yfir fyrstu drög frv. gagnrýndum við það m.a. að í 9. gr. frv. kom fram, með leyfi forseta:
    ,,Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara og er honum heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna með reglugerð. Í slíkri reglugerð getur ráðherra ákveðið að lögin nái einnig til fjarsölu og getur hann sett nánari reglur um neytendvernd í því sambandi.``
    Okkur þótti óeðlilegt að það væri verið að setja sérstaka löggjöf um húsgöngusölu o.fl. og hnýta síðan fjarsölu inn í þessa löggjöf án þess að vita nokkuð nánar hvaða reglur yrðu settar um fjarsölu. Ég tek undir það með hæstv. viðskrh. að þetta form sölu hefur farið vaxandi og mun fara vaxandi og líklegt að svokölluð húsgöngusala verði mun minni en fjarsala, þ.e. fólk geti keypt ýmsa hluti og stofnað til viðskipta í gegnum sjónvarpstæki, í gegnum tölvur o.s.frv. Því er nauðsynlegt að um þetta gildi ákveðnar reglur er vernda neytendur frá óeðlilegum viðskiptaháttum í þessu sambandi. Nú hefur þessu verið breytt og mér sýnist að breytingin hafi gengið í þá átt, eins og fram kemur í 5. gr., með leyfi forseta:
    ,,Lög þessi eiga við um fjarsölu eftir því sem við á, en ráðherra getur sett nánari reglur um neytendavernd í því sambandi í samræmi við þær reglur sem samþykktar verða um það efni í samstarfi ríkja Evrópska efnahagssvæðisins.``
    Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort hér sé ekki fulllangt gengið. Er ástæða til þess að gefa sérstakar heimildir til þess að setja reglugerðir um allt það sem hugsanlega kunni að verða samþykkt í samstarfi þessara ríkja? Liggur svo mikið á í sambandi við löggjöf af þessu tagi að það megi ekki bíða eftir því að slíkar reglur komi fram? Ber okkur einhver skylda til að veita framkvæmdarvaldinu slíkar lagaheimildir?
    Ég er ekki með þessu, hæstv. viðskrh., að halda því fram að hér sé um sérstakt hættumál að ræða eða hér sé verið að veita viðskrh. hættulegar heimildir. Þetta er tiltölulega saklaust mál í sjálfu sér og sjálfsagt að setja um þetta reglur í ljósi vaxandi viðskipta á þessu sviði. En mér finnst að þetta frv. beri nokkurn keim af fljótræði og ekki sé tími til að bíða eftir því að menn komi sér saman um reglur. Það er ávallt verið að breyta lögum hér á Alþingi og það er meira að segja svo að hér er almennt verið að flytja allt of mikið af frumvörpum. Það hefur ávallt verið svo og ekki hefur það farið batnandi í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er verið að setja lög um alls konar mál og oft og tíðum er gengið of langt í því skyni að mínu mati og minni tími gefst til að huga að framkvæmd nauðsynlegra laga. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst þetta bera vott um bráðræði þar sem eigi að koma öllu í höfn í eitt skipti fyrir öll eins og það muni aldrei verða tími síðar til að líta á mál sem þetta. Þess vegna finnst mér að þetta sé eitt af þeim málum sem þurfi að vinnast betur og ætti að vísa því aftur til viðskrn. til frekari vinnslu og umfjöllunar.