Verðbréfaviðskipti

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 16:03:24 (612)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að gera athugasemd við það sem hv. 1. þm. Austurl. sagði. Mér þótti hann tala í mjög föðurlegum tóni til mín, taldi rétt og svo sem einsýnt að það væri verkefni efh.- og viðskn. að fást við þetta mál, aðrir skyldu lítið skipta sér af því --- eða það var næstum því sagt. Hann las síðan upp úr umsögnum sem við höfum alls ekki fengið. Það sem er fyrir mig lagt í þingsal eru frumvörpin eins og þau liggja fyrir og ég áskil mér allan rétt til að gera athugasemdir við þau. Mér hlotnaðist sá heiður að hv. 1. þm. Austurl. var meira að segja sammála mér um a.m.k. eina athugasemd mína og ég lýsi því ekki hvað það gleður mig.
    Það er auðvitað jafnsjálfsagt þegar frumvörp eru lögð fram sem hlotið hafa verulega umsögn úti í þjóðfélaginu, og sjálfsögð kurteisi, að við fáum líka að sjá þessar umsagnir, þá þyrftum við ekki að vera að þrasa í einhverju sem þegar er búið að benda nefndinni á. Ég hlaut að lesa þetta yfir eins og það er lagt á mitt borð. Annað hef ég ekki til að styðjast við. Ég vænti þess því að hæstv. iðn.- og viðskrh. svari mér um þetta með sambærilega samkeppnisaðstöðu. Hv. 1. þm. Austurl. hefur þegar tekið að sér að annast bankaeftirlitið. Það er þá fyrst og fremst þetta sem mig fýsir að vita, hvort það er ekki einstakt að verðbréfafyrirtæki hafi ekki leyfi til að stunda lánaviðskipti ef við erum að samræma þetta til þess að samkeppnisaðstaðan verði sambærileg.