Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 15:06:22 (694)


     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hlýtur öllum, sem skoða samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, að vera ljóst að með honum er verið að auðvelda viðskipti innan svæðisins en jafnframt að byggja upp tollmúr í kringum svæðið sjálft, auka viðskipti þessara þjóða, byggja upp blokk sem stenst samkeppni og jafnvel nær til sín hluta af viðskiptum á kostnað annarra keppinauta sem eru einkum Bandaríkin og Japan.

    Hæstv. fjmrh. var að lýsa hér sinni draumsýn sem hann sá fyrir sér, alheimsbandalag án tolla. En hann er hér að taka þátt í því að reisa tollmúr í kringum Ísland og Evrópu með þeirri stefnu sem hér hefur verið mörkuð. Það hefur verið baráttumál ýmissa afla frá því á átjándu öld að ná niður tollum en gengur harla erfiðlega. Þótt það megi setja fram þá kenningu að framleiða eigi þar sem ódýrast er að þá erum við t.d. bundin af því hráefni sem við eigum, þeim auðlindum sem okkar land býr yfir og okkar skilyrði hljóta auðvitað að mótast af því. Menn geta auðvitað talað eins og við séum milljónaþjóð og hluti af hinni dásamlegu frjálshyggju. En raunveruleikinn er einfaldlega annar. Það er dýrt að búa á Íslandi, það er dýrt að framleiða á Íslandi og við þurfum auðvitað að sjá til þess að okkar framleiðsla standist samkeppni við aðra. Við þurfum að veita henni ákveðna vernd þótt það sé kannski ekki rétta orðið, við þurfum að búa þannig um hnútana að okkar framleiðsla geti lifað. Auðvitað er það svo að það er fáum þjóðum jafnmikilvægt og okkur Íslendingum að viðskipti séu frjáls. Við þurfum að finna þarna bilið á milli. Þessir tollmúrar sem hér er verið að reisa eru ekki rétta leiðin að því markmiði.