Vörugjald af ökutækjum

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 15:53:23 (705)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð sem mig langar til að minnast á. Ég geri mér grein fyrir því og veit um að leigubifreiðastjórar hafa verið með sínar hugmyndir um breytingar á aðflutningsgjöldum atvinnubifreiða. Það mál hefur reyndar verið til skoðunar í ráðuneytinu en engin niðurstaða fengist í því máli. Inn í það blandast að sjálfsögðu skattlagning á atvinnubifreiðastjóra eða fólksflutninga þannig að menn þurfa að líta á málið í því ljósi að það kann að hafa áhrif ef t.d. um væri að ræða breytingar á virðisaukaskatti sem er ekki ljóst á þessari stundu því að um leið og fólksflutningar yrðu skattskyldir þá gætu þeir líka dregið frá innskattinn, þar á meðal innskatt vegna bifreiða og bifreiðavarahluta.
    Að öðru leyti er það kannski fyrst og fremst eitt atriði sem ég vil koma á framfæri og það er það sem kom hér fram hjá hv. síðasta ræðumanni sem gaf í skyn að einhverjir öflugir aðilar hefðu ráðið því að ekki var gripið til ytri tolla í þessu frv. Svo er ekki. Það er alveg út í bláinn að halda því fram og ég leyfi mér nú bara að segja fyrir neðan virðingu hv. þm. Ástæðan er þvert á móti sú að skattar á þessi tæki

eru margslungnari en skattar yfirleitt eins og kom reyndar fram í máli hv. þm. sem ræddu þessi mál og nefni ég þá gjaldið á bifreiðarnar sem lúta mjög sérkennilegum lögmálum og hafa reyndar verið vandræðamál um langan aldur.
    Það sama er að segja um skatta á bifreiðar. Allir sjá hve erfitt er að skattleggja bíla eftir kg og slagrými og jafnvel er um eignarskatta að ræða á bifreiðum sem ekki einu sinni bera númer eins og menn þekkja. Þetta eru allt mál sem eru þess eðlis að það hefur kannski tiltölulega litla þýðingu að gera mun á því hvaðan bifreiðarnar koma því að það er hægt að jafna það upp með ýmsum öðrum ráðum.
    Eftir sem áður er sett vörugjald og tollar á bifreiðavarahluti en þar er auðvitað gerður munur á því hvaðan framleiðslan kemur og þess vegna er um hærri gjöld á slíkum frá Bandaríkjunum og Japan.
    Ég get hins vegar sagt frá því að þeir bifreiðainnflytjendur sem komu og ræddu við stjórnvöld og þar á meðal mig um þessi mál voru innflytjendur amerískra bíla af stærri gerðum, t.d. jeppabíla, og kvörtuðu þeir undan þeirri breytingu sem gerð var í tengslum við síðustu fjárlög þegar hækkunin var á gjaldi af þeim bifreiðum sem höfðu stærst slagrými og voru þyngstir. Þeir sem komu á minn fund voru innflytjendur amerískra bíla, þar á meðal innflytjendur bíla frá General Motors. Þeir hafa haft þau áhrif að ég tel skyldu mína að biðja nefndina um að líta sérstaklega til þessa atriðis þótt ég hafi kosið að láta frv. fara fram eins og það núna er til að gera sem allra minnstar efnislegar breytingar á frv. og þessum lögum og reglum sem í gildi eru því að ég taldi það skyldu mína að reyna a gera sem minnstar efnislegar breytingar vegna sjálfs EES-samningsins þótt auðvitað komi til greina að nefndin sjálf og ráðuneytið vinni síðan saman að breytingum sem geta komið upp af öðrum ástæðum.
    Þetta vildi ég láta koma fram og ég veit að hv. þm. veit betur en ég að varla getum við verið að tala lengur um öfluga aðila þegar þeir eru taldir upp sem ég nefndi hér áðan og skal ég ekki hafa fleiri orð um það. En þetta voru þeir einu sem við mig töluðu í tilefni af þessu frv. og bentu mér á þetta sem ég gerði laglega skil, vona ég, í upphafsræðunni. Ég vona að ég hafi svarað hv. þm. rækilega um þessa öflugu aðila.