Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 13:56:56 (715)


     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þarf að fá betri upplýsingar um það til þess að ég trúi því að það fyrirkomulag sem aflamiðlun varðar fái að standa til frambúðar undir því kerfi sem menn eru að taka á sig í landinu. (Gripið fram í.) Það held ég að geti bara ekki verið. Ég trúi því ekki að útflutningshindranir af því tagi geti staðið í kerfi sem á að byggjast á algeru frelsi eða sem allra mestu frelsi. Kann vel að vera að menn gangi þessa götu núna í þeirri vissu að þeir megi halda áfram að stjórna útflutningi á fiski en ég trúi því ekki að það verði til frambúðar.

    Það sem ég var fyrst og fremst að vekja athygli á er það að ég tel að menn hafi með málflutningi sínum gert það mikið úr undanþágum sjávarútvegsins að búið sé að fá fólkið í landinu til að trúa því að sjávarútvegurinn sé alfarið undanþeginn. En verslun með sjávarvörur er ansi stór hluti af því sem menn gera með sjávarafurðir. Þess vegna er full ástæða til þess að menn geri sér grein fyrir því hvað af því leiðir að útlendingar hafi a.m.k. jafnan rétt og við gagnvart því að versla með sjávarafurðir.