Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 13:58:39 (716)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég missti af framsöguræðu hæstv. ráðherra en um er að ræða frv. þar sem verið er að breyta lagaákvæðum að því er varðar fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sérstaklega að því er varðar uppboðsmarkað. Ég er ekki þeirrar skoðunar að frv. í sjálfu sér skipti neinum sköpum í sjávarútvegi okkar og er sammála hæstv. ráðherra í þeim efnum.
    Það verður að líta til þess að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði tekur ekki sérstaklega til sjávarútvegs eða landbúnaðar. Við munum með samþykkt þess samnings ekki gerast aðilar að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópubandalagsins og ekki að sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópubandalagsins. Ég lít svo á með sama hætti og hæstv. ráðherra að við getum vegna þess viðhaldið þeim takmörkunum sem við höfum haft á útflutningi á ferskum fiski og það sé alveg í samræmi við það sem gengur og gerist í löndum Evrópubandalagsins. Evrópubandalagið er með margvísleg ítök í sjávarútveginum, boð og bönn, styrkveitingar og annað fleira og þess vegna er alveg ljóst í mínum huga að við getum skipt okkur af útflutningi á ferskum fiski eins og við höfum gert.
    Hitt er svo annað mál að stundum hefur heyrst frá hæstv. utanrrh. að það þurfi að verða breytingar á útflutningsverslun Íslendinga vegna aðildarinnar að EES. Þetta eru sjónarmið sem ég er ekki sammála. Menn eiga alls ekki að gera breytingar af þeim sökum en menn geta að sjálfsögðu gert breytingar ef þeir telja það hagstætt hagsmunum okkar. Þess vegna tel ég ótvírætt að við getum viðhaldið sölusamtökum með sama hætti og verið hefur og séum á engan hátt skuldbundnir til þess að leggja þau niður.
    Hitt er svo annað mál að ég er í vissum vafa um að nauðsynlegt sé af hálfu Íslendinga að gera þessa breytingu sem hér er verið að mæla fyrir. Eins og nú er verður erlendum aðilum bannað að stunda frumvinnslu á fiski hér á landi. Ef þetta frv. verður að lögum má því segja að erlendir aðilar geti átt aðild að slíkum uppboðsmarkaði, verið eignaraðilar þar, en þeir munu ekki geta tekið þátt í vinnslu þess fisks sem er seldur á slíkum uppboðsmarkaði.
    Á vissan hátt er óeðlilegt að erlendir aðilar hafi heimild til að fjárfesta í starfsemi að því er varðar viðskipti á fiskmarkaði en sé síðan bannað að taka þátt í vinnslu afurðanna frekar eða allri vinnslu afurða. Þess vegna finnst mér að mætti efast um að það væri alveg nauðsynlegt að gera þessa lagabreytingu. Ég ætla ekki að vera með neinar fullyrðingar um það. En jafnvel þótt svo yrði gert og erlendir aðilar hefðu heimild til að stunda slík viðskipti teldi ég ekki vera neina stórhættu á ferðinni, enda haldi ákvæðin um frumvinnslu og ákvæðin um það að okkur sé heimilt að stýra útflutningi á ferskum fiski eins og við höfum gert.
    Þetta vildi ég segja hér við 1. umr. málsins, en ég mun að sjálfsögðu taka þátt í nefndarstörfum í málinu og okkur gefst þar kostur á að athuga hvort það sé ótvírætt að við þurfum að gera þessa breytingu í samræmi við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði.