Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 14:20:19 (719)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Þau frumvörp sem hér eru flutt komu jafnframt til umfjöllunar á síðasta þingi og ástæðan fyrir því að þau hlutu ekki afgreiðslu var m.a. sú að efasemdir komu upp vegna ummæla embættismanna að sú nýbreytni sem þessi frumvörp fela í sér standist þær reglur sem gilda á okkar helstu mörkuðum og þá ekki síst Evrópubandalagsins. Nú hefur hæstv. sjútvrh. upplýst að farin hafi verið sérstök ferð til að ganga úr skugga um það og er það vel og ekki mun standa á því af þeirra hálfu að taka gildar þær breytingar sem hér er verið að gera. Því má segja að þessi frumvörp tengjast í reynd í engu samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Það hefur frekar verið í þá áttina að það hefur þurft að fara sérstakar ferðir til ríkja Efnahagsbandalagsins til þess að kanna það hvort þær breytingar sem Íslendingar vilja gera muni standast kröfur Evrópubandalagsins. Þar af leiðandi er það nokkuð undarlegt að ríkisstjórnin skuli leggja á það áherslu að taka þessi mál nú til umfjöllunar á þessu þingi vegna þess að það var ætlunin að taka fyrst og fremst þau frumvörp sem tengjast beint samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Við höfum orðið vör við að það eru ýmis önnur mál sem ríkisstjórnin hefur tilhneigingu til þess að fylgja þar með. Ég er ekki þar með að gera lítið úr þeim málum eða telja þau mál eitthvað minna virði en önnur mál en þannig var um þetta fjallað og þar af leiðandi ættu slík mál að bíða þess að þing kæmi saman í október. En hvað um það, hér er um mál að ræða sem er nauðsynlegt að fjalla um og engin ástæða til að gera það að einhverju aðalatriði að þau tengist ekki beint samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Ég tel að aðalatriði þessa máls sé það að íslensk framleiðslufyrirtæki hafi fullt traust á erlendum mörkuðum og það eftirlit sem er hér á landi sé viðurkennt af helstu markaðsaðilum okkar. Það er alveg ljóst að þessi lönd gera þá kröfu að um opinbert eftirlit sé að ræða, hvort sem um er að ræða Evrópubandalagð eða bandaríska markaðinn. Gert er ráð fyrir því að það sé opinber aðili sem hafi yfirumsjón með eftirlitinu.
    Hér er gert ráð fyrir því að breyta því þannig að færa þetta opinbera eftirlitsvald til Fiskistofu og koma síðan á fót sérstökum skoðunarstofum sem hafi með höndum eftirlit með innra eftirliti fyrirtækjanna sjálfra. Nú vil ég taka fram að það er að sjálfsögu mikilvægast að fyrirtækin sjálf sinni gæðamálum sínum, að fyrirtækin sjálf standi þannig að sínum málum að það sé nokkuð tryggt að verið sé að framleiða gæðavöru. Ekkert opinbert eftirlit getur komið í staðinn fyrir eftirlit fyrirtækjanna sjálfra. Þetta segir reynslan okkur og það hafa verið gerðar breytingar á undanförnum árum í þessa átt og ég er sammála því að það ber að auka ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra og þau mega aldrei treysta því að opinbert eftirlit komi í staðinn. Hitt er svo annað mál að það er mjög viðkvæmt eða getur verið mjög viðkvæmt hvaða breytingar eru gerðar á slíkri starfsemi. Ég hef enga sannfæringu fyrir því að hér sé verið að stíga rétt skref. Ætlunin er að viðhalda Ríkismati sjávarafurða í breyttri mynd í formi hlutafélags og færa síðan eftirlitsábyrgðina undir Fiskistofu. Ég tel fyllilega koma til greina að viðhalda Ríkismati sjávarafurða sem stofnun áfram þótt ég geti í sjálfu sér fallist á það að stofnunin gæti hugsanlega verið undirstofnun Fiskistofu, en ég sé ekki að það sé nauðsynlegt að stíga skrefið með þeim hætti sem hér er gert.
    Ein af þeim umsögnum sem við höfum fengið er frá yfirdýralækni sem hefur kynnt sér þessi mál mjög vel og fylgst með gangi mála hjá Evrópubandalaginu betur en margir aðrir. Hann segir í umsögn sinni að það sé umdeilt, bæði innan Evrópubandalagsins og í Bandaríkjunum að hvaða leyti hægt sé að framselja opinbert eftirlitsvald til einkaaðila. Mjög miklar breytingar eiga sér stað á þessu sviði í Evrópu um þessar mundir og jafnframt eiga sér stað miklar breytingar í Bandaríkjunum og í Kanada. Okkur ber að fara varlega í þessu efni og ég bendi m.a. á varnaðarorð sem hafa komið frá Ríkismati sjávarafurða í þessu sambandi, en þar segir m.a.: ,,Stofnunin er þó alfarið andvíg því að svokölluðum skoðunarstofum verði komið á fót og telur þá leið bæði vafasama og óskynsamlega.``
    Nú ætla ég ekki að hafa uppi neinar fullyrðingar um það að hér sé um vafasama leið og óskynsamlega að ræða. En vissulega vekur athygli að þeir aðilar sem hafa þessi mál með höndum í dag skuli vara svo sterklega við því eins og raun ber vitni. Ég trúi því vart að það sé eingöngu vegna áhuga viðkomandi aðila til að viðhalda því kerfi sem er í dag að þarna sé tregðulögmálið á ferðinni, menn vilji halda utan um stofnanir sínar. Auðvitað eru stofnanirnar sem slíkar ekkert aðalatriði heldur það eftirlit sem á sér stað og þá sérstaklega það traust sem íslenskir aðilar hafa á erlendum mörkuðum. T.d. segir í þessari umsögn, með leyfi forseta:
    ,,Óvíst er hvort yfirvöld Evrópubandalagsins vegna samninga um Evrópskt efnahagssvæði, EES, og Bandaríkjanna telji íslenska eftirlitskerfið fullnægjandi miðað við frv. en höfuðatriðið hlýtur að vera trúverðugleiki kerfisins.``
    Nú hefur komið fram að yfirvöld Evrópubandalagsins muni taka það gilt en ég hef ekkert séð um það hvort Bandaríkin muni taka það gilt. Á undanförnum árum hafa ítarlegar viðræður við Bandaríkjamenn átt sér stað um þessi mál og m.a. verið þar mjög til umræðu að það eftirlitskerfi sem við höfum væri viðurkennt þannig að íslenskir aðilar gætu notað ákveðin gæðamerki á vörur sínar til notkunar á bandarískum markaði. Þetta eru mikilvæg atriði sem þarf að ganga úr skugga um. Ástæðan fyrir því að við sem sitjum í sjútvn. vildum ekki afgreiða þetta mál á síðasta þingi var óvissa í þessu sambandi og við munum að sjálfsögðu þurfa að ganga úr skugga um það hvort þessi óvissa sé enn fyrir hendi.
    Ég tel ekki ástæðu til, virðulegur forseti, að hafa langt mál um þetta. Þetta er faglegt mál sem ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að vera neinn pólitískur ágreiningur um. Aðalatriðið er trúverðugleiki þess kerfis sem byggt er upp og að það sé óháð og geri mönnum í öllum tilvikum jafnt undir höfði. Ég tel málið þess eðlis að best sé að fjalla ítarlega um það í nefnd og kalla fyrir þá aðila sem að því hafa unnið. Það mun vissulega taka nokkurn tíma. En ég undrast að hæstv. ríkisstjórn skuli leggja áherslu á að hin ýmsu mál sem ekki tengjast beint hinu Evrópska efnahagssvæði skuli eiga að verða forgangsmál á næstu vikum, því að þetta er miklu frekar mál sem leikur vafi á um að breytingin gæti orðið til þess að það fullnægði ekki kröfum. Það leikur enginn vafi á um að núverandi kerfi þó það sé að sjálfsögðu gallað eins og öll önnur kerfi, fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru í dag og þess vegna hefði ég haldið að samkvæmt því sem um hefur verið talað, þá hefði verið eðlilegt að þetta mál biði haustþings.