Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 21:03:23 (761)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að stilla mig um að fara að kalla einstaklinga villur í stefnu og áhrif þeirra. En ég verð náttúrlega að svara nákvæmlega þessu og vitna enn í ræðu mína. Ég sagði að ég væri sammála ýmsu því sem kæmi fram hjá þeim pistlahöfundi sem ég vitnaði í. Ég verð að viðurkenna það að ég las þetta einungis til þess að hér kæmi fram hvaða gagnrýni er sett fram. Í þeim athugasemdum sem ég hef komið með frá sjálfri mér, hef ég nú ekki látið það eftir mér að taka sjómannaafsláttinn sérstaklega fyrir og fyrir því er einföld ástæða. Ég tel að samið hafi verið um hann í kjarasamningum. Ég get haft skoðanir mínar á því hvort það sé heppilegt að hafa hann eða ekki. En þar sem samið er um hann í kjarasamningum hef ég að sjálfsögðu ekki viljað grípa inn í hann eins og ríkisstjórnir nútíðar og fortíðar hafa því miður allt of mikið gert af að grípa inn í kjarasamninga. Eitt er að hafa skoðun á því hvort það er heppilegt að hafa þetta. Annað er það að fara að grípa inn í þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið.