Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 22:41:27 (783)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þingmaðurinn spurði hvort mér fyndist virkilega allt vera í rúst í sjávarútveginum. Ég hef ekki orðað það svo. Ég hef einungis farið með tölur sem ég hef fengið frá Þjóðhagsstofnun í dag. Þetta er einungis ástandið eins og það er. Ef hann dregur þá ályktun að þá sé allt í rúst þá er það hans ályktun. Ég tel hins vegar að í greininni séu mjög mikilvægir vaxtarsprotar.
    Að því er varðar það sem hann kallar skattlagningu á greinina með því að selja afla Hagræðingarsjóðs þá vil ég vekja athygli þingmannsins á því og reyna að rifja það upp með honum að þetta gjald á að fara til þess að standa straum af kostnaði við rekstur Hafrannsóknastofnunar. Sérstaklega var talað um það í fyrra af hálfu sjútvrh. að það ætti m.a. að fara til þess að taka loksins upp fjölstofnarannsóknir sem við hefðum átt að byrja á fyrir a.m.k. áratug.
    Hins vegar að því er varðar ummæli hans frá 11. maí þá var ég einungis að segja það, virðulegi forseti, að orð skuli standa. Þegar ég spurði hann hvernig ætti að fækka vinnslustöðvum þá svaraði hann, með leyfi forseta: ,,Um það hvernig eigi að fækka einingum í sjávarútvegi get ég sagt alveg hreint út. Það eiga menn að sjá um sjálfir. Ríkið á ekki að skipta sér af því.``
    Með öðrum orðum: Ríkið á ekki að hjálpa mönnum til að hætta. Þeir eiga að gera það sjálfir.
    Það kalla ég gjaldþrotaleið.