Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 00:23:04 (812)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð liðið á tímann og ég skal ekki í sjálfu sér reyna að lengja þessa

umræðu mikið en vil aðeins að segja nokkur orð. Það er út af fyrir sig merkilegt að standa hér og ræða um þetta mál, svo mikilsvert mál sem þessi atvinnugrein okkar, sjávarútvegurinn, er og verða þess áskynja að í þinghúsinu eru aðeins staddir fjórir eða fimm stuðningsmenn núv. ríkisstjórnar. ( Gripið fram í: Hverjir eru þeir?) Þeir eru, með leyfi, virðulegi forseti, hv. þm. Einar Guðfinnsson, a.m.k. skráður þó ég hafi ekki séð hann ganga um sali, Sturla Böðvarsson og Þorsteinn Pálsson. Síðan eru þeir Gunnlaugur Stefánsson og Össur Skarphéðinsson. Tveir þeirra hafa verið að sinna skyldum sínum sem forsetar en á sama tíma liggjum við stjórnarandstæðingar tíðum undir því ámæli að við séum að tefja störf þingsins. Mér skilst nefnilega að ( Sjútvrh.: Við erum að ræða stjórnarandstöðufrv.) Já. ( ÖS: Ertu búinn að gleyma því?) Nei, ég gleymdi því nefnilega ekki, hv. 17. þm. Reykv. eða hæstv. sjútvrh. Hins vegar skildist mér og ég ætlaði að fara að segja að tilmæli hefðu komið frá hæstv. dóms- og kirkjumrh. um að fá að tala fyrir frumvörpum ríkisstjórnarinnar á eftir sem við stjórnarandstæðingar munum að sjálfsögðu sitja yfir til þess að reyna að koma málum áfram. Þetta er umhugsunarefni fyrir okkur og spurning hvort virðulegur forseti vildi ekki hafa orð á því í þingflokkum stjórnarflokkanna að athygli hefði verið vakin á þessu vegna þess að klukkan er þó ekki nema hálfeitt og ég tel satt að segja ekkert eftir þeim stjórnarliðum að vaka smástund. ( ÖS: Er enginn úr Alþb.?) Jú, jú, þeir eru hér inni frá Alþb. Hins vegar virðist hv. 17. þm. Reykv. og formaður þingflokks Alþfl. ekki hafa mikinn aga á sínu liði því hér hefur ekki sést einn einasti ráðherra Alþfl. inni í allt kvöld og það sýnir okkur kannski áhugaleysi þessara manna á þeirri atvinnugrein sem verið er að fjalla um. Og merkilegt að þeir eru kannski að gleðjast yfir því að hafa svínbeygt Sjálfstfl. svo að þeir eru komnir langleiðina með það að koma á auðlindaskatti í sjávarútveginum. Einhvern tíma hefðu það nú þótt tíðindi, hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála, að svo væri komið fyrir Sjálfstfl.
    Ég hef spurt um það áður þegar um þessi mál, auðlindaskatt á sjávarútveginn, hefur verið fjallað: Hvar er þessi gamli Sjálfstfl. sem einu sinni var talað um? Hvar er hann? Veit hæstv. ráðherra það? Ég hef ekki trú á því að hann kannist við þennan Sjálfstfl. sem nú er og sættir sig við það að leggja auðlindaskatt á sjávarútveginn, sættir sig við það að fulltrúar fjmrh. skuli vera búnir að fá þann starfa að standa við landganginn þegar menn fara á sjó og biðja um ávísunina áður en þeir róa og leysa landfestar. Það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi að þetta skyldi Sjálfstfl. samþykkja.
    Hins vegar hefur sú yfirlýsing nokkuð ruglað þessa umræðu í kvöld sem hæstv. ráðherra gaf að hefði verið samþykkt í dag af stjórn Fiskveiðasjóðs eða stjórn Hagræðingarsjóðs. Ég kann betur við að við tölum um það því að ég lít svo á að það hafi verið stjórn Hagræðingarsjóðs sem hafi samþykkt að bjóða þessar aflaheimildir til sölu. Það hefur truflað umræðuna. En sú hugsun læðist að mér að með því hafi ráðherrar Sjálfstfl. ætlað að nota þann leik að taka þann beiska bikar frá ákveðnum þingmönnum Sjálfstfl. að þeir gætu kannski friðað samvisku sína eitthvað að greiða ekki þessu frv., um breytingu á lögum um Hagræðingarsjóð, atkvæði sitt vegna þess að það væri gagnslaust eins og ráðherrann orðaði það í kvöld vegna þess að þetta væri búið og gert. Það er kannski það sem liggur þar á bak við að menn flýttu sér svo mjög í dag að koma þessu frá. Ég hef trú á því að það sé ein meginástæðan fyrir því að þessi samþykkt var gerð í dag.
    Umræðan hefur hins vegar snúist mikið um afkomu greinarinnar og það er ekki óeðlilegt. Ég hef sagt það áður þegar ég hef talað um sjávarútvegsmálin og hef spurt um það, bæði í sjútvn. og hér í þessum stól, hvað líður störfum þeirrar nefndar sem kölluð hefur verið tvíhöfða nefnd og fékk það verkefni að vinna að og gera tillögur um stjórn fiskveiða. Það var ekki aðeins að henni væri trúað fyrir því heldur var henni einnig trúað fyrir því að koma með tillögur um hvernig leysa mætti rekstrarvanda sjávarútvegsins. Þessi tvíhöfða nefnd átti að hafa samráð við ýmsa aðila. Hún átti m.a. að hafa samráð við sjútvn. þingsins. Við fundum að því á sínum tíma að þessi leið var valin en ekki sú sem áður var farin, að fulltrúar voru tilnefndir af þingflokkum til þess að sitja samráðsfundi og vinna að tillögugerð um stjórnun fiskveiða. Núverandi ríkisstjórn taldi að það væri ekki góð leið og þess vegna vildi hún heldur að sjútvn. þingsins yrði virk í þessu starfi og hún yrði notuð sem samráðsaðili. Tvisvar sinnum hafa formenn nefndarinnar komið á fund sjútvn. og í bæði skiptin að ósk nefndarinnar sjálfrar. Þeir hafa aldrei haft frumkvæði að því sjálfir. Ég held að ég segi það rétt að það hafi verið á síðasta frekar en næstsíðasta fundi sjútvn. þar sem mættir voru hagsmunaaðilar úr sjávarútvegi sem ég spurði þá að því hvort þeir hefðu haft samráð við þessa tvíhöfða nefnd um tillögugerð í sambandi við stjórnun fiskveiða. Þeir fórnuðu höndum og sögðust ekki þekkja málið. Er þetta samráð, hæstv. sjútvrh.? Er þetta samráð?
    Þegar hv. 17. þm. Reykv. talaði um auðlindaskattinn áðan sagði hann ýmislegt. Maður grípur það ekki allt þannig að ég hef hugsað mér að nota einhverja stund á morgun til að líta yfir ræðu hans. Hún var í mínum huga býsna merkileg og sérstaklega þar sem hann fór yfir sviðið um auðlindaskattinn. Ég hef nefnilega velt því fyrir mér, þegar menn eru að tala um þennan auðlindaskatt og að selja eigi veiðiheimildir til útgerðar sem nú er rekin með 10--11% tapi og spáð er að verði rekin með yfir 14% tapi, með hvaða peningum greinin eigi að borga. Mér er spurn. Með hvaða peningum á greinin að borga sem áætlað er að verði rekin með yfir 14% tapi? Hvers konar hagfræði er þetta? Ég held hins vegar að menn ættu að hætta að tala um þennan auðlindaskatt og ég er viss um að um það getur orðið friður að sjávarútvegurinn borgi eðlilega skatta til samfélagsins af starfsemi sinni þegar honum hefur verið búinn almennilegur starfsgrundvöllur og þá á auðvitað sjávarútvegurinn, eins og önnur atvinnustarfsemi í landinu, að greiða eðlilega skatta og skyldur. Þannig á að ná skatti eða tekjum af þessari atvinnugrein. Um það hef ég trú á að gæti orðið þokkaleg sátt. ( Gripið fram í: Nei, það á að afnema . . .  ) Hvað segir hv. þm.? ( Gripið fram í: Það á að taka tillögur ríkisstjórnarinnar í gagnið og afnema þá skattaskyldu.) Já.
    Það er auðvitað ömurlegt hvernig fyrir sjávarútveginum er komið. Ég heyrði ekki fréttir í kvöld. Þar var talað um að það ætti að setja peninga í ýmsar framkvæmdir. Ég heyrði hvergi minnst á að það ætti að fá peninga til að rétta hlut þessarar atvinnugreinar. Hún er mjög skuldsett eins og hér hefur komið fram. Nettóskuldir sjávarútvegsins eru nú líklega rétt um 70 milljarðar og nettóvaxtagreiðslur af þessu eru hvorki meira né minna en um 8 milljarðar kr. Lánstíminn sem sjávarútvegurinn þarf að búa við er að meðaltali, eins og kom fram hjá hv. þm. Finni Ingólfssyni fyrr í kvöld, rétt rúm 6 ár sem þýðir að árlegar afborganir eru á milli 10 og 11 milljarðar kr. Þannig þarf sjávarútvegurinn að greiða í vexti og afborganir lána 18--19 milljarða kr. Það hljóta allir að sjá að svona getur þetta ekki gengið. Það er vitavonlaust nema það sé ásetningur, og því vil ég ekki trúa, að rústa atvinnugreinina gersamlega.
    Það er auðvitað mikil blekking að reyna að slá því fram og telja mönnum trú um það að útgreiðslur úr Verðjöfnunarsjóði komi þarna að einhverju liði. Það er aðeins smáskammtalækning og það er ekki til þess að treysta rekstrargrundvöll greinarinnar. Það bætir aðeins greiðslustöðu fyrirtækjanna um stutta stund, en það er mikil blekking að ætla að það sé til þess að bæta rekstrargrundvöllinn og við megum ekki blekkja okkur á því.
    Til þess að sjá hversu vandinn er mikill í þessu getum við tekið gott fyrirtæki sem oft hefur verið vitnað til í sjávarútveginum sem er Útgerðarfélag Akureyringa. Það er örugglega eitt af þeim fyrirtækjum sem hvað best eru rekin eða hafa verið í gegnum tíðina, a.m.k. mjög vel rekið fyrirtæki og myndarlegt fyrirtæki, og var það á árinu 1990 með 185 millj. kr. hagnað af rekstri félagsins. Í fyrra var hagnaðurinn hins vegar um 85 millj. kr. og það er talið að hann verði í járnum eða verulegt tap verði á árinu sem er að líða.
    Við sjáum þennan viðsnúning í greininni. Þetta er vitaskuld algjörlega óviðunandi ástand og þess vegna hljótum við að leita mjög stíft eftir því hvaða leiðir hæstv. sjútvrh. er með í pokahorninu.
    Það er náttúrlega alveg deginum ljósara að það sem hefur verið að gerast í dag, að fyrirtækin sem hafa verið að fara á höfuðið og bankar og lánastofnanir hafa verið að tapa á í stórum stíl, veldur því að þau fyrirtæki sem eftir standa þurfa að bera miklu hærri vexti af þessum sökum. Bankarnir ná þessu inn á þann hátt að það er mjög íþyngjandi fyrir þau fyrirtæki sem eftir lifa. Og ekki nóg með það heldur eru þessi fyrirtæki einnig, eftir að þessi ,,konvertering`` fyrirtækjanna hefur farið fram eins og nú er í tísku, sett á svokallaðan núllpunkt og eru þess vegna komin í bullandi samkeppni við þau fyrirtæki sem alla tíð hafa staðið við skuldbindingar sínar og greitt af lánum sínum sem þeim hefur verið trúað fyrir. Á þennan hátt eru menn komnir með alveg nýjan feril og þannig verða þau fyrirtæki, sem fram að þessu hafa staðist, næst kölluð niður á gjaldþrotaleiðina. Ég hefði gaman af að heyra, ef hæstv. ráðherra segir einhver orð á eftir, hvort hann getur verið mér sammála um að ástæða sé til að spyrna við fótum og reyna að finna upp aðrar og skynsamlegri leiðir til að verjast þessu.
    Auðvitað er það umhugsunarefni fyrir okkur, og það er kannski gjarnan sagt að okkur beri skylda til að benda á leiðir, hvað við viljum sjálfir, hvaða hugmyndir við erum með sjálfir til þess að finna lausn á vandanum. Þess vegna vildi ég velta upp nokkrum hugmyndum og spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann vilji skoða þær hugmyndir. ( Gripið fram í: Hann er ekki í salnum.) Hann er ekki í salnum, en kannski heyrir hann. Hæstv. sjútvrh. hefur setið hér og ber að þakka það. Reyndar er hann ekkert of góður til þess því að við eru að tala um þau mál sem undir hann heyra og þess vegna á hann að vera hér ( Gripið fram í: Og ætlar að sitja sem fastast.) og ætlar að sitja áfram.
    Ég hefði gaman af að heyra hvort hæstv. sjútvrh. hafi eitthvað velt því fyrir sér, vegna þeirra straumhvarfa sem hafa orðið í framhaldi af því að við erum í vaxandi mæli að færa vinnsluna út á haf, að beita einhverjum tilfærslum á milli fisktegunda og milli þessara skipa eða jafnvel á veiðirétti. Mig langar líka að spyrja ráðherrann hvort hann vilji ekki skoða það að koma upp úreldingarsjóði fyrir fiskvinnslustöðvarnar. Í þriðja lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann gæti ekki fallist á að eðlilegt væri að fella niður innheimtu á aðstöðugjaldi á þessi fyrirtæki. Lækkun vaxta höfum við oft minnst á og komið hefur fram að þeir sem í atvinnugreininni starfa telja að Þjóðhagsstofnun vanmeti mjög vaxtaþáttinn í afkomutölum greinarinnar eins og ég held að hafi komið fram hér í kvöld hjá hv. 17. þm. Reykv. Ég minni á lækkun orkukostnaðar. Það er enginn vafi að sjávarútvegurinn borgar hærra orkuverð en ýmis önnur atvinnustarfsemi hér á landi og þess vegna mætti skoða þetta.
    Ég spyr einnig: Er hæstv. ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að styrkja fyrirtæki sem væru tilbúin til að setja skip sín á fjarlægari mið eða á vannýtta stofna? Ég spyr: Hefur hæstv. sjútvrh. skoðað þá möguleika, eða hafa þeir verið skoðaðir í ráðuneytinu, hvort hugsanlegt væri að einhver skip úr flotanum, t.d. hin stóru og öflugu loðnuskip sem við eigum og liggja oft langtímum saman lítt nýtt, gætu hugsanlega farið t.d. til rækjuveiða við Svalbarða? Ég hef oft og tíðum velt því fyrir mér hvernig það megi vera að íslensk fyrirtæki, í rækjuiðnaði t.d., þurfi að kaupa rækju af t.d. Rússum eða Norðmönnum, rækju sem þeir veiða við Svalbarða vegna þess að mér er það ljóst að það er tiltölulega þægilegt fyrir okkur Íslendinga að fá að veiða á þessum miðum. Ég hefði gaman af að heyra hvað ráðherra hefur að segja um þessa þætti. Það eru vissulega fleiri mið til en við Svalbarða en þau eru svo nálægt manni vegna þess að við erum að láta okkar fólk og fyrirtæki vinna þennan afla.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson kom inn á lánstíma þessara fyrirtækja og ég vil því einnig spyrja hæstv. sjútvrh.: Hefur hæstv. sjútvrh. eða ríkisstjórnin velt því fyrir sér að lengja lán fiskvinnslunnar úr þessum rúmu sex árum sem þau eru að meðaltali í í t.d. 12 ár? Ég hef það fyrir satt, hæstv. ráðherra, sem ég vona að heyri mál mitt þó að ég sjái að hann er önnum kafinn í tali, ( Sjútvrh.: Við skulum kalla þetta fund.) að þar séum við að tala um sparnað. Það gæti þýtt að hér séu 5 milljarðar kr. Hefur hæstv. sjútvrh. skoðað eða vill hann skoða þessa þætti og fleiri? Fróðlegt væri að fá það á blað og upplýsingar um það hversu þessar leiðir gætu hugsanlega rétt hlut greinarinnar.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að segja fleira. Ég sé að hæstv. ráðherra hefur takmarkaðan áhuga á þessu máli og það er miður. Við verðum þá að geyma það til betri tíma að tala við hann. Ég held satt að segja að hæstv. sjútvrh. hefði gott af því að hlusta á það sem við viljum segja, þessi sem nennum að vera hér þegar þessi mál eru á dagskrá, því að ef ég hef hlustað rétt skilst mér að hann hafi ekki mikinn stuðning í þessum málum í sínum flokki eða Alþfl. og helsti stuðningurinn til góðra verka í sjávarútveginum muni koma frá Framsfl. og trúlega einhverjum hluta af Alþb., vonandi öllu. Ég bið þess vegna hæstv. sjútvrh. að leggja hlustirnar vel við þegar við framsóknarmenn, og stjórnarandstaðan öll, tölum í þessum málum.