Lagaákvæði er varða samgöngumál

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 14:22:45 (824)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar hæstv. samgrh. var að fylgja þessu frv. úr hlaði, sem er 28. mál á þskj. 29, gat ég ekki varist því að hugsa um það hvort hann væri með rétt frv. í höndunum þar sem meira en helmingur af tíma hans fór í að lýsa ýmsum ákvæðum samnings um hið Evrópska efnahagssvæði í sambandi við flugmál. Nú er þetta frv. til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða samgöngumál. Ef ég tel upp greinar þess, þá eru þær eins og hefur reyndar komið fram áður, mest um að samgrh. sé heimilt að setja reglugerðir, en 1. gr. er um leigubifreiðar, 2. gr. um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum, 3. gr. um siglingalög, 4. gr. um eftirlit með skipum, 5. gr. um leiðsögu skipa, 6. gr. um hafnalög, 7. gr. um vegalög, 8. gr. um veitinga- og gististaði, 9. gr. um skipulag ferðamála --- og það kemur ekki mikið inn á flugmál --- og 10. gr. um skráningu skipa. Í þessum greinum er ekki að mínu viti minnst mjög mikið á flugmál en hæstv. ráðherra varði mestum tíma sínum í að lýsa þeim áhrifum sem samningurinn hefði hugsanlega á flugmál en mér hafði skilist á þeim tilkynningum sem við í samgn. höfum fengið að lagabreytingnar er vörðuðu flugmál mundu verða í sérstöku frv.
    Eins og ég sagði gengur þetta frv. mest út á að samgrh. er heimilt að setja reglugerðir. Svo að segja hver einasta grein byrjar á því að samgrh. er heimilt að setja reglugerðir á sviði þessa og hins sem tekið er á. Hæstv. ráðherra lýsti því hér áðan að þetta væri aðeins vegna skuldbindinga er leiða af samningi um Evrópskt efnahagsvæði milli EB-ríkja og EFTA. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra, hver á að fylgjast með því að reglugerðirnir séu nákvæmlega eftir ákvæðum samningsins þegar við fáum í hendur frv. til laga sem er orðað á þennan veg. Er gert ráð fyrir að nefndir þingsins eða samgn. eða e.t.v. þingið sjálft fái að fara yfir þær reglugerðir og skoða hvort þær séu þá í samræmi við ákvæði samningsins í frv. um Evrópskt efnahagssvæði? Ég tel að þingmönnum sé nánast ekki bjóðandi að fjalla um svona frv. þar sem nánast eingöngu er verið að heimila ráðherra að setja reglugerðarfargan eins og ég vil orða það. Ég tek svo sannarlega undir það sem hér hefur verið gagnrýnt að með þessu frv. erum við að fara inn á þá leið að Alþingi hefur nánast ekkert um það að segja hvaða reglur og lög munu gilda í framtíðinni um hið Evrópska efnahagssvæði og á Íslandi í tengslum við það. Við verðum að taka á okkur þau lög og reglugerðir Evrópubandalagsins sem eiga að gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði og við fáum í mesta lagi að sjá frv. álíka og þetta þar sem ráðherra er falið að gefa þessar reglugerðir út.
    Að nokkru leyti kemur þetta frv. líka inn á ríkisfang og búsetuskilyrði vegna ákvæða samningsins. Það er að sjálfsögðu í samræmi við það frjálsræði sem gilda á að ákvæði sem varða ríkisfang og/eða búsetuskilyrði eru ekki lengur fyrir hendi í viðkomandi lögum. Mér sýnist nú að það sé mjög skoðunarvert í sambandi við ferðamál hvernig það getur orðið í framkvæmd þegar t.d. leiðsögumenn geta unnið hér alveg sama hvaðan þeir eru af Evrópska efnahagssvæðinu. Þá gilda engin sérréttindi fyrir íslenska leiðsögumenn, þeir hafa á undanförnum árum þurft allmikið að halda í réttindi sín gagnvart erlendum leiðsögumönnum sem hafa nánast vaðið hér yfir án þess að hafa tilskilin leyfi. Mér sýnist að þarna sé algerlega fyrir bí að íslenskir leiðsögumenn geti haft eða hafi nokkurn forgang og er raunar einsýnt að þeir munu ekki hafa hann og þar getum við búist við atvinnuleysi einnar stéttar í viðbót.
    Ef farið er yfir almennar athugasemdir með frv. þá byggist frelsið í flutningamálum og samræming á eftirfarandi grundvallaratriðum, með leyfi forseta:
    1. Frelsi til að láta í té þjónustu.
    2. Afnám hindrana í vegi frjálsrar samkeppni.
    3. Afnámi ríkisstyrkja, eflingu öryggis- og mengunarvarna.
    Og svo koma hér áfram 4. og 5. atriði. Ég vil dvelja nokkuð við 3. atriðið, afnám ríkisstyrkja í flutningamálum.
    Hér á landi höfum við haft styrki í flutningamálum og þá sérstaklega fyrir ferjur og flóabáta. Opinber stuðningur verið viðurkenndur sem framlag til þeirra á þeim grundvelli að þarna væri um að ræða þjóðveg viðkomandi íbúa og í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár eru rúmar 300 millj. ætlaðar til stuðnings við ferjur, flóabáta og slíkar samgöngur og því vil ég spyrja hæstv. samgrh.: Hvernig verður farið með málefni ferja og flóabáta á hinu Evrópska efnahagssvæði? Verða þeir styrkir algerlega afnumdir og hvað mun þá koma í staðinn?
    Það er deginum ljósara að samkeppnisreglurnar eiga að gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði í sambandi við samgöngur og flutninga en það er spurning í sambandi við 8. gr., um veitinga- og gististaði, þar sem ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins skulu frá og með gildistöku samningsins vera undanþegnir skilyrði um heimilisfesti samkvæmt nánari ákvæðum. Geta þá allir komið og öðlast leyfi til

að stunda hér veitinga- og gistisölu? Nú hefur ríkið að nokkru leyti staðið í slíkum rekstri eða átt vissan þátt í slíkum rekstri, t.d. með því að lána skóla undir slíkan rekstur. Getum við hugsað okkur að erlendir ríkisborgarar geti komið hingað og fengið t.d. lánaðan skóla og sett upp veitinga- og gististaði yfir sumarið? Sama gildir um skilyrði fyrir rekstri ferðaskrifstofu. Þar kemur einnig inn að ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins verða undanþegnir skilyrðum um ríkisfang og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort nokkur úttekt hafi farið fram á því hvort skilyrði íslenskra ferðaskrifstofa eru þannig að þær séu samkeppnisfærar við erlenda aðila.
    Samkvæmt þessum samningi, sem við ræðum hér um, verður okkur skylt samkvæmt lögum um skráningu skipa að heimila skráningu skipa sem hafa fullnægt skilyrðum um skráningu í sínu heimalandi ef það er innan EES-svæðisins. Jafnvel þótt við séum með strangari reglur í dag getum við ekki neitað að skrá erlend skip ef þau fullnægja reglum í sínu heimalandi. Jafnvel þótt þær reglur séu hvorki jafngóðar eða þær sömu og við höfum hér landi sem við teljum nauðsynlegar til að hafa öryggið í lagi.
    Í frv. er frekar óaðgengilegt að afla sér upplýsinga um hvað raunverulega er verið að gera. Setja á reglugerðir um öll þessi atriði. Í athugasemdum er vitnað til þess að þetta sé í XIII. viðauka EES-samningsins, hann fjalli t.d. um flutningastarfsemi. Þegar maður fer að skoða þennan XIII. viðauka eru reglurnar sem skoða á skilgreindar þannig: Það er 55. gr. EB sem þýðir sama sem 32. gr. EES. 56. gr. EB sem er sama sem 33. gr. EES, 57. gr. EB sem er sama sem 30. gr. EES, 58. gr. EB sama sem 34. gr. EES, 77. gr. EB sama sem 49. gr. EES --- og ég er aðeins hálfnuð að lesa upp fyrsta kaflann af þeim greinum sem taldar eru upp. Ég ætla ekki að þreyta þingheim á að lesa þetta allt saman en svona eru útskýringarnar sem fylgja þegar farið er að lesa í XIII. viðauka um flutningastarfsemi sem vísað er í í þessu frv. til skýringar.
    Í athugasemdum við 7. gr. er talað um samstarf sérfræðinga EFTA-ríkjanna í sérstakri nefnd um samgöngumannvirki líkt og Evrópubandalagið kom á fót með sérfræðingum frá aðildarríkjum þess með ákvörðun ráðsins sem hér er tiltekið. Um þetta á að veita samgrh. heimild að setja í reglugerð. Ég vil spyrja hæstv. samgrh.: Er það meiningin að hér eftir eigi það að vera samstarfsnefnd sérfræðinga innan EES-svæðisins sem á að fjalla um samgöngumannvirki á Íslandi? Það væri hægt að spyrja um ýmislegt fleira. ( Samgrh.: Ég náði ekki spurningunni.) Kveðið er á um samstarf sérfræðinga EFTA-ríkjanna í sérstakri nefnd um samgöngumannvirki, það er sem sagt heimild fyrir samgrh. til þess að setja það í reglugerð. Það er vísað til þessa í athugasemdum um 7. gr. svo ég spyr hvort meiningin sé að fjalla eigi um samgöngumannvirki hér á Íslandi í sérstakri sérfræðinganefnd EFTA-ríkja.
    Ég hef farið að nokkru leyti yfir þetta frv. sem, eins og ég sagði í upphafi, er ekki mikið á að græða þar sem það gengur að öllu leyti út á að afnema þau ákvæði sem í þessum lögum hafa verið um ríkisfang og búsetu og gefa samgrh. heimild til að setja reglugerðir. Ég mun að sjálfsögðu skoða þetta nánar í hv. samgn. en ætla ekki að taka meira fyrir að svo stöddu.