Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 11:35:20 (866)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er erfitt að veita andsvar við ræðu hæstv. ráðherra. Hann er að ræða allt annað mál en er á dagskrá og ég geri ekki að umtalsefni nema frv. sem hér er. En hvað með það, hann flutti nánast sömu ræðu og hann gerði við annað dagskrármál, 29. mál þingsins og langt er síðan við ræddum um, en hann segir að það séu fyrst og fremst stjórnarandstæðingar sem haldi því fram að um valdaframsal sé að ræða. Það er alls ekki rétt. Þetta hefur komið fram í öllum þeim lögfræðilegu greinargerðum sem við höfum fengið. Það leikur því enginn vafi á því. Spurningin er hvort það standist stjórnarskrána eða ekki og þar eru menn ekki algerlega sammála þó að flest bendi til að svo sé ekki. Það er einmitt meginbreytingin frá því fyrir síðustu kosningar, af því að hæstv. ráðherra taldi að ekki væri nein breyting á málinu frá því þá. Það er ljóst að nýjar upplýsingar varðandi stjórnarskrárþáttinn eru komnar fram sem breytir málinu mjög mikið fyrir okkur á Alþingi.
    Ekkert mál má brjóta í bága við stjórnarskrána hver svo sem efnisleg afstaða okkar er til málsins. Það er aðalatriðið. Þar sem miklar líkur eru á að svo sé þá hefur málið breyst mjög mikið.
    Mig langar líka til að minnast á það sem hæstv. ráðherra sagði, að hann teldi að ef hægt væri að flytja hvaða mál sem væri fyrir þjóðina mundi stöðugt vera þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég bendi á að í dönsku stjórnarskránni er þetta ákvæði nákvæmlega eins þ.e. að einn þriðji hluti þingmanna getur óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um hvaða mál sem er. Það hefur ekki vafist fyrir Dönum að hafa þetta ákvæði í stjórnarskrá sinni og hefur ekki valdið neinum glundroða þar og ég tel ekki að það mundi gera það heldur hér á landi.