Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 11:40:53 (869)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Því miður er það svo að ég gaf ekki neina sögulega yfirlýsingu áðan. Auðvitað er skemmtilegt að geta gefið mjög stórkostlegar, sögulegar yfirlýsingar, en ég gerði það ekki. Ég vakti athygli á þeim þætti sem liggur augljós fyrir, að þingmenn sem hafa gögn fyrir framan sig bæði fullyrðingar lærðustu lögfræðinga um að hér sé ekki um atriði að ræða sem stangast á við stjórnarskrána, og að vísu fullyrðingar annarra lögmanna um hið gagnstæða, og gera upp við sig að atriði stangist ekki á við stjórnarskrá, jafnvel þó einhver tiltekin atriði yrðu síðar meir dæmd af Hæstarétti að standist ekki stjórnarskrá, sem ég tel engar líkur á, þá hefðu menn brotið eiðstaf sinn. Það er fjarri lagi. Lögfræðingar, lögfræðiprófessorar, hafa haldið því fram að tiltekin ákvæði varðandi búfjárræktarlög eða búnaðarlög og reyndar fiskveiðistjórnun stangist á við stjórnarskrá jafnvel þó svo að í einstökum atriðum yrði þannig dæmt. Ætla menn að halda því fram að þeir hv. þm. sem hafa afgreitt slík lög hafi brotið eiðstafi sína á þinginu? Auðvitað er það fráleitt. Menn gera þetta upp við sig eftir sinni bestu samvisku. Og sem betur fer hafa menn mjög þýðingarmikil gögn til þess, m.a. gögn þar sem fræðilegt álit virtustu fræðimanna landsins í þessum efnum liggur fyrir. Það er því fráleitt að halda því fram, eins og hv. 10. þm. Reykv. gerði, að með þeim hætti hefðu menn brotið gegn þeim eiðstaf sem þeir undirrituðu. Það er einnig augljóst, eins og ég sagði áðan, að þó þannig yrði dæmt, sem ég tel engar líkur á, að tiltekin afmörkuð atriði sem menn hafa reynt að teygja svo að gætu fallið undir það að um dómsmál yrði að ræða, mundu brjóta í bága við stjórnarskrá þá væri það aðeins það sérstaka atriði sem þar hefði komið til álita. Samningsaðilarnir, viðsemjendur okkar, yrðu síðan að gera upp við sig hvort við höfum ekki uppfyllt okkar samningslegu skyldur og með hvaða hætti ætti að bregðast við.