Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 15:15:40 (926)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Þótt umræðan hafi farið út um víðan völl megum við ekki gleyma því hver er kjarni þessarar umræðu. Það er hvort íslensku þjóðinni gefist kostur á að segja álit sitt á þeim mjög svo mikilvæga samningi sem nú er til umfjöllunar hér á Alþingi og ætlunin er að afgreiða fyrir áramót.
    Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði sé eitt mikilvægasta mál sem Alþingi hefur fengist við á lýðveldistímanum og hafa þau þó mörg verið stór og alvarleg. Því var haldið fram fyrr í dag að í rauninni væri þjóðin búin að segja álit sitt á þessu máli, þetta hafi verið til umræðu í síðustu kosningum og fólki hafi þar með gefist kostur á að segja hug sinn með því að greiða ákveðnum flokkum atkvæði. Þessari skoðun er ég gjörsamlega ósammála. Ég kannast ekki við það að EES-málið hafi verið meginmál síðustu kosninga. Það var reyndar mikið rætt um það hvort ýmsir stefndu beint að aðild að EB en samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði var alls ekki á því stigi að ljóst væri hvert stefnt yrði með honum. Samningurinn er ekki einu sinni tilbúinn enn þá. Sjávarútvegssamningurinn liggur ekki fyrir. Enn höfum við því ekki fengið þá heildarmynd af þessu máli sem við þurfum á að halda. Þar af leiðandi er það alrangt að þjóðin hafi fengið tækifæri til að segja álit sitt á samningnum. Ég er gjörsamlega ósammála þeirri skoðun. Ég dreg því þá ályktun að sú ríkisstjórn sem nú situr hafi ekkert umboð frá þjóðinni til þess að ganga frá þessum samningi og það er einungis lýðræðislegt að þetta stóra og mikilvæga mál verði borið undir þjóðina. Það hlýtur að vera eðlileg krafa að það verði gert.
    Í 1. umr. um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði kom utanrrh. nokkuð inn á spurninguna um þjóðaratkvæði og vitnaði þá til skrifa Bjarna heitins Benediktssonar sem var þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðslum hætti við að horfa mjög í íhaldsátt og þar af leiðandi væri það nokkuð sem ekki bæri að iðka hér á landi. Ég tel að þessi skoðun fyrrv. forsrh. hafi lítt sýnt sig hér á landi enda dæmi um þjóðaratkvæðagreiðslu afar fá. Það hversu fáar þjóðaratkvæðagreiðslur hafa verið hér sýnir kannski miklu frekar slaka og ólýðræðislega stjórnarhætti en hitt að af þeim stafi einhver hætta eða þeim eigi ekki að beita. Það er lýðræðislegt að bera stórmál undir þjóðina og þeim ætti að fjölga hér á landi fremur en að beita þeim rökum sem fram hafa komið í þessari umræðu, þ.e. að segja þjóðina illa upplýsta og ekki um það færa að taka afstöðu í þessu máli. Alþingi fær umboð sitt frá þjóðinni og menn mega ekki líta svo á að á milli kosninga hafi Alþingi umboð til þess að gera nánast hvað sem er.

    Það er ljóst að verði þessi tillaga samþykkt, sem ég vona að verði, þá þarf að fara fram mikil kynning á þessu máli og mikil umræða. Það er auðvitað ábyrgðarhluti ef raunin er sú, sem skoðanakönnun utanrn. leiddi í ljós, að þekking almennings á þessu máli sé jafnlítil og raun ber vitni. Ég hef reyndar minnst á það áður úr þessum ræðustóli að ég tel í rauninni enga furðu á því að fólk skuli ekki hamast við að kynna sér þetta mál því flestir þykjast vita að þeim verði ekki gefinn kostur á að greiða atkvæði um það þrátt fyrir mikinn vilja til þess eins og fram hefur komið í öðrum könnunum.
    Virðulegi forseti. Ég legg enn og aftur áherslu á það að í mínum huga snýst þessi spurning um það að þjóðin fái að segja álit sitt. Hún snýst um lýðræði og um það að Alþingi fái umboð frá þjóðinni til þess að samþykkja eða hafna þessum samningi um hið Evrópska efnhagssvæði. Þó menn vísi til þess að það séu ekki miklar hefðir hér á landi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu má breyta því. Það á að sýna íslenskum almenningi þá virðingu að gefa honum kost á að láta vilja sinn í ljós með atkvæðagreiðslu.