Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 18:24:17 (960)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Fyrst um samninga við stjórnarandstöðuna. Jú, vissulega ræddu menn það í ríkisstjórninni. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það er stundum auðvelt að semja við stjórnarandstöðuna. En það er einu sinni þannig að við höfum margfalda reynslu fyrir því að formenn þingflokka, ekki einungis stjórnarandstöðunnar heldur stjórnarflokkanna á hverjum tíma, hafa ekki og hafa ekki getað bundið einstaka þingmenn í málum. Þess vegna m.a., ekki eingöngu, var ekki á þetta reynt. Og loks í enn eitt skiptið vegna lögskýringargagna um það hvort bráðabirgðalagarétturinn sé fyrir hendi og formlegu skilyrðin séu óbreytt þá vil ég enn á ný lesa það sem kemur fram á þskj. 556 á þeim tíma sem var verið að breyta stjórnarskránni. Þar segir um 5. gr., sem reyndar varð nú síðar 6. gr., og er brtt. um 28. gr. stjórnarskrárinnar. Ég ætla að lesa

þetta orðrétt, með leyfi forseta: ,,Orðin ,,milli þinga`` falla brott og í staðinn koma orðin ,,þegar Alþingi er ekki að störfum``. Með því er átt við þann tíma þegar þingi er frestað eða frá því að umboð þess fellur niður og þar til nýtt þing kemur saman. Hér er því ekki um að ræða breytingu á þeim skilyrðum sem verið hafa fyrir útgáfu bráðabirgðalaga.`` Og ég bæti við sjálfur: Þvert á móti var þessi breyting gerð til að tryggja það að ríkisstjórnir hefðu áfram bráðabirgðalagaréttinn vegna þess að ef stjórnarskrárákvæðið hefði verið óbreytt þá hefði rétturinn fallið niður af sjálfu sér því að það er ekkert lengur sem heitir á milli þinga í dag í íslenskum lögum.