Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 20:48:25 (980)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er sérstaklega tekið fram varðandi forúrskurði í áliti þeirra fjögurra lögfræðinga er hæstv. utanrrh. kvaddi sér til ráðuneytis um það hvort samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið bryti í bága við stjórnarskrá, svo ég vitni orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Ef til þess kemur hins vegar að ákvörðun verði tekin um að leita slíkra forúrskurða þarf að setja heimild til þess í íslensk lög. Er ekki ástæða til þess að við tökum nú afstöðu til þess hvort stjórnarskrárbreyting sé þá nauðsynleg vegna þessa atriðis.``
    Með öðrum orðum, þeir hafa velt því atriði fyrir sér hvort lagabreyting, sem hefur það í för með sér sem það frv. hefur sem nú á að fara að ræða, kalli á stjórnarskrárbreytingu. Þeir svara því ekki en vekja athygli á málinu sem að mínu mati er vísbending um að það er efi í huga þessara fjögurra lögfræðinga um það hvort þetta frv. standist stjórnarskrá. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi af þessu gefna tilefni látið kanna það hvort svo mundi vera í þessu tilviki.