Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 21:43:12 (996)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sú ræða, sem hér var flutt áðan, kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart þar sem við höfum þegar rætt á þessum nótum nokkuð innan allshn. en ég held ég verði engu að síður að vekja athygli á því að ég tel að skriflegar álitsgerðir, um túlkun á flóknum milliríkjasamningi þar sem túlkunaraðili er fastur og formlegur og alltaf er hægt að leita til, séu eilítið meira heldur en lögskýringar og annað það í þeirri upptalningu sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Þarna sé e.t.v. um mun að ræða sem hægt er að túlka allt frá blæbrigðum og upp í grundvallarmun og um það munum við áreiðanlega þurfa að ræða meira innan allshn. Ég er ekki tilbúin hér og nú til þess að rekja þau dæmi þar sem lögskýringar, erlend lög og eitt og annað slíkt, milliríkjasamningar, hefðir og fleira hafa haft áhrif. Ég efast ekki um að þau áhrif eru fyrir hendi en hér er kominn fastur farvegur og þar held ég að hljóti að vera ákveðin eðlisbreyting. En ég held að það mál verði fremur rætt og krufið til mergjar innan nefndar heldur en héðan úr ræðustól.