Upplýsingamiðlun og aðgangur að upplýsingum um umhverfismál

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 17:52:12 (1074)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristín Einarsdóttir hefur misskilið mitt mál. Ég var eingöngu að segja að samstarf þjóðanna verður að koma til. Ef við ætlum að ná árangri í umhverfismálum verða að gilda samræmdar reglur. Þess vegna væri það gagnslaust að setja einhverjar sérstakar og miklu strangari reglur t.d. um útblástur og mengun andrúmslofts hér en annars staðar ef ekki er gert neitt annars staðar og ef menn vaða þar fram og fara sínu fram. Ég veit að hv. þm. skilur þetta þótt hún kjósi að misskilja það með þessum hætti. Við náum ekki árangri nema með samvinnu þjóðanna og með samræmdum reglum. Auðvitað er æskilegt að þær reglur gangi sem lengst og séu sem strangastar. En forsenda þess að árangur náist er samstarf þjóðanna. Það hlýtur hv. þm. að skilja og ég vona að hún viðurkenni það.