Eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 14:23:56 (1120)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kýs að nota andsvarsformið til að fylgja eftir spurningu minni hér áðan til hæstv. landbrh. Hún fjallaði ekkert um þær reglur sem væru í gildi um innflutning á kjöti. Hún fjallaði einfaldlega um það hvort við gætum sett þær reglur um fóðurframleiðslu og það fóður sem notað væri í landinu sem við þyrftum til þess að framfylgja ákvæðum um ómengaða framleiðslu. Hormónar eru notaðir orðið víða við kjötframleiðslu, reyndar við mjólkurframleiðslu líka. Við höfum ekki gert það. Og að mínu mati eigum við að standa mjög fast á því að það verði ekki gert hér á landi. Í því að við gerum það felast að

mínu mati þeir möguleikar sem við kunnum að eiga í framtíðinni á útflutningi á landbúnaðarvörum. Það er ekki á annan hátt en það verði sérmerkt ómenguð hollustuvara.
    Í öðru lagi það sem hæstv. ráðherra sagði að þingmenn virtust ekki skilja eða vita að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði fjallaði um frjáls viðskipti með vörur. Það veit ég í það minnsta ósköp vel en ég veit líka, hæstv. landbrh., að sá samningur fjallar ekki sem heild um okkar helstu viðskiptavörur. Sjávarfangið er utan samningsins. Það eru sérsamningar okkar sem verða að tryggja okkar hagsmuni þar. Sömuleiðis er landbúnaðurinn ekki inni í heildarpakkanum nema hvað varðar einstaka þætti sem er þó í formi tvíhliða samninga einstakra ríkja eða EFTA við EB svo ég upplýsi ráðherrann aðeins um það að við þingmenn erum kannski ekki alveg eins fáfróðir um þessi mál og hann vildi vera láta áðan.