Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:17:08 (1139)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Mér þykja þingstörfin vera orðin næsta undarleg. Það er að vísu mikill skaði að hæstv. utanrrh. skuli ekki vera í salnum og sakna ég þess út af fyrir sig. Nú er ég ekki að draga það í efa að hæstv. viðskrh. viti jafnmikið og vilji jafn vel og hæstv. utanrrh. en það er bara verksvið utanrrh. að mæla fyrir þessu frv., svo burðugt sem það er.
    Nú vill svo til að hæstv. utanrrh. hefur samkvæmt því sem ég hef kynnt mér á skrifstofu Alþingis ekki fjarvistarleyfi frá þessum þingfundi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef réttastar þá er hann staddur á landinu þannig að hæstv. viðskrh. getur með engu móti verið starfandi utanrrh. í dag. Þá er svo komið fyrir þeim eins og Bakkabræðrum forðum þegar þeir voru hættir að þekkja í sundur á sér lappirnar. Hér kemur hæstv. viðskrh. og mælir fyrir máli sem hæstv. utanrrh. á að mæla fyrir og er ekki starfandi utanrrh. Þetta væri með svipuðum hætti ef frú forseti Alþingis tæki sér fyrir hendur allt í einu, af því hún er stundum einn af handhöfum forsetavalds, að koma fram fyrir hönd forseta Íslands og forseti Íslands væri staddur í landinu. Ég ætla bara að biðja menn að gá að því hvað þeir eru að gera. Ég veit að frú forseta dytti það aldrei í hug að fara með þeim hætti út fyrir valdssvið sitt að hún færi að blanda sér í störf forseta Íslands ótilkvödd og án heimilda þannig að mér þykir vera komið nokkuð los á þingstörfin í þessu efni.
    Ég ætla ekki að ræða þetta frv. í smáatriðum efnislega. Ef utanrrn. fæst ekki til þess að leggja fram

nýtt frv. sem er fyllra, skýrara og skynsamlegra en þetta plagg sem við höfum fyrir okkur á þskj. 42, 41. mál þingsins, þá verður auðvitað utanrmn. að leggja vinnu í að umskrifa frv. og koma því í boðlegan búning. Ég hlýt að taka þátt í þeirri vinnu eins og aðrir utanríkismálanefndarmenn.
    Þetta er allt annað frv. en flutt var á 113. löggjafarþingi og var það þó ekki fullkomið. Í þessu frv. er verið að fella átta lög úr gildi á einu bretti samkvæmt 3. gr. frv. Í athugasemdum eru hins vegar talin upp 15 lög sem sett hafa verið um hliðstæð efni. Mér er ekki ljóst hvers vegna þessi átta lög voru valin til að fella úr gildi en ekki hin sjö sem virðast eiga að gilda áfram, t.d. lög um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, nr. 110/1951. Það var einhvern veginn ekki með í þessari upptalningu sem felld er úr gildi og falin reglugerðarvaldi ráðherra. Ég er út af fyrir sig feginn því að þarna hafi farið eins og með Gunnarshólma, eins og skáldið sagði: ,,En lágum hlífir hulinn verndarkraftur``.
    Ráðherra er gefið reglugerðarvald takmarkalaust, ekki bara einum heldur hvaða ráðherra sem er. Hvaða ráðherra sem er virðist samkvæmt þessu frv., í þeim búningi sem það er nú, geta tekið sér fyrir hendur að setja reglugerð um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana og fer að minnka undir hæstv. utanrrh. þegar svo er komið að ekki bara hæstv. viðskrh. getur ruðst hér upp í ræðustólinn og þóst vera utanrrh. um stund heldur getur bara hvaða ráðherra sem er komið og tekið fram fyrir hendurnar á hæstv. utanrrh. og er skaði að hæstv. utanrrh. skuli vera fjær því það væri búið, ef svo fer fram sem horfir, að steypa undan honum áður en vikan er úti.
    Hæstv. viðskrh. talaði um að það væri til þess að greiða fyrir þingstörfum að færa lagasetningarvaldið upp í ráðuneytin og gera það að reglugerðarvaldi. Hann talaði fjálglega um að það væri verið að létta af þinginu störfum. Það er að vísu rétt en það er líka verið að sniðganga þingið. Það er verið að fara með þingið eins og hæstv. utanrrh. Það er verið að taka af því verkefni sem það á að gegna. Og þó það sé góðra gjalda vert að létta af hæstv. utanrrh. störfum sem hann á að gegna þá getur það orkað tvímælis og er ekki til fyrirmyndar um góða stjórnarhætti.
    Það er auðvitað árátta hjá þessari ríkisstjórn að reyna að sniðganga Alþingi. Þeir þora ekki að koma og standa fyrir máli sínu. Þeir ruku til í sumar og settu bráðabirgðalög um Kjaradóm þar sem var náttúrlega alveg einboðið að kalla Alþingi saman og fá þessa löggjöf afgreidda með formlegum hætti og þeir höfðu um Alþingi óvirðuleg orð í því sambandi að það mundi bara verða töf af því að láta löggjafarsamkomuna standa í því að setja lög. Þeir gera það bara sjálfir með tilskipun.
    Ég vil hins vegar ekki taka undir þær aðfinnslur sem hér komu fram hjá hv. 7. og hv. 8. þm. Reykn. að starfsmaður ráðuneytis hafi verið á slangri um salinn hvað eftir annað til þess að segja hæstv. viðskrh. hvað hann ætti að segja í rullu sinni sem utanrrh., þessa sjálfskipuðu utanríkisráðherrarullu. Það að vísu verður nokkurt los í þingsalnum með svona tímabundinni fjölgun ,,þingmanna`` en líklegra er þó að skynsamleg svör komi úr munni viðkomandi ráðherra ef embættismenn ráðuneytanna hafa nægjanlega greiðan aðgang til þess að koma og segja þeim hvað þeir eigi að segja hér í ræðustól. Ég tel að það hefði verið miklu líklegra að skynsamlegar útskýringar hefðu komið frá hæstv. landbrh. um síðasta dagskrármál ef starfsmenn ráðuneytanna hefðu staðið hringinn í kringum hans og sagt honum t.d. hvað stóra C merkti sem stóð í honum ásamt með öðru og ég tel að það sé mjög heppilegt að ráðherrar hafi hugmynd um um hvað þau frv. fjalla sem þeir eru að mæla fyrir. ( Forseti: Forseti vill aðeins trufla hv. þm. í ræðu sinni og benda honum á að klukkan hálffjögur eiga að fara fram utandagskrárumræður sem höfðu verið tilkynntar og vildi því beina því til hv. þm. ef hann lýkur ekki ræðu sinni að þá mundi hann fresta henni.)
    Frú forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Ég átti ekki eftir nema þessar tvær mínútur sem tiltækar eru og tæplega það. Ég býð út af fyrir sig velkomna starfsmenn ráðuneytanna hér í þingsalinn en ég tel hins vegar að frú forseti ætti að reyna að finna form á því að þau fjarskipti gætu gengið fyrir sig með hljóðlegum hætti því ég sé það fyrir mér, ef svo fer fram sem horfir og núverandi ríkisstjórn nær markmiðum sínum, að hér fyllist allt af mönnum frá Brussel talandi frönsku eða eitthvað sem þingheimur á erfitt með að skilja og segjandi ráðherrunum hvað þeir eiga að segja í ræðustól.