Embætti dýralæknis á sunnanverðum Vestfjörðum

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 10:51:50 (1167)

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. Þau voru greinargóð. Ég vil ítreka að hreppsnefnd Patrekshrepps, heilbrigðisnefnd Barðastrandarsýslu og héraðsnefnd Barðstrendinga hafa allar sent frá sér erindi þar sem þetta er ítrekað og óskað úrlausnar í þessum málum. Þá hafa einnig 400 einstaklingar á þessu svæði undirritað áskorun um það að dýralæknisembættið sé setið.
    Það að þarna er, eins og annars staðar á landinu, minnkandi framleiðsla á landbúnaðarvörum er að sjálfsögðu alveg rétt hjá hæstv. landbrh. en ég tel þó að það sé ekki nægilegur rökstuðningur fyrir því að ekkert frekar verði aðhafst í þessum málum. Laxeldi er vaxandi atvinnugrein í Tálknafirði. Það er farið að ganga nokkuð vel og virðist ætla að skila af sér talsverðum arði á næsta ári og næstu árum. Þar að auki hef ég ekki heyrt um að bændur þarna séu almennt að hætta búskap en þeir verða að sjálfsögðu að taka á sig þá skerðingu sem er þessi missirin.

    Ég vona því að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að þetta dýralæknisembætti verði setið og meðan svo er ekki sé það skipulagt með hvaða hætti bændur fái þá þjónustu sem þeir eiga heimtingu á samkvæmt lögum. Má í því sambandi benda á að bæði er héraðsdýralæknir á Ísafirði og líka er hægt að fá dýralækni frá Stykkishólmi tímabundið eða skipuleggja ferðir hans og nýta þá til þess fastar ferðir með Baldri.