Jöfnunartollur á skipasmíðaverkefni

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 16:36:03 (1224)

     Flm. (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þessi tillaga hefur fengið hér. Ég kemst þó ekki hjá að lýsa því yfir að mér eru það nokkur vonbrigði hvernig hæstv. iðnrh. talar. Mér finnst eins og maður geti ekki verið bjartsýnn á að það gerist eitthvað alveg á næstunni. Það er jú búið að skipa starfshóp og sjálfsagt er í honum ágætis fólk. Ég efast ekki um það. Hann á að skoða hvort þetta eða hitt sé ólögmætt og annað því um líkt. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að við getum og megum setja á jöfnunartolla. Það er heimild til þess í tollalögum og ég vil andmæla því sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði að ekki sé hægt að beita þessum tollum gagnvart Pólverjum vegna þess að tollalögin leyfa, ef um það er að ræða að vara sé seld undir framleiðslukostnaðarverði að viðbættri eðlilegri þóknun, að lagðir séu á slíkir tollar. Ég ætla ekki að halda því fram að menn eigi að hafa þá svo háa að t.d. á pólsk verkefni verði lagðir tollar sem svari 40% eða eitthvað slíkt eins og kom fram í máli hv. 5. þm. Vesturl. að gæti verið mismunurinn á sumum verkefnunum.
    Ég held að menn komi til með að velja íslensk verkefni frekar en erlend þó það kosti stundum meira. Og ég er sannfærður um að íslensk fyrirtæki munu frekar fá verkefni en pólsk þó það muni einhverju á tilboðunum. Einfaldlega vegna þess að það er verið að kaupa betra handverk oft á tíðum. Það vita allir. Það vita menn líka að nýju skipin, t.d. fullvinnsluskip og önnur sem hafa verið að koma til landsins, hafa ekki verið smíðuð í Póllandi. Þau hafa verið smíðuð í Noregi. Það er því ekki rétt sem hæstv. iðnrh. sagði að það sé vegna þess að einhver láglaunasvæði séu að keppa við okkur, ekki í þeim tilfellum.
    Auðvitað er samkeppninn við Pólland erfið. En ég tel ekki að menn eigi að gefast upp og skoða þetta og skoða árum saman og endalaust. Ef menn ætla að smíða skip geta þeir ekki legið yfir teikningunum í fjöldamörg ár. Þeir sem vilja fá skipin til að róa á þeim róa ekki á einhverjum teikningum. Mér finnst eins og hæstv. iðnrh. ætli að vera að teikna þetta skip ótrúlega lengi. Ég held að tími sé kominn til að fara a.m.k. að koma því á bandaplanið. ( Gripið fram í: Leggja kjölinn.) Já, og helst þyrfti að leggja kjölinn og það strax á morgun. Vegna þess að ekki er eftir neinu að bíða og við höfum ekki langan tíma til að koma í veg fyrir að það verði enn þá meiri skaði heldur en orðinn er. Hann er orðinn mjög mikill.
    Ég hamra á þessu vegna þess að ég held að menn hafi ekki áttað sig á því eða skilið hvað við höfum orðið fyrir miklum skaða í mannskap sem hefur hrökklast út úr þessari atvinnugrein sem hefur lært til þessara verka og er horfið til annarra starfa.
    Hæstv. iðnrh. mótmælti því sem ég sagði að íslenskur iðnaður hefði verið að skreppa saman. Það hafa komið fréttir alveg síðustu daga um að verulegur samdráttur síðustu þrjú árin. Ég vil vitna í ályktun 58. ársþings Félags ísl. iðnrekenda frá 11. mars. Hvað stendur í þeirri ályktun, með leyfi forseta?
    ,,Ekki hefur tekist að efla almennan útflutningsiðnað. Hlutur hans í heildarútflutningi er svipaður og hann var fyrir 20 árum og síðustu fjögur árin hefur ríkt nær algjör stöðvun í þjóðfélaginu.``

    Þetta er frá því í vor. Þarna er álit Félags ísl. iðnrekenda. Ég efast ekki um að þessir menn trúa því sem þeir hafa sett á blað. Ég veit líka að það er rétt. Enda held ég að það þurfi ekki að þræta um það því það þekkir hver einasti Íslendingur og veit að ekki hefur verið uppgangur í íslenskum iðnaði á undanförnum árum, nema síður væri.
    Mig langar að segja til viðbótar: Ég tel að meðferð stjórnvalda á málefnum íslensks skipaiðnaðar sé prófsteinninn á skilning stjórnvalda á málefnum iðnaðarins yfirleitt og möguleikum Íslendinga til þess að hafa hér öflugan iðnað. Þarna eru langstærstu iðnaðartækifæri sem við höfum á heimamarkaði og ef við getum ekki nýtt okkur heimamarkaðinn hvernig dettur þá nokkrum lifandi manni í hug að við getum nýtt okkur erlenda markaði? Það er þetta sem ég held að menn verði að fara að skilja að ef landið er þannig vanbúið í samkeppni um iðnaðartækifæri að það getur ekki keppt við erlendan innflutning á sínum stærsta heimamarkaði þá mun það aldrei geta keppt við innflutning á öðrum iðnvarningi eða keppt með útflutningi við iðnvarning sem er framleiddur annars staðar. Það er þetta sem ég held að menn verði að skilja og koma inn í höfuðið á sér. Forráðamenn íslensks iðnaðar þurfa að koma þessu inn í höfuðið á sér.