Hækkun meðlags til einstæðra foreldra

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 14:02:48 (1279)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og ég sagðir áðan er það ekki í valdi heilbrrh. að úrskurða um fjárhæð meðlagsgreiðslna. Það sem heilbrrh. gæti beitt sér fyrir er að breyta fjárhæð barnalífeyris sem er lágmark þess sem úrskurða má sem meðlagsgreiðslur. Barnalífeyrismál eru í skoðun í heilbrrn. í framhaldi af niðurstöðu sérstakrar nefndar sem fjallaði um þessi mál. Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þm. að það er ekki eðlilegt að efnað foreldri geti með hjónaskilnaði komið sér hjá því að taka eðlilegan þátt í framfærslukostnaði barna.
    Þessi ákvörðun er hins vegar í valdi sýslumanns. Hann getur úrskurðað samkvæmt gildandi lögum þá meðlagsgreiðslu sem hann telur eðlilega miðað við framfærslukostnað og miðað við fjárhagsgetu þess foreldris sem meðlagið á að greiða. Það er ekkert í lögum sem kemur í veg fyrir það. Hins vegar hafa þeir sem um þessi mál hafa fjallað hingað til af einhverjum ástæðum ekki gert slíkt nema í algerum undantekningatilvikum. Heilbrrn. mun beita sér fyrir að kynna fólki rétt sinn til að fara fram á hærri meðlagsúrskurð en nemur barnalífeyri og mun ítreka ósk um að sýslumenn skoði þau mál við úrskurð á meðlagsgreiðslum.