Kristnesspítali

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 15:55:02 (1323)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt gildandi heilbrigðismálaáætlun sem var samþykkt sem þál. að ég hygg 1990 er gert ráð fyrir því að byggja upp sérhæfða endurhæfingu á tveimur stöðum á landinu, annars vegar á Reykjavíkursvæðinu og hins vegar í Eyjafirði eða á Akureyri eins og það er víst orðað. Jafnframt er rætt um í þeirri áætlun að byggja upp öldrunarlækningadeildir á tveimur stöðum, í Reykjavík og á Akureyri. Um þessa stefnu hefur verið full samstaða og víðtæk allra stofnana og ráða sem að þessu máli hafa komið.
    Nú er það ljóst að það er verið að byggja upp endurhæfingaraðstöðu á höfuðborgarsvæðinu í víðri merkingu þess orðs og er ég þá að ræða um þau 100 virk endurhæfingarrúm sem eru tekin yfir af ríkinu í Hveragerði, en auk þess þær hugmyndir um breytingar á starfsemi Kópavogshælisins sem flestum er kunnugt um.
    Það er rétt að þegar hugmyndir koma fram frá ráðuneytinu um endurskipulagningu á starfsemi Kristnesspítala og verulegan niðurskurð á fjárveitingum til þeirrar stofnunar verði spurt hvort þessar hugmyndir beri vott um efasemdir um að þörf sé fyrir endurhæfingarstarfsemi af þessu tagi á Norðurlandi. Einnig er rétt að spyrja hvort þörf sé fyrir uppbyggingu þessarar starfsemi fyrir norðan eða hvort ástandið þar leyfi samdrátt.
    Á biðlista á endurhæfingardeild Kristnesspítala voru í ágúst 1991 15 manns en ári síðar voru þeir 36. Ástæðan fyrir lélegri nýtingu endurhæfingardeildar Kristnesspítala er ekki skortur á verkefnum heldur skortur á stöðuheimildum. Ef nýting er ekki sem skyldi, eins og fram kom í máli ráðherrans áðan, og heilbrigðisyfirvöldum vex því í augum hlutfallslegur kostnaður á hvern sjúkling er hægt að minnka þann kostnað með því að nýta aðstöðuna betur í þágu þeirra verkefna sem bíða úrlausnar.
    Árið 1990 voru 38 rúm að meðaltali nýtt af Norðlendingum í þremur sjúkrastofnunum á Suðvesturlandi; á Reykjalundi, Grensásdeild og í Hveragerði.
    Ég vil geta þess að sá þingmaður sem hér stendur hefur gert fyrirvara við þann lið í fjárlagafrv. er varðar Kristnesspítala en er reiðubúinn til samstarfs til að finna farsæla lausn á þessu máli að því tilskildu að hún leiði til þess að styrkja þróun heilbrigðismála á Norðurlandi, tryggja starfsemi Kristnesspítala og framfylgja stefnu heilbrigðismálaáætlunar.