Kristnesspítali

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 16:05:35 (1327)

     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er engin nýlunda að málefni Kristnesspítala séu í nokkurri óvissu. Þannig hefur það verið um nokkurt skeið. Ég fagna því að nú skuli tekin til starfa nefnd sem kemur til með að gera tillögur um framtíð Kristnesspítala. Ég tel að það hafi verið Kristnesspítala nokkur fjötur um fót að vera undir stjórn Ríkisspítala sem situr í Reykjavík fjarri vettvangi. Slíkt tel ég almennt til baga án þess þó að kasta nokkurri rýrð á stjórn Ríkisspítala. Í mínum huga er þrennt sem upp úr stendur í þessu máli.
    Í fyrsta lagi þarf almennt að fara gætilega með almannafé. Í þessum orðum mínum liggja engar ásakanir í garð stjórnenda Kristnesspítala um að slíkt hafi ekki verið gert. Við höfum hins vegar dæmin allt í kringum okkur, bæði hér heima og í nágrannalöndunum, að aðhalds og gætni sé þörf. Það hefur að mínu mati verið um of algengt á hinu háa Alþingi að þingmenn kjördæma snúist til varnar ef starfsemi opinberra stofnana í eigin kjördæmum er tekin til athugunar og reynt að ná fram hagræðingu. Slíkt mun ég ekki gera því ekki er síður nauðsynlegt að slík athugun eigi sér stað í Norðurlandskjördæmi eystra en annars staðar í okkar ágæta landi.
    Í öðru lagi ber ríka nauðsyn til að mínu mati að endurhæfing fari fram úti á landsbyggðinni og ég efast ekki um að heilbrrh. mun veita því máli liðsinni eins og heilbrigðisráðherrar undanfarin ár hafa gert. Slík endurhæfingarstarfsemi á að sjálfsögðu að fara fram á Eyjafjarðarsvæðinu sem er fjölmennasta þéttbýlissvæðið utan höfuðborgarsvæðisins.
    Hvað endurhæfingarlækningar varðar vil ég vitna til sænsks öldrunarlæknis, Hans Thorstups frá Kalmar, sem skýrði frá því á þingi norrænna öldrunarlækna í Óðinsvéum í sumar sem leið að þeir í Kalmar hefðu sannreynt að markviss endurhæfing aldraðra skipti sköpum til að minnka kostnað við umönnun aldraðra. Því miður gefst hér ekki tími til að fara nánar út í það mál.
    Í þriðja lagi, virðulegi forseti, tel ég nauðsynlegt að nefndin sem er að vinna að því að marka framtíðarhlutverk Kristnesspítala vinni skjótt og skili niðurstöðum þannig að allir standi keikir eftir.