Kynning á ímynd Íslands erlendis

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 12:35:13 (1365)

     Flm. (Árni M. Mathiesen) :
    Herra forseti. Í þessari till. leggjum við flm. til að skipuð verði þriggja manna nefnd af hálfu forsrh. til þess að hafa frumkvæði að samræmingu á því hvernig ímynd Íslands er kynnt á erlendum vettvangi í samvinnu við hagsmunaaðila, að gerð verði fimm ára áætlun um kynningu á ímynd Íslands erlendis og að kostnaður við framkvæmd áætlunarinnar greiðist af hagsmunaaðilum og ríkissjóði samkvæmt því sem Alþingi ákveður í fjárlögum. Jafnframt leggjum við til að úttekt verði gerð á því hvernig aðstæður og aðgerðir innan lands samræmist þeirri ímynd landsins sem kynnt er erlendis.
    Við búum nú við alheimssamdrátt í efnahagslífi sem leitt hefur til mjög aukinnar og harðnandi samkeppni. Það verður til þess að þeir sem eru fyrir á mörkuðum verða að leggja meira á sig til þess að halda stöðu sinni með meiri kynningu og meiri auglýsingum. Jafnframt er það erfiðara fyrir þá sem koma vilja sínum vörum og sinni þjónustu á framfæri á nýjum mörkuðum að komast þar að og þurfa þeir að leggja í meiri kostnað vegna meiri kynningar en verið hefur á tímum þegar þensla hefur verið í efnahagslífi heimsins.
    Þetta leiðir til þess að við flm. teljum nauðsynlegt að auka kynningu Íslands erlendis. Þetta er mikilvægt vegna þess að fyrirtæki okkar sem flytja út vörur eða þjónustu þurfa á góðum bakstuðningi að halda til þess að halda sinni stöðu eða komast inn á markaðina. Hér á ég sérstaklega við ferðaþjónustu en ástandið í þeirri grein er þannig í dag að svipaður fjöldi ferðamanna hefur komið til landsins og fyrirtækin hafa svipaðar tekjur og á síðasta ári. Ástand sem þetta er ekki ásættanlegt í þeirri grein þar sem lagt hefur verið í miklar fjárfestingar á undanförnum árum. Það má orða það svo að í ferðaþjónustunni sé varan til, vara sem skapar okkur störf og tekjur en við þurfum einungis að koma henni á framfæri.
    Frændur okkar Írar hafa nýlega gert átak í þessum málum og settu þeir sér það mark að tvöfalda fjölda ferðamanna til eyjunnar grænu á árunum 1989--1992. Er skemmst frá því að segja að þeim tókst það ætlunarverk sitt.
    Sjávarútvegurinn, okkar undirstöðuatvinnugrein, býr við aðra stöðu. Það má frekar segja um þá grein en ferðaþjónustuna að skortur sé á vörunni, en greininni veitir ekki af stuðningi til þess að halda stöðu sinni á mörkuðum erlendis, halda verðinu og heldur styrkja hana frá því sem nú er. Jafnframt veitir ekki af hjálp til þess að sjávarútvegurinn geti nýtt sér þá stöðu sem samningur um Evrópskt efnahagssvæði mun væntanlega og vonandi veita okkur.
    Það er ekki síður mikilvægt að hjálpa til við það að skapa grundvöll undir nýjar greinar, t.d. í heilbrigðismálum og heilbrigðisþjónustu eins og unnið hefur verið að t.d. af hálfu Heilsufélagsins og af þeim sem standa að athugunum og rannsóknum á Bláa lóninu. Einnig ættum við að eiga möguleika á því að flytja út heilnæmar vörur, t.d. landbúnaðarvörur, dýraafurðir sem framleiddar eru án fúkkalyfja og hormóna og grænmetis úr ylrækt okkar sem framleitt er í ómenguðu umhverfi.
    Eins og málum er nú háttað eru það hinir ýmsu söluaðilar vöru og þjónustu sem kynna landið, svo sem Útflutningsráð, Ferðamálaráð, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Flugleiðir. Oftast fer meira rými og kostnaður í að kynna landið sjálft, kosti þess og sérstöðu en sjálfa vöruna eða þjónustuna sem verið er að veita. Það er því bæði eðlilegt og skynsamlegt að reyna að greina á milli hinnar almennu landkynningar sem á að koma öllum til góða sem nýtt geta sér stöðu lands og þjóðar og hinnar eiginlegu sölustarfsemi þar sem seld er tiltekin vara eða þjónusta. Það er því að mati flm. skynsamlegt að ríkið hafi meira frumkvæði og taki meiri þátt í hinni almennu landkynningu í samstarfi við hagsmunaaðila en láti fyrirtækjunum og einstaklingunum eftir frumkvæðið í hinni eiginlegu sölu.
    Hin almenna landkynning beinist að kynningu á legu landsins og umhverfi, menningu, menntun og möguleikum þjóðarinnar til þess að veita þjónustu og takast á við framleiðslu almennt. Helst þyrfti að leggja áherslu á að ná árangri í kynningu á hreinleika og gæðum umhverfisins, þjónustu og framleiðslu. Góður árangur á þessu sviði væri að þegar nafn Íslands væri nefnt kæmi upp í huga manna ímynd hreinleika og gæða.
    Það er jafnframt mat flm. að tryggja þurfi að Ísland standi undir þeirri ímynd sem kynnt er. Því er gert ráð fyrir því í tillögunni að þetta verði kannað sérstaklega svo að hægt verði að bæta úr fljótt og vel ef þörf krefur. Það er forsenda árangurs í kynningarstarfi sem þessu að sú mynd sem dregin er upp sé sannleikanum samkvæm. Því er nauðsynlegt að gott samstarf náist á milli allra viðkomandi aðila svo að góður árangur sé tryggður.
            Herra forseti. Ég legg til að till. verði vísað til hv. allshn.