Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 14:40:31 (1385)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér þykir það miður að hæstv. menntmrh. skuli vera að bera saman námslánakerfi erlendis og það námslánakerfi sem við búum við hér á landi. Ég hélt að samkomulag hefði verið um það í þeirri miklu umræðu sem fram fór í vor og ég hygg að menntmrh. hafi tekið undir, að í raun og veru sé útilokað að bera íslenskt fyrirkomulag, hvort heldur er eldra fyrirkomulagið eða það fyrirkomulag sem komið hefur verið á fyrir tilstuðlan núv. ríkisstjórnar, saman við það fyrirkomulag sem er á stuðningi við námsmenn erlendis. Það er með öllu ósambærilegt og menn eiga því ekki að bera slíka hluti saman því það er rangt.
    Það sem gerði það hins vegar að verkum að ég kvaddi mér hljóðs í andsvari við ræðu hæstv. menntmrh. var að nú guma menn mjög af því að vextirnir skuli vera 1%, bera saman raunvexti á lánum í bankakerfinu og segja að þetta séu algjörir smámunir miðað við það sem menn þurfa að borga í bönkum. Hins vegar er það svo að vextirnir munu hækka og ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því. Þess vegna var mjög hættulegt að taka vextina inn í lögin og það á eftir að koma í ljós hvaða aðferðum menn beita í þeim efnum.
    Hæstv. menntmrh. gumaði einnig af því að núna væri búið að auka mjög tekjutillit hjá lánasjóðnum, menn gætu unnið miklu meira. Það er nú aldeilis gott fyrir námsmenn að geta unnið í atvinnuleysinu.
    Staðreyndin er sú að með því að auka tekjutillitið er verið að opna sjóðinn fyrir þá námsmenn sem ekki þurfa á aðstoð hans að halda. ( Forseti: Ræðutími hv. þm. er liðinn. Bið ég hann um að ljúka máli sínu.) Ég er að ljúka máli mínu, virðulegur forseti. Ég ætla bara að segja að lokum að þeir námsmenn sem ekki geta aflað sér tekna . . .  ( Forseti: Ræðutími hv. þm. er liðinn og bið ég hann um að ljúka máli sínu svo næsti ræðumaður komist að.) Virðulegur forseti, það eru örfá orð eftir. Þeir námsmenn sem ekki geta aflað sér þessara tekna þurfa að gjalda þess að þeir sem hafa nógar tekjur geta fengið stuðning frá lánasjóðnum.