Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 19:20:03 (1416)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 11. þm. Reykn., Rannveig Guðmundsdóttir, fór hér fyrr í dag yfir stöðu þessa máls og afstöðu Alþfl. til þess. Hún greindi frá því að það væru skiptar skoðanir innan Alþfl. varðandi þær breytingar sem gerðar hefðu verið á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Hún greindi frá því að flokksþing Alþfl., sem haldið var fyrr á þessu ári, hefði samþykkt að það skyldi farið yfir stöðu þessa máls og hugað að því hvort ástæða væri til að endurskoða lögin. Ég hef út af fyrir sig litlu við það að bæta sem fram kom hjá hv. þm. Líkt og hv. þm. sagði tel ég að ekki sé komin, að mínu viti, fullkomin reynsla á það hvort þær breytingar, sem hafa verið gerðar á lögunum, hreki fólk frá námi. Það hefur komið fram í þessari umræðu að t.d. kynjahlutfall umsækjenda hjá lánasjóðnum er svipað og verið hefur. Það hefur einnig komið fram í umræðunni að þó að umsækjendur séu færri núna við háskólann, sérstaklega konur sem rætt hefur verið um í þessari umræðu, eru þær fleiri við aðra skóla en verið hefur, Háskólann á Akureyri, Kennaraháskólann, Fósturskólann svo að dæmi sé tekið.
    Það kom fram hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að ef það kemur í ljós þegar reynsla er af þessu fengin að knýjandi ástæða sé til þess að breyta lögunum mun Alþfl. skoða það með opnum huga að gerðar verði breytingar á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég hygg að það sama gildi fyrir Sjálfstfl. Ef það kemur fram knýjandi nauðsyn til breytinga verður málið skoðað með opnum huga.