Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 20:00:48 (1423)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég skal stytta mál mitt og reyna þannig að verða við þeirri ósk forseta að þessari umræðu megi ljúka núna.
    Ég held að það megi segja að umræðan hafi með örfáum undantekningum verið mjög málefnaleg og svo sem engin ástæða til að ætla annað fyrir fram en hún mætti verða það. Ég sagði með örfáum undantekningu og þá nefni ég t.d. það sem hv. þm. Finnur Ingólfsson talaði um, að með þessari lagasetningu á síðasta vori hefðu verið unnin hrein skemmdarverk. Það hefði verið um hreina skemmdarverkastarfsemi að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar að knýja þessa löggjöf í gegnum þingið. Þetta finnst mér vera ranglega sagt og ekki eiga við nein rök að styðjast. Ef menn vilja endilega nota orðið skemmdarverk, þá var verið að vinna skemmdarverk á lánasjóðnum og það þurfti að lagfæra þar ýmislegt. Það var það sem við vorum að gera. En við vorum ekki að vinna skemmdarverk á sjóðnum.
    Það er í leiðinni haldið uppi gagnrýni á niðurskurð og aðhaldsaðgerðir í menntamálum. Það er aldrei sagt hver úrræði stjórnarandstöðunnar kunni að vera. Það má ekki breyta lögunum um lánasjóðinn í þá átt sem við höfum gert. Það má ekki skera niður að öðru leyti í menntamálum, svo að ég tali nú ekki um í öðrum málaflokkum. Hver eru þá úrræðin? Þau hafa ekki verið lögð hér á borðið. Eru það þau gömlu sem áður voru notuð? Hækkaðir skattar og auknar lántökur? Ég veit ekki hvort það eru úrræðin sem áfram á að hafa í frammi.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson spurði líka hvað það þýddi að lánað sé fyrir vöxtunum. Lánasjóðurinn væri að taka lán á venjulegum vöxtum og lána það svo út aftur á 1% vöxtum. Það er alveg rétt en það er það sem sjóðurinn gerir við öll lán sem hann þarf að taka og þau eru nú býsna há. Þau eru öll lánuð út á 1% vöxtum. Allt sem LÍN þarf að taka að láni er lánað út að nýju á 1% vöxtum. Það á ekki að þurfa að koma neinum í opna skjöldu.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson talaði um hækkun skólagjalda við Háskóla Íslands í 22.350 kr. Af hverju geta menn aldrei sagt satt þegar þeir eru að tala um skólagjöldin við Háskóla Íslands? Þau eru 17 þús. kr. til skólans. En skólinn innheimtir fleira, það er alveg rétt en það eru ekki skólagjöld.
    Þessa spádóma hv. þm. Finns Ingólfssonar um að vextir á námslán verði hækkaðir, ef ríkisstjórnin situr áfram, verður hann að fá að halda áfram með ef hann vill. Ef hann trúir því má hann halda áfram mín vegna að telja sjálfum sér trú um að vextirnir muni hækka.
    Ræða hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur gaf vissulega tilefni til að segja hér eitt og annað. En hv. þm. var í svo miklu ójafnvægi að ég legg ekki í það að eiga orðastað við hana. Ég er svo hræddur um að ég valdi enn þá meira ójafnvægi en var í ræðu hv. þm. áðan ef ég fer að svara enda voru svo sem engar sérstakar spurningar. ( GHelg: Vill ekki ráðherrann upplýsa í hverju það ójafnvægi lýsti sér?) Ég get ekki leikið það allt saman eftir, ég hef ekki til þess hæfileika. Ég verð að segja það hreint eins og er. Það lýsti sér í öllu fasi hér í ræðustól, það nægir alveg að segja það. Eitt gæti ég tekið undir með hv. þm. Það er að gaman væri ef fram færi skoðanakönnun í landinu á viðhorfum fólks til þess sem hefur verið gert, til þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég skildi hv. þm. þannig að henni þætti fengur í því að slík skoðanakönnun væri gerð. Ég er alveg sammála því. Mér þætti fengur í slíkri könnun og við skulum athuga það hvort við getum ekki haft áhrif á það að slík könnun verði gerð.
    Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir spurði hvort ég væri fylgjandi því að almennar takmarkanir yrðu teknar upp við Háskóla Íslands. Ég hef sagt það áður og ég ítreka það að ef beiðni kemur fram um það frá Háskóla Íslands að lögum um háskólann verði breytt í þá veru er ég tilbúinn að flytja slíkt frv. En ég mun ekki hafa sérstakt frumkvæði að því. Ég veit að þessar hugmyndir eru uppi í Háskóla Íslands og það er ekkert nýtt. Þær hafa komið upp áður. Háskóli Íslands er eini skólinn á háskólastigi sem telur sig verða að hafa allar sínar dyr opnar fyrir þeim sem vilja þangað inn og hafa stúdentspróf. Og það er rétt vegna þess að lögin um skólann eru þannig. Það er þó í vissum greinum sem hann telur sig hafa heimild til takmörkunar og hann nýtir þær heimildir. En þessar hugmyndir eru sem sagt uppi og ég er tilbúinn að flytja slíkt frv. ef ósk kemur um það frá Háskóla Íslands.
    Ég var einnig spurður að því, og það hafði raunar hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurt um, hvort ætlunin væri að hækka skólagjöldin til Háskóla íslands. Það eru engar áætlanir uppi um það en hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir spurði hvort ég mundi heimila þær, að mér skildist, ef farið yrði fram á það. Ég mundi að sjálfsögðu athuga það ef ósk kæmi fram um það frá háskólanum að fá að innheimta meira en hann hefur heimild til núna.
    Hv. þm. fullyrti að nú ætti að reka konur úr háskólanum. Ég skil ekki af hverju svona fullyrðing er sett fram. Ég bendi hins vegar á að það er staðreynd, þegar verið er með þennan sífellda samanburð, að það er meiri ásókn í ýmsa aðra skóla á háskólastigi en Háskóla Íslands og sérstaklega er meiri ásókn kvenna þangað. Hæstv. félmrh. nefndi Háskólann á Akureyri, Kennaraháskólann og Fósturskólann. Þetta er allt saman rétt en það eru margir fleiri skólar sem krefjast stúdentsprófs. Ég man ekki hvað þeir eru margir, ég held að þeir séu 14 eða 15. Til að þessi samanburður verði marktækur þarf auðvitað að líta til allra þessara skóla. Það er ekki rétt að bera bara saman það sem gerst hefur í Háskóla Íslands. Ég vara við þessum samanburði.
    Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði það sem hefur svo sem verið sagt áður að tilgangur ríkisstjórnarinnar með setningu laganna um lánasjóðinn hafi verið að fækka þeim sem færu til náms. Þetta er ekki rétt. Það var ekki tilgangurinn. Hins vegar vildum við gjarnan hvetja til þess að menn héldu sig að námi og lykju því á þeim tíma sem skóli ætlaði að þyrfti til þess að ljúka náminu. Í núgildandi löggjöf um lánasjóðinn er auðvitað innifalin slík hvatning. Þessar nýju reglur valda sjálfsagt einhverjum afföllum.
    Hv. þm. var afskaplega ánægður með svarið sem hæstv. félmrh. gaf. Ég veit ekki hvort ég á að vera að segja það hér en mig langar samt til að gera það þó ég hafi ekki verið spurður. Ef ýmsar þær fullyrðingar sem hér hafa verið bornar fram um afleiðingarnar af þessari lagasetningu eru réttar finnst mér líka sjálfsagt að endurskoða lögin en það þarf bara ekki til. Og það þarf enga þingsályktun til að endurskoða lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna þegar komin er einhver reynsla á þau. Sú reynsla er ekkert komin. Ég átti kannski ekki að vera að segja þetta því ég ræni þá hv. þm. annaðhvort trúnni eða vantrúnni. Ég veit ekki hvort heldur ég á að nefna.
    Hv. þm. Svavar Gestsson lét í ljós ótta um að þessar reglur gætu orðið hættulegar verknámi og listnámi. Ef svo er tek ég undir það með honum að ástæða sé til að endurskoða reglurnar. Ég vil ekki að lögin um lánasjóðinn verði til þess að hrekja menn frá slíku námi. Ég tel það óheppilegt og vil þess vegna og hef alveg opin augun fyrir því að reglurnar verði endurskoðaðar ef þær hafa þetta í för með sér.
    Varðandi áheyrnaraðild Iðnnemasambandsins þá framsendi ég bréf þeirra, sem þeir sendu mér á sl. sumri, til lánasjóðsins með ósk um að það yrði þar tekið fyrir. Ég hef ekkert farið dult með það að ég hef verið fremur jákvæður gagnvart því að Iðnnemasambandið fengi áheyrnaraðild að lánasjóðsstjórninni en stjórnin hefur ekki enn þá afgreitt það mál.
    Svo aðeins það líka sem hv. þm. nefndi og kom mjög fram í umræðunum á sl. vori að lánasjóðurinn hefði út af fyrir sig staðið vel 1991. Það má vel vera ef ætlunin var þá að gera hann upp. En það var ekki ætlunin. Við ætluðum að halda Lánasjóði ísl. námsmanna áfram og koma því þannig fyrir að hann yrði ekki gjaldþrota í framtíðinni og það var það sem við vorum að gera.
    Svo aðeins vegna þessara samanburðarfræða allra. Ég nefndi hver lán og styrkir væru í öðrum ríkjum Norðurlanda en ég sundurliðaði það ekki svona eins og hv. þm. gerði, en ég tók það fram að þetta væru bæði lán og styrkir. Ég held það væri gagnlegt að hv. menntmn. sem fær þetta frv. til athugunar fari ofan í þetta mál vegna þess að það virðist vera ágreiningur um það hvort við búum við betra kerfi en aðrir. Það kannski skiptir ekki höfuðmáli en mér finnst rétt að þetta verði kannað bara upp á söguna.
    Hæstv. forseti. Ég er sjálfsagt búinn að svíkja loforðið um að vera stuttorður og ég læt því máli mínu lokið.