Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 15:08:33 (1429)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það hefur verið heldur dapurleg vist að taka þátt í störfum hv. fjárln. á þessu hausti. Menn hafa setið næsta ráðvilltir og kallað til sín sveitarstjórnarmenn og ráðuneytismenn og ýmsa aðra aðila og raunalegast hefur verið að sjá að þeir sem að því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, stóðu og unnu trúa harla lítið á það.
    Það er kannski dæmi um það ráðleysi sem ríkir í stjórnarherbúðunum varðandi fjárlagagerðina að hæstv. menntmrh. stóð hér í gær og lýsti því yfir að ríkisstjórnin hefði átt tvo kosti --- við vorum að ræða um Lánasjóð ísl. námsmanna --- að skerða kjör námsmanna eða auka álögur á almenning. Á meðan hæstv. ráðherra var að lýsa þessu átti ég leið niður í kaffisal þar sem við blasti viðtal við hv. formann fjárln., Karl Steinar Guðnason, þar sem hann tilkynnti að nauðsynlegt væri að auka álögur á almenning. Það var dálítið erfitt að koma aftur upp í þingsal án þess að segja hæstv. menntmrh. þessi nýju tíðindi. Það gefur auga leið að ef það er virkilega á dagskrá að um verulegar skattahækkanir verði að ræða umfram það sem kemur fram í fjárlagafrv. er tekjuhlið frv. gjörsamlega út í hött og eiginlega engin leið að ræða þetta frv. á þessu stigi málsins. Ég hef þess vegna kosið að leggja ekki mikla vinnu í það fyrr en málið hefur hlotið einhverja meiri meðferð.
    Það sem blasir við hverjum þeim sem les þetta frv. er að í því er engin stefnumótun. Hér er kafli sem heitir ,,Efnahagsstefnan og markmið fjárlaga``. Það er fyrirsögnin ein vegna þess að þar er engin efnahagsstefna mótuð og því síður nokkur pólitísk stefnumótun. Það eina sem rætt er um hér er að aftur og aftur er sagt að stjórnarflokkarnir stefni að því að sveigja efnahagslífið til frjálsræðis og koma á stöðugleika. Síðan segir á fyrstu blaðsíðu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nauðsynlegt er að búa atvinnulífinu skilyrði til vaxtar og nýta sem best þau sóknarfæri sem felast í aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu.``
    Hvers konar efnahagsstefna þjóðar er það að hafa það eitt að markmiði að erlend samvinna bjargi því sem bjargað verður? Auðvitað er öll slík milliríkjasamvinna gagnslaus ef innri styrkur hverrar þjóðar er ekki eins og æskilegt væri. Það er kannski dæmi um hversu alvarlega menn taka þetta frv. hversu margir hv. þm. sýna fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar þann heiður að vera viðstaddir þessa umræðu. Ég held að ástæðan sé einfaldlega sú að menn vissu að hér yrði svo sem ekki mikil umræða því að það er ekki um neitt að ræða.
    Maður gæti spurt sjálfan sig við lestur þessa frv.: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í byggðamálum? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að styrkja byggðir landsins og atvinnulíf úti í hinum dreifðu byggðum? Það er ekki orð að sjá í þessu frv. um það annað en að framlög til Byggðastofnunar eru skorin niður. Öll framlög til vísis nýrra atvinnuvega eru einnig skorin niður. Menn töluðu hátt um skógræktarátak á Fljótsdalshéraði. Menn eygðu þar von um ofurlítinn atvinnuveg og kannski skóg sem skilaði arði í framtíðinni. Hvað er gert þar? Það er skorið niður. Þegar verið er að hefja þetta starf eru framlög lækkuð. Auðvitað er engin meining með þessu. Menn ætlast ekki til neins af þessu átaki og vænta einskis. Það er Evrópska efnahagssvæðið sem öllu á að bjarga.
    Hvaða skilyrði á að skapa landbúnaði í landinu? Það er ósköp lítið að sjá um það í þessu frv. annað en það að framlög til hans skuli skorin niður sem mest má vera. Samanber að Framleiðnisjóður skuli vera skertur um heilar 50 millj. Eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. minntist á áðan tekur auðvitað enginn mark á einhverju loforði um endurgreiðslu á næsta fjárhagsári. Og þannig er þetta allt saman.
    Gleymum ekki aðalatvinnuvegi landsmanna, sjávarútveginum. Í honum og innan hans eru nú að gerast mikil tíðindi. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því að vinnsla fisks er auðvitað að færast í æ meira mæli út á höfin. Það má kannski segja að við þeirri þróun verði ekki spornað en hitt er annað mál að það verður að bregðast við öllum nýjungum af einhverju skynsamlegu viti. Menn tala aftur og aftur um, og það er svo einkennilegt að þeir nota alltaf sömu orðatiltækin, að þeir ætla að fá hjól atvinnuveganna til

að snúast. Það eru nú meiri hjólin. Hvað skyldi þurfa að gera til þess?
    Menn hafa lengi talað um að það væri nauðsynlegt að lækka vexti. Í fjárlagafrv. sem liggur fyrir er ekkert sem stuðlar að lækkun vaxta. Það er gert ráð fyrir rúmlega 6 milljarða halla á rekstrarreikningi ríkissjóðs sem er 1,6% af framleiðslu í landinu. Hallinn á yfirstandandi ári er talinn verða 9,5 milljarðar kr. sem eru 2,4% af framleiðslunni. Samkvæmt þessu ætti hallinn að verða minni á næsta ári en hann er nú en fyrir okkur liggur frv. til fjáraukalaga þar sem beðið er um rúma 5 milljarða til viðbótar. Er því einhver ástæða til að halda að þessi halli verði öðruvísi á því ári sem í hönd fer? Ég hef enga trú á því. Ég held því að þessi áætlaði halli sé alrangur.
    Það er þess vegna einnig mjög erfitt að sjá hvernig menn hugsa sér að leysa vanda sjávarútvegsins og ég tala nú ekki um verkafólksins sem unnið hefur fiskinn í landi.
    Menn hafa líka ósköp lítinn áhuga á því að jafna tekjuskiptinguna í landinu. Ég hef áður bent á það, og það hafa fleiri hv. þm. gert, að við búum við það að um 490 manns eiga eignir upp á 12 milljarða kr. eða eignir sem samsvara 11% af öllum ríkisútgjöldum í þessu fjárlagafrv. Hefur þetta fólk greitt það sem því ber til þjóðfélagsins? Ég dreg það stórlega í efa og það kom raunar allóþyrmilega í ljós á síðasta ári.
    Ég held að í þessu litla þjóðfélagi verði ekki við þetta búið. Þetta gengur ekki. Það er auðvitað ekki hægt að reka þetta þjóðfélag á samkeppninni einni. 250 þúsund sálir sem eru að reyna að basla við að reka nútímaþjóðfélag með þeirri þjónustu sem nútímaþjóðfélög gera ráð fyrir og við viljum hafa og halda. Það verður ekki gert nema með samvinnu. En orðið samvinna er það síðasta sem þessi hæstv. ríkisstjórn skilur. Hún hefur gripið til þeirra ráða að vaða inn í störf manna í þjóðfélaginu án alls samráðs með valdboðum að ofan, ruglað störf manna og stórskaðað margháttaða þjónustu. Sparnaðurinn af þessu er auðvitað enginn alveg eins og fram hefur komið og hv. 1. þm. Norðurl. e. minntist á. Tala sjúklinga lækkar ekki umtalsvert. Hún er ákveðið hlutfall eins og hún hefur verið og sjúkdóma verður að lækna, ef ekki á einni stofnun þá á annarri. Það er auðvitað ekki til sparnaðar að halda fólki utan þjónustu á biðlistum sem gæti að lokinni lækningu komið aftur út á vinnumarkaðinn. Það er ekki sparnaður að halda slíku fólki á sjúkrabótum mánuðum saman á meðan það bíður eftir þjónustu sem það ætti að fá miklu fyrr. Þannig mætti lengi telja. Venjulega sýnir sig að kostnaðurinn birtist annars staðar.
    Tekjuhliðin í þessu frv. er gjörsamlega í upplausn enn sem komið er. Þegar hafa orðið mikil átök um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar að hefja skattlagningu ýmissa þátta í þjóðfélaginu á ný, svo sem á bækur sem hefði það eitt í för með sér að hinn háþróaði prentiðnaður sem hefur vaxið upp í landinu flyttist einfaldlega til útlanda. Auðvitað er þessu mótmælt og ég efast um að það verði unnt að koma þessu á. Því verður ekki unað. Margt slíkt mætti telja þannig að það væri erfitt að fara yfir í gjaldahliðina og tala um hana í einhverri alvöru.
    Það blasir við hverjum manni að það eina sem hæstv. ríkisstjórn dettur í hug að spara í er skólakerfið, alveg frá byrjun til enda. Grunnskólinn er stórlega skorinn niður, framhaldsskólarnir og háskólinn. Það segir sig sjálft að þetta er auðvitað ekki neinn sparnaður. Slíkt hefnir sín þótt síðar verði.
    Það má satt að segja teljast undravert að menn skuli ekki vera uppgefnir á að stríða við hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum. Það liggur fyrir að kaupmáttur taxtalauna háskólakennara hefur fallið um 30% frá því að félagið gerði fyrstu kjarasamninga sína í apríl 1987. Samt halda þessir menn auðvitað áfram að kenna. Þeir halda áfram að sinna fræðistörfum sínum þó greiðslan fyrir þau hríðfalli ár frá ári. Það er búið að fella niður, eins og hér kom fram í umræðu í gær, 160 námskeið innan háskólans þannig að nemendur hafa átt í erfiðleikum með að raða saman námsönnum sínum vegna þess að námskeiðin voru ekki fyrir hendi. Þetta gengur auðvitað ekki. Þetta er bara misviturra manna ráð sem hér eru á ferðinni.
    Ég þori satt að segja ekki til þess að hugsa ef á að skerða, eins og talað er um, stórlega þjónustu við áfengissjúkt fólk. Ég hef hingað til haldið að sá vandi væri allstór og það mikla verk sem þar hefur verið unnið væri ekki ástæða til að skerða heldur miklu frekar verðlauna. Sem betur fer hafa vegna þessarar starfsemi þúsundir manna komið aftur inn á vinnumarkaðinn eftir hörmungarlíf jafnvel árum saman.
    Þannig mætti endalaust telja. Það er ástæðulaust að fara aftur að ræða um málefni lánasjóðsins. Það var gert ítarlega í gær og von mín er sú að menn sjái fyrr en seinna að þær aðgerðir ganga ekki upp heldur vegna þess að það sem við þörfnumst núna er vel menntað fólk í öllum greinum þjóðfélagsins. Eitt er t.d. það sem fyrirhugað er og búið að gera, að ýta út stórum hópi iðnnema úr lánasjóðnum. Það liggur fyrir að innan skamms tíma stórvantar iðnaðarmenn vegna þess að aðsókn að Iðnskólanum hefur ekki verið nægileg. Ég hélt að það sjónarmið væri löngu úr sögunni að menn gerðu einhvern greinarmun á gildi menntunar, hvort sem hún væri til munns eða handa eins og gamla fólkið sagði.
    Því betur menntað fólk á öllum sviðum þeim mun meiri von er til að við getum byggt upp þjóðfélag sem getur staðið undir sjálfu sér og skilað bæði þeim sem nú lifa og þeim sem síðar taka við blómlegri byggð. Þessi doði og eymdarháttur sem hvílir eins og farg yfir þjóðinni núna er ástæðulaus. Hann er ástæðulaus, hann er heimatilbúinn vandi. Það eina sem heyrist frá fulltrúum stjórnarflokkanna eru atvinnuleysistölur, vonleysi, vol og víl. Það hefur fyrr blásið á móti hér á landi án þess að menn gæfust upp í fyrstu umferð.
    Ég vil þess vegna taka undir með hv. 1. þm. Norðurl. e. að auðvitað leysum við ekkert þann vanda sem við okkur blasir, sem vissulega er umtalsverður, nema í samvinnu. Ekki bara samvinnu innbyrðis á hinu

háa Alþingi heldur í samvinnu við fólkið í landinu. Við verkalýðssamtökin, við þá sem á þeim stofnunum vinna sem við viljum reyna að hagræða í, í samvinnu við alla þá aðila sem að þjóðlífinu koma. Það þýðir ekki að ætla að ráðskast með fólk með einhverjum valdboðum ofan frá. Það gengur ekki. Ef stjórnarflokkarnir vita það ekki ætti þeim að verða fljótlega ljóst að þeir komast ekkert nema í samvinnu við stjórnarandstöðuna.
    Það er gert í fullri alvöru að Alþb. hefur lagt vinnu í að leggja fram tillögur sem eru til skoðunar fyrir hvern sem vill skoða þær. Okkur er algjörlega ljóst að við höfum enga allsherjarlausn á vanda þjóðarinnar. Það hefur aldrei staðið til. En betur sjá augu en auga og við höfum boðið, bæði samþingmönnum okkar og öllum þeim sem við okkur vilja tala um lausn þessa vanda, upp á umræður um málið. Ég held að því fyrr sem þær umræður hefjast því betra því ég fæ ekki séð að ríkisstjórnin liggi með nein þau ráð sem geti dugað þjóðinni eins og mál standa nú.
    Frú forseti. Það er kannski barnalegt, kannski einfeldningslegt, ég veit það ekki, að segja að síðustu: Það sem vantar í þetta fjárlagafrv. er ekki síst væntumþykja. Þeim sem senda frá sér slíkt fjárlagafrv. er sama um þjóðina. Þeir bera enga umhyggju fyrir fólkinu í landinu og lífi þess. Það eru menn sem horfa á einhverja talnadálka og skera hér og skera þar, en það er ekki með besta vilja hægt að eygja að það sé reynt að komast hjá því að skaða fólkið í landinu því það er fyrst og fremst þar sem að er vegið. Ég gæti boðið fram aðstoð mína við að skera niður víða í ríkiskerfinu. Við höfum ótal tillögur um það. En þar komum við að heilögum kúm sem ekki má hrófla við vegna þess að auðvitað á endanum vilja menn ekkert breyta tekjuskiptingunni í landinu.
    Það sýnir sig að það er verið að gera tilraun til að hverfa aftur til þess tíma þegar einungis efnamannabörn gengu í skóla. Menn verða að vita að ef þeir segja A þá eru þeir að segja B líka. Auðvitað er aðförin að lánasjóðnum beinlínis liður í því að stéttskipta þessu þjóðfélagi. Þetta er ekki fjárlagafrv. jafnaðar þó að Jafnaðarmannaflokkur Íslands standi að því. Því fer fjarri. Þetta er einfaldlega fjárlagafrv. sem breikkar bilið milli ríkra og fátækra í landinu. Ég hef einhvern veginn grun um að menn, a.m.k. trúi ég því enn, að alþýðuflokksmenn vilji þetta ekki endilega. En af hverju þeir eru með í þessu veit ég ekki. Kannski geta þeir bara ekki betur. Ég veit ekki hvort þeir sjá þetta ekki. En við eigum eftir að heyra í virðulegum formanni fjárln. sem skýrir þetta kannski fyrir okkur.
    Hæstv. forseti. Ég sé engan tilgang í því að fara í gegnum ýmsa þá gjaldaliði sem ég mun auðvitað á síðari stigum og við 2. umr. gera stórlegar athugasemdir við. Þó get ég ekki stillt mig um að segja það einu sinni enn, og hef sagt það nokkrum sinnum áður, það verður eins og yfirlýsing Catós gamla, að eitt það fyrsta sem blasir við okkur þegar við lesum gjaldaliðina er að áfram ætlar þjóðin að bjóða forseta lýðveldisins upp á það að hafa ekki húsnæði á forsetasetrinu. Ég hef sagt það áður og segi það enn: Ef þjóðin hefur ekki efni á að eiga bústað fyrir forseta lýðveldisins þá fer maður kannski að trúa því að svo sé eymdin öll að vonlaust sé að reyna úr að bæta. Ég vona þó svo sannarlega að svo sé ekki, hæstv. forseti, en mun gera gjaldahlið þessa eymdarlega frv. svartsýni og vesældar betri skil við 2. umr.
    Ég hef lokið máli mínu, frú forseti.