Sala rafmagns til skipa

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 11:11:48 (1476)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að segja nokkur orð aðeins til að undirstrika stuðning við þessa tillögu. Ég tel að hún sé hin merkasta og henni beri að framfylgja sem allra fyrst, ekki einungis að því er varðar rafmagn til skipa og annars rekstrar í sambandi við sjávarútveg, heldur á auðvitað að nýta alla þá orku, sem við þegar höfum virkjaða og ekki nýtum, á sem allra hagkvæmastan hátt. Jafnvel á að herða á virkjunarframkvæmdum frekar en hið gagnstæða, að draga úr. Við vitum það að málið sem var til umræðu áðan í sambandi við mengun og mengunarvarnir tengist þessu mikilvæga máli. Við megum ekki láta deigan síga þó að menn séu svartsýnir, óþarflega svartsýnir á stundum. Við eigum einmitt að snúa vörn í sókn. Það eru okkar dýrmætustu verðmæti sem við erum nú að ræða um, annars vegar auðlindir sjávarins og hins vegar orkan.
    Ég endurtek stuðning við þetta mál og ítreka þá beiðni til þingmanna að þeir hraði framgangi málsins.